Jóhann Bessason (fæddur 28. júlí 1839 í Skógum, Fnjóskadal – látinn 19. júlí 1912 á Skarði) var bóndi og smiður á Skarði í Dalsmynni. Hann lærði smíðar hjá Tryggva Gunnarsyni (síðar þingmaður og bankastjóri). Jóhann byggði burstabæinn í Laufási við Eyjafjörð, og var aðalsmiður kirkjunnar þar en Tryggvi yfirsmiður [1]. Hann byggði einnig Flateyjarkirkju (sem var fyrst á Brettingsstöðum) [2], burstabæ á Látrum á Látraströnd og fleiri byggingar.

Jóhann Bessason, 1895. Myndin birtist í tímaritinu Óðni 1907, með þeim ummælum að Jóhann væri talinn líkastur Agli Skalla-Grímssyni af þálifandi Íslendingum

Jóhann var þekktur á sinni tíð fyrir dugnað og hugvit, meðal annars í grenjavinnslu, áveitugerð, túnasléttun og við smíðar á tré og járni. Frægt varð þegar hann var við járnsmíðar vorið 1882, er hvítabjörn kom í gættina á smiðjunni en Jóhann rak hann burt með glóandi járn að vopni.

Jóhann var kvæntur Sigurlaugu Einarsdóttur, Bjarnasonar ráðsmanns í Laufási og gátu þau 13 börn. Afkomendur þeirra eru kallaðir Skarðsætt, og eiga jörðina ennþá, síðan 1869.

Tenglar breyta

Tilvísanir breyta

  1. Laufás í Eyjafirði. Þjóðminjasafn.is, skoðað 8. maí 2020.
  2. Flateyjarkirkja á Skjálfanda Geymt 16 september 2019 í Wayback Machine Minjastofnun. Skoðað 8. maí 2020.