Ulises Saucedo (f. 3. mars 1896 - d. 21. nóvember 1963) var knattspyrnuþjálfari og -dómari frá Bólivíu. Hann er einkum þekktur fyrir að hafa tekið þátt í fyrstu heimsmeistarakeppninni árið 1930 bæði sem þjálfari og dómari.

Ævi og ferill breyta

Saucedo hélt sem ungur maður til Englands til að kynna sér knattspyrnu sem þá var að slíta barnsskónum í heimalandi hans. Hann mun hafa leikið með enska liðinu Billericay Town F.C. á seinni hluta þriðja áratugarins en ekki er vitað hversu marga leiki hann spilaði. Hann var aftur kominn til Bólivíu árið 1930 þar sem hann stýrði knattspyrnuliðinu The Strongest til sigurs í La Paz meistarakeppninni, sem talin var helsta knattspyrnukeppni í Bólivíu áður en deildarkeppni var stofnsett árið 1950. Tveimur árum síðar gerði hann hitt stórveldi bólivíska fótboltans, Club Bolívar einnig að meisturum, en þeirri keppni var raunar hætt í miðjum klíðum þegar Chaco-stríðið milli Bólivíu og Paragvæ braust út.

Heimsmeistarakeppnin í Úrúgvæ breyta

Kunnastur er Saucedo fyrir óvenjulegan þátt sinn í fyrstu heimsmeistarakeppninni í fótbolta. Hann var þjálfari bólivíska landsliðsins, staða sem hann gegndi frá 1930 til 1937. Fyrir keppnina hafði Bólivía aldrei unnið landsleik og það breyttist ekki að þessu sinni, þar sem liðið tapaði fyrir Júgóslövum og Brasilíumönnum, 4:0 í bæði skiptin.

Leikirnir tveir fóru fram 17. og 20. júlí. Athygli vakti að á milli þeirra, þann 19. júlí, tók Saucedo að sér að dæma viðureign Argentínu og Mexíkó, sem telja má einsdæmi. Saucedo dæmdi þrjár vítaspyrnur í leiknum. Auk þess að dæma einn leik var hann línuvörður í fimm viðureignum til viðbótar sem allar innihéldu tvö sterkustu liðin, Argentínu og Úrúgvæ. Þar á meðal var hann með línuvarðarflaggið í sjálfum úrslitaleiknum. Þjálfari rúmenska liðsins var sömuleiðis fenginn í línuvörslu á mótinu, sem er til marks um hversu mikið fyrirtæki það var að koma mönnum til Úrúgvæ á þessum árum.

Saucedo lést á Spáni árið 1963.

Heimildir breyta