Stjörnustríð er kvikmyndasyrpa sem upphaflega var sköpuð af bandaríska leikstjóranum George Lucas. Fyrsta myndin, sem hét einfaldlega Stjörnustríð, var frumsýnd 15. maí 1977 og naut mikilla vinsælda. Hún fékk síðar nafnið Ný von. Á eftir henni komu tvær framhaldsmyndir, Gagnárás keisaradæmisins (1980) og Jedinn snýr aftur (1983). Sextán árum síðar var gerð forsaga í þremur kvikmyndum, Stjörnustríð - Fyrsti hluti: Ógnvaldurinn (1999), Stjörnustríð: Annar hluti — Árás klónanna (2002) og Stjörnustríð: Þriðji hluti — Hefnd Sithsins (2005). Árið 2015 var fyrsta myndin í framhaldsþríleik frumsýnd; Stjörnustríð: Mátturinn vaknar og önnur myndin, Stjörnustríð: Síðasti Jedinn var frumsýnd í desember 2017. Þriðja og síðasta myndin í þriðja þríleiknum, Stjörnustríð: Geimgengill rís, var frumsýnd í desember 2019.

Merki myndanna.
Þessi grein fjallar um kvikmyndasyrpuna í heild. Stjörnustríð: Ný von fjallar um fyrstu myndina.

Þrjár kvikmyndir hafa verið gerðar sem falla utan við röðina: teiknimyndin Stjörnustríð: Klónastríðin (2008), Rogue One: Stjörnustríðssaga (2016) og Solo: Stjörnustríðssaga (2018). Mikið af bókum, myndasögum, tölvuleikjum, teiknimyndum og sjónvarpsþáttum hefur verið gert, sem fellur allt undir söguheim Stjörnustríðs.

Stjörnustríðsheimurinn breyta

Stjörnustríðsmyndirnar gerast á fjarlægri vetrarbraut; allar Stjörnustríðsmyndirnar (og mest af öðrum Stjörnustríðsskáldskap) hefjast á setningunni „Endur fyrir löngu, í fjarlægri vetrarbraut“. Margar plánetur í þessari vetrarbraut eru undir stjórn Geimlýðveldisins sem síðar breyttist í Keisaradæmið.

Þeir öflugustu í Stjörnustríðsheiminum eru Jediriddarar og Sithar. Þeir hafa mesta valdið yfir mættinum og nota yfirleitt geislasverð. Mátturinn gefur handhafa sínum vald til þess að m.a. ýta og toga hluti án snertingar við þá; Jediriddarar nota hann yfirleitt á góðan hátt og til að verja sig, en Sithar nota hann oft á verri hátt, til dæmis til að kyrkja fólk og senda frá sér eldingar.

Jediar og Sithar eru mennskir í kvikmyndunum (í söguheiminum eru Sithar sérstök tegund), en aðrar tegundir söguheimsins eru meðal annars vákar, evokar, sandarar, Glyrnungar (Jawa) og hlunkar (t.d. hinn alræmdi Jabba Hutt), mandalorar, rodar og twi'lekar.

Söguþráður breyta

Forleikurinn, myndir I, II og III, fjalla um Anakin Geimgengill sem Qui-Gon Jinn finnur sem ungan strák á plánetunni Urður (Tatooine); Qui-Gonn trúir að Anakin muni skapa jafnvægi milli ljósu og myrku hliða máttarins og hjálpar honum að flýja þrældóm. Jedaráðið spáir því að líf Anakins verði eyðilagt af ótta og hatri, en leyfir þó Obi-Wan Kenobi, lærlingi Qui-Gon, að þjálfa Anakin, eftir að Darth Maul drepur Qui-Gon í lok fyrstu myndarinnar. Á sama tíma er verið að gera árás á plánetuna Naboo, undir stjórn drottningarinnar Padmé Amidala, og Jedarnir eru beðnir um liðsinni. Árásin er hluti af leynilegri áætlun Darth Sidious til að þingmaðurinn Palpatine (sem er hann sjálfur) nái að yfirtaka embætti kanslara lýðveldisins. Myndir II og III fjalla um Anakin sem dregst smám saman að myrku hlið máttarins. Í mynd II berst hann í Klónastríðunum, sem líka eru hluti af áætlun Palpatines, til að fá Anakin yfir að hinni myrku hlið máttarins. Anakin verður ástfanginn af Padmé og þau giftast í leyni. Í mynd III dreymir Anakin draum þar sem hann sér Padmé deyja í barnsnauð. Hann leitar hjálpar og finnur Darth Sidious (Palpatine) í geislasverðsbardaga við Mace Windu, þar sem hann drepur Windu og verður vinur Sidious. Anakin breytir svo nafni sínu í Darth Vader (sem hefur verið íslenskað sem „Svarthöfði“), Sidious sannfærir hann um að hann geti bjargað Padmé. Í lok myndar III særir Obi-Wan Kenobi Anakin með geislasverði í bardaga; á sama tíma deyr Padmé við að fæða tvíburana Loga Geimgengil og Lilju Prinsessu.

Mynd IV, Ný von, hefst 19 árum seinna þar sem Svarthöfði er langt kominn við byggingu Helstirnisins, geimskips sem getur eyðilagt plánetu með einu öflugu geislaskoti. Geimskipinu er ætlað að útrýma bandalagi uppreisnarmanna sem varð til í andstöðu við keisaraveldið. Svarthöfði hefur rænt Lilju prinsessu sem hefur stolið teikningum af Helstirninu. Áður nær hún að koma teikningunum undan með því að fela þær í vélmenninu R2D2 sem flýr til plánetunnar Tatooine ásamt vélmennatúlknum C3PO. Vélmennin komast í hendur Loga Geimgengils sem með aðstoð Obi-Wan Kenobi og Hans Óla bjargar Lilju úr klóm Svarthöfða og kemur teikningunum í hendur uppreisnarmanna. Í lok myndarinnar gera uppreisnarmenn árás á Helstirnið og Logi og R2D2 tekst að sprengja það í loft upp. Í mynd V eru uppreisnarmenn á flótta undan keisaraveldinu. Andi Obi-Wan sendir Loga til Jedimeistarans Yoda til að hann fái þjálfun í notkun máttarins. Á meðan eru Lilja prinsessa og Hans Óli svikin í hendur Svarthöfða í Skýjaborg Lando Kalrissian. Svarthöfði lætur hausaveiðarann Boba Fett fá Hans, sem hefur verið frystur, svo hann geti selt hann í hendur Jabba Hlunkur á Tatooine. Logi berst við Svarthöfða sem segir honum að hann sé í raun faðir hans. Svarthöfði sker aðra höndina af Loga sem fellur niður en er bjargað af Lilju og Lando. Í mynd VI bjarga Lilju og Logi síðan Hans úr klóm Jabba. Keisaraveldið er þá langt komið með smíði nýs Helstirnis. Uppreisnarmennirnir hyggjast gera árás en fyrst verða Lilja prinsessa og Hans að aftengja orkuskjöld sem umlykur það frá plánetunni Endor. Svarthöfði nær Loga á sitt vald og berst við hann fyrir framan keisarann. Á síðustu stundu snýst Svarthöfða hugur og hann drepur keisarann en særist við það til ólífis. Logi fer með lík föður síns til Endor þar sem hann fær bálför.

Síðasti þríleikurinn hefst 30 árum eftir lok sjöttu myndarinnar. Logi er horfinn og Frumreglan vinnur að því að endurreisa keisaradæmið. Sonur Lilju prinsessu og Hans, Kylo Ren, er í þjónustu Frumreglunnar þar sem hann gegnir svipuðu hlutverki og afi hans, Svarthöfði, hjá keisaraveldinu. Frumreglan er langt komin með smíði nýs Helstirnis. Skransafnarinn Ray slæst í för með fyrrum stormsveitarmanni Frumreglunnar, Finn, til að koma korti af staðsetningu Loga til uppreisnarmanna. Með aðstoð Hans Óla og Loðins (Chewbacca) tekst þeim að sprengja Helstirnið. Í lok myndarinnar finnur Ray Loga á plánetunni Ahch-To.

Kvikmyndir breyta

Framhaldsmyndirnar breyta

Upprunalegu Stjörnustríðsmyndirnar eru þrjár talsins; Sú fyrsta, Stjörnustríð, kom út árið 1977. Árið 1981 var myndin endurútgefin sem Stjörnustríð - Fjórði hluti: Ný von, sem passar betur inn í nafnakerfi seinni myndanna. Önnur myndin, Gagnárás keisaradæmisins, kom út árið 1980. Árið 1983 kom þriðja myndin, Jedinn snýr aftur, út. Aðalpersónan í þessum þremur myndum var Logi Geimgengill, leikinn af Mark Hamill. Aðrar persónur voru meðal annars Han Solo, leikinn af Harrison Ford, Leia prinsessa, leikin af Carrie Fisher og Svarthöfði, leikinn af David Prowse.

Árið 1997 kom út sérstök safnaraútgáfa á VHS með fyrstu þremur myndunum (IV, V og VI). Þar var búið að bæta myndgæðin með tölvutækni, til dæmis voru notuð þrívíddarmódel í staðinn fyrir leikbrúður. Atriðum var líka bætt við og auk þess fylgdi aukaefni með viðtölum og stuttmyndum um tæknileg atriði, eins og að yfirborð Helstirnisins hafi verið búið til úr borðtennisborðum og dóti völdu af handahófi.

Árin 1999-2005 komu þrjár nýjar Stjörnustríðsmyndir út. Þær mynda forsögu hinna myndanna þriggja. Þessar myndir eru Stjörnustríð - Fyrsti hluti: Ógnvaldurinn (1999), Stjörnustríð - Annar hluti: Árás klónanna (2002) og Stjörnustríð - Þriðji hluti: Hefnd Sithsins (2005).

Árið 2012 keypti Disney Corporation framleiðslufyrirtækið Lucasfilm af George Lucas. Ákveðið var að gera þrjár framhaldsmyndir (VII, VIII og IX). Sú fyrsta, Stjörnustríð: Mátturinn vaknar, var frumsýnd árið 2015, Stjörnustríð: Síðasti jedinn var frumsýnd í desember 2017 og síðasta myndin í þríleiknum, Stjörnustríð: Geimgengill rís, í desember 2019.

Tónlistin í myndunum er eftir John Williams.

Aukamyndir breyta

Árið 2008 kom út teiknimyndin Stjörnustríð: Klónastríðin. Árið 2016 kom út aukamynd (utan við aðalkvikmyndaröðina); Rogue One: Stjörnustríðssaga, sem fjallar um það þegar uppreisnarmenn stela teikningum Keisaraveldisins af Helstirninu í aðdraganda 4. myndarinnar Ný von. Árið 2018 kom út önnur aukamynd, Solo: Stjörnustríðssaga sem segir frá því þegar Han Solo hittir Loðinn og kemst yfir geimskipið Þúsaldarfálkann, en aðsókn á hana olli vonbrigðum og fékk Disney til að endurskoða áætlanir sínar um framhald Stjörnustríðsmyndanna. Árið 2019 hóf ný streymisveita Disney, Disney+, göngu sína með leikinni framhaldsþáttaröð, Mandalorinn, sem gerist í Stjörnustríðsheiminum. Allar þessar myndir segja frá persónum úr aðalmyndaröðinni en falla utan við meginsöguþráðinn.

Þáttaraðir breyta

Teiknimyndaþættir um Klónastríðin voru sýndir frá 2003 til 2005 og frá 2008 til 2020 voru þrívíddarteiknaðir þættir með sama heiti sýndir. Helstu persónur þáttanna eru Anakin Geimgengill, Obi-Wan Kenobi og Ahsoka Tano, lærlingur Anakins. Annar teiknimyndaþáttur Uppreisnarmenn var sýndur frá 2014 til 2018. Árið 2021 hóf þrívíddarteiknaða þáttaröðin The Bad Batch göngu sína.

Árið 2019 hóf ný streymisveita Disney, Disney+, göngu sína með nýjum leiknum framhaldsþáttum, Mandalorinn, með persónum úr Stjörnustríðsheiminum. Sögutími Mandalorans er 5 árum eftir Jedinn snýr aftur og 25 árum áður en Mátturinn vaknar gerist. Þættirnir vöktu mikla athygli og áttu þátt í að laða notendur að nýju streymisveitunni. Disney fylgdi þáttunum eftir með fleiri leiknum þáttaröðum eins og The Book of Boba Fett (2021), Obi-Wan Kenobi (2022) og Andor (2022).

Aðrar myndir breyta

Nokkrar aðrar Stjörnustríðsmyndir myndir hafa komið út. Þar má nefna The Star Wars Holiday Special, tveggja tíma jólamynd sem var aðeins sýnd einu sinni í sjónvarpi og aldrei gefin út. Myndin fékk afar slæma dóma hjá gagnrýnendum og aðdáendum myndanna. Einnig hafa komið út myndirnar Caravan of Courage: An Ewok Adventure (1984), Ewoks: The Battle for Endor (1985), The Great Heep (1986) og Lego Star Wars: The Quest for R2-D2 (2009).

Persónur úr Stjörnustríði og Mark Hamill (sem hann sjálfur) komu fram í 417. þætti Prúðuleikaranna í janúar 1980 til að kynna nýju myndina, Gagnárás keisaradæmisins. Einn af brúðumeisturum Prúðuleikaranna, Frank Oz, tók þátt í gerð myndarinnar. C-3PO og R2-D2 komu líka fram í tveimur þáttum af Sesame Street sama ár.

Tölvuleikir breyta

Fjöldamargir Stjörnustríðstölvuleikir hafa verið gefnir út í gegnum tíðina. Sá fyrsti, The Empire Strikes Back, kom út árið 1982 fyrir Atari 2600-leikjatölvuna. Síðan þá hafa rúmlega 100 tölvuleikir verið gefnir út. Má þar nefna The Old Republic-seríuna, Jedi Knight-seríuna og The Force Unleashed-seríuna.

Íslenska þýðingin breyta

Hersteinn Pálsson, blaðamaður og þýðandi, gerði fyrstu þýðinguna á sögunni í bókinni Stjörnustríð sem kom út árið 1978, samhliða frumsýningu myndarinnar í Nýja bíói. Líkt og hefð er fyrir í fantasíum (en síður í vísindaskáldskap) íslenskaði hann sérheiti og nöfn. Sum þessara nafna hafa haldist síðan, eins og Svarthöfði og Logi Geimgengill, en önnur ekki, eins og Væringjar (Jedi) og Hans Óli (Han Solo).