Torfi Bjarnason (28. ágúst 183824. júní 1915) var skólastjóri Ólafsdalsskólans við Gilsfjörð. Hann er einna þekktastur fyrir að vinna að framförum í landbúnaði á Íslandi, aðallega með stofnun Ólafsdalsskólans og með því að stuðla að útbreiðslu Torfaljásins og Ólafsdalsplógsins. Hann var fyrstur Íslendinga til að nema jarðyrkju í útlöndum.

Æska og foreldrar

breyta

Torfi fæddist að Skarði á Skarðsströnd. Faðir hans var Bjarni Bjarnason en móðir hans hét Ingibjörg Guðmundsdóttir. Þriggja ára gamall fluttist Torfi með foreldrum sinum að Bessatungu í Saurbæ og þar ólst hann upp fram yfir tvítugsaldur. Árið 1860 fór hann norður að Þingeyrum til Ásgeirs frænda síns og var hjá honum nokkur ár. Var þá í ráði fyrir Húnvetningum að stofna hjá sér fyrirmyndarbú og fá Torfa til forustu þess. Í því skyni sigldi Torfi til Skotlands til að læra jarðyrkju fyrstur íslendinga.

Skotland

breyta

Í Skotlandi ritaði hann búnaðarmálabréfin þrjú sem birtust í Nýjum félagsritum (XXV. árg.). Um þessi bréf Torfa segir í Sunnanfara 1901, að þau séu rituð „af svo mikilli greind og framsýnu fyrirhyggju-viti, að mjög mikið er á að græða enn, slík ókjör, sem rituð hafa verið um búnað og búnaðarmálefni síðan vor á meðal“. Það mun hafa verið Jón Sigurðsson, er á marga lund hvatti og uppörvaði Torfa á þessum árum. Kemur það víða fram í bréfum Jóns, að hann hefur haft miklar mætur á Torfa og borið hið besta traust til hans. Sama ár og búnaðarbréfin komu út i Nýjum Félagsritum birtist verðlaunaritgjörð Torfa: „Hvað á að gjöra til að draga úr hinum mikla manndauða hér“, sem þótti stórmerk ritgjörð. Hana samdi Torfi meðan hann var vinnumaður í Húnaþingi.

Torfaljárinn

breyta

Í Skotlandsvist sinni kynntist Torfi nýju lagi á ljáum. Breytti hann lagi þeirra eftir íslenskum aðstæðum og smíðaði eftir þeirri fyrirmynd 12 ljáblöð sem hann tók með sér heim — og reyndi hér. Varð sú reynsla með þeim hætti, að skosku ljáirnir, sem síðar voru kallaðir Torfaljáir, útrýmdu íslensku ljáunum á 2—3 árum. Segir svo um Torfa-ljáina í æviágripi Torfa í Sunnanfara, að þeir muni vera: „hér um bil hin mesta búnaðarframför á öldinni sem leið, er aflað mundi hafa upphafsmanninum auð fjár, hvar sem var um hinn menntaða heim annarsstaðar en hér, — sem sé með einkaleyfissölu. Ljáum þessum eiga skógarleifar vorar líf sitt að þakka, það litlar sem þeir eru; en engin skógarhrísla væri liklega til á landinu nú, ef ljáadengslan mikla hefði haldið áfram.“ En í ljáadengsluna fór mikið af kol og kolagerð á Íslandi eyddi skógum á þeim árum.

Fyrstu búskaparárin

breyta

Árið 1867 kom Torfi heim og kvæntist þá frændsystur sinni, Guðlaugu Sakaríasdóttur frá Heydalsá, fósturdóttur Ásgeirs, alþingismanns og bónda á Kollafjarðarnesi og á Þingeyrum, en móðir Guðlaugar var Ragnheiður systir Ásgeirs. Reistu þau bú fyrst á Varmalæk í Borgarfirði, en fluttust þaðan eftir tveggja ára dvöl, og munu aðallega hafa tekið sig upp vegna þess þjóðbrautar-erils er jörðinni fylgdi. Keypti Torfi þá Ólafsdal, árið 1871, af Jóni Bjarnasyni alþingismanni, og bjó þar jafnan síðan.

Í Ólafsdal

breyta

Torfi gerði mikið fyrir jörðina eftir kaupin. Ólafsdalur var nokkrum árum síðar flestum jörðum betur húsaður; tún slétt, girðingar ágætar og slíkur fyrirmyndar frágangur á öllu innanhúss sem utan að vart sást annað eins myndarbýli á landinu. Árið 1880 stofnaði Torfi Ólafsdalsskólann á eigin spýtur og hélt honum einn uppi fyrstu 5 árin, en fékk sér þá aðstoð. Stóð skólinn með miklum blóma fullan aldarfjórðung. Venjulega voru 12 lærisveinar, 6 nýir á hverju ári í skólanum. Úr hópi lærisveina Torfa urðu margir frægir búfræðingar.

Auk skólastjórastarfsins var Torfi hlaðinn mörgum og miklum öðrum störfum í þarfir sveitarfélags, sýslu og amts. Hann stofnaði verslunarfélag Dalamanna 1885, kaupfélag Saurbæinga 1899, og var lífið og sálin i öllum félagsskap þar um slóðir um margra ára skeið. En við stjórnmálastarfsemi vildi hann aldrei fást, þótt hann ætti þess margsinnis kost að taka að sér þingmensku fyrir Dalasýslu.

Eitt framfarafyrirtækið, sem Torfi beitti sér fyrir, var að koma upp tóvinnuvélum í Ólafsdal — með miklum erfiðismunum. En verksmiðjan brann nokkrum árum síðar. Í blöð og tímarit ritaði Torfi ógrynnin öll og allt var það verið einkennt sömu kostunum: eldlegum áhuga fyrir framsókn og framförum landbúnaðar, eindreginni fyrirlitningu á ómennsku, ónytjungsskap og tómlæti, samfara óvenju mikilli greind og haldgóðri margra ára eigin reynslu.

   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.