Blade Runner

Blade Runner er vísindaskáldsögumynd eftir Ridley Scott frá 1982, með Harrison Ford, Rutger Hauer, Sean Young og Edward James Olmos í aðalhlutverkum. Myndin byggist lauslega á skáldsögu Philip K. Dick Do Androids Dream of Electric Sheep? frá 1968. Myndin gerist í dystópískri framtíð árið 2019 í Los Angeles, þar sem gervimenni eru framleidd af stórfyrirtækinu Tyrell Corporation með líftækni til að vinna í geimnýlendum. Hópur gervimenna flýr aftur til jarðar og lögreglumaðurinn Rick Deckard (Ford) fær það verkefni að ná þeim og eyða þeim.

Stigahús Bradbury-byggingarinnar í Los Angeles var notað í myndinni.

Blade Runner gekk illa í byrjun og var gagnrýnd fyrir hæga framvindu og skort á spennu. Hún varð síðar költmynd og er nú álitin ein af bestu vísindaskáldsagnamyndum allra tíma og eitt besta dæmið um ný-noir-mynd. Tónlistin í myndinni, eftir Vangelis, var tilnefnd til BAFTA-verðlauna og Golden Globe-verðlauna.

Kvikmyndin hafði mikil áhrif á aðrar vísindaskáldsögumyndir, bókmenntir, tölvuleiki og teiknimyndir. Hún vakti athygli á verkum Philip K. Dick og síðan hafa verið gerðar fleiri myndir eftir bókum hans, eins og Total Recall (1990), Minority Report (2002) og A Scanner Darkly (2006). Árið 2017 kom út framhaldsmyndin Blade Runner 2049 eftir Denis Villeneuve.

Wiki letter w.svg  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.