Þjóðfrelsishreyfing Tígra

Eþíópísk stjórnmálahreyfing
(Endurbeint frá TPLF)

Þjóðfrelsishreyfing Tígra (tígrinja: ህዝባዊ ወያነ ሓርነት ትግራይ, hizbāwī weyānē ḥārinet tigrāy) er vinstrisinnuð hernaðarhreyfing og fyrrum stjórnmálaflokkur í Eþíópíu. Í daglegu tali er hreyfingin gjarnan kölluð TPLF eftir nafni sínu á ensku, Tigray People's Liberation Front. Flokkurinn er einnig kallaður Hehewat, sem byggist á skammstöfun á opinberu heiti hans: ህወሓት.

Þjóðfrelsishreyfing Tígra
ህዝባዊ ወያነ ሓርነት ትግራይ
Leiðtogi Debretsion Gebremichael
Stofnár 18. febrúar 1975; fyrir 49 árum (1975-02-18)
Höfuðstöðvar Mekelle
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Þjóðernishyggja tígra, þjóðflokkamiðuð sambandsstjórnarstefna, jafnaðarstefna
Áður:
Kommúnismi, marx-lenínismi, hoxhaismi

Heitið Weyane (tígrinja: ወያነ) eða Weyané (amharíska: ወያኔ) er notað bæði um hermenn hreyfingarinnar og um flokkinn í heild sinni. Orðið hefur bæði jákvæða og neikvæða skírskotun.

Hreyfingunni var stýrt af Meles Zenawi frá 1989 þar til hann lést árið 2012. TPLF réð í reynd yfir Eþíópíu frá 1991 til 2018 en hefur átt í vopnuðum átökum gegn nýrri ríkisstjórn landsins frá árinu 2020. Núverandi stjórnvöld Eþíópíu skilgreina TPLF sem hryðjuverkasamtök.[1][2]

Söguágrip

breyta

Í byrjun áttunda áratugarins stofnuðu byltingarhópar í Tígraí-héraði Þjóðarsamtök Tígra (ONT). Samtökin komu á fót leynilegum deildum í héraðinu og stóðu fyrir áróðursherferðum til alþýðunnar. ONT lék lykilhlutverk í að fylkja íbúum Tígraí-héraðs í uppreisn sem var gerð árið 1974. Eftir að Derg-herstjórnin tók við völdum í Eþíópíu lýsti ONT því yfir að nauðsynlegt væri að heyja vopnaða baráttu til að steypa nýju stjórninni af stóli.

Í febrúar 1975 breytti ONT nafni sínu í Þjóðfrelsishreyfingu Tígra (TPLF).[3] Hreyfingin barðist ásamt öðrum andspyrnuhreyfingum á borð við Frelsisfylkingu Eritreuþjóðar gegn einræðisstjórn Derg-hershöfðingjans Mengistu Haile Mariam og lagði undir sig hluta Eþíópíu, meðal annars fornu héruðin Wollo og Gondar.[4]

Árið 1983 stofnuðu leiðtogar TPLF Marx-lenínista-bandalag Tígraí og tóku jafnframt upp viðurnefnið Woyane með tilvísun í Woyane-uppreisnina sem hafði verið gerð árið 1943.[5]

Á þessum tíma var TPLF stýrt af miðnefnd og stjórnmálanefnd. Flokknum var skipt í fjórar einingar. Þar af voru þrjár staðsettar í Tígraí-héraði og sú fjórða stýrði aðgerðum þeirra erlendis frá, sér í lagi frá Súdan, Mið-Austurlöndum, Evrópu og Norður-Ameríku.[6]

Árið 1991 sagði TPLF skilið við marx-leníníska stefnu sína vegna hnignunar flestra kommúnistastjórna heims á þeim tíma. Marx-lenínista-bandalag flokksins var leyst upp og TPLF studdi Lýðræðis- og byltingarhreyfingu eþíópísku þjóðarinnar (EPRDF), sem tók við völdum eftir fall Derg-stjórnarinnar árið 1991.

TPLF réð í reynd yfir Eþíópíu frá 1991 til 2018 sem stærsta stjórnmálaaflið innan EPRDF.[7] Leiðtogi TPLF, Meles Zenawi, var forsætisráðherra landsins frá 1995 til 2012. Þessi tími var hagvaxtarskeið í Eþíópíu, en aftur á móti blómstraði mikil spilling og stjórnin hygldi þjóðarbroti Tígra á kostnað annarra Eþíópíumanna þrátt fyrir að þeir væru aðeins um sex prósent landsmanna.[8]

EPRDF var lögð niður árið 2019 og aðildarflokkum hreyfingarinnar var steypt saman í nýjan flokk, Velmegunarflokkinn, en TPLF tók ekki þátt í stofnun nýja flokksins og lenti þannig í stjórnarandstöðu alls staðar nema í Tígraí-héraði.

Stríðið í Tígraí-héraði (2020–2022)

breyta

TPLF, sem hafði verið í stjórnarandstöðu frá árinu 2019, snerist gegn alríkisstjórn Eþíópíu eftir að kosningum sem áttu að fara fram í ágúst 2020 var frestað. Flokkurinn sakaði nýja forsætisráðherrann Abiy Ahmed (sem er af þjóðerni Orómóa, fjölmennasta þjóðarbroti Eþíópíu) um að hafa smám saman jaðarsett þjóðarbrot Tígra (sem eru um sex prósent landsmanna) og ýtt þeim út úr stjórnarstöðum.

Þann 4. nóvember gerði TPLF árás á herstöðvar eþíópíska stjórnarhersins í Mekelle, höfuðborg Tígraí-héraðs, og Dansha, borg í vesturhluta héraðsins. Rúmur helmingur alls herafla í landinu var staðsettur á svæðinu ásamt bryndeildum, að því er kemur fram í skýrslu International Crisis Group sem birt var í lok október 2020. Samkvæmt ICG gátu stjórnvöld TPLF reitt sig á „mikilvægar hernaðarhreyfingar og vel þjálfaða skæruliðahópa“ sem töldu til sín um 250.000 manns og „virtust njóta mikils stuðnings um sex milljón Tígra.“[9]

Abiy Ahmed flutti í kjölfarið sjónvarspávarp þar sem hann tilkynnti að öryggissveitir stjórnarhersins í Amhara-héraði, sem á landamæri að suðurhluta Tígraí, hefðu hrundið árás TPLF. Í ávarpinu var tilkynnt um fjölda andláta, særðra og skemmdir á innviðum.

Þann 5. nóvember lýsti eþíópíska ríkisstjórnin yfir sex mánaða neyðarástandi á meðan stórskotalið hersins hófu gagnárás á yfirráðasvæði TPLF.[10] Sama dag tilkynnti forseti TPLF, Debretsion Gebremichael, að sveitir Tígra hefðu tekið yfir höfuðstöðvar norðurdeildar eþíópíska hersins og hefðu lagt hald á flest vopn hennar.[11] Debretsion Gebremichael lýsti því jafnframt yfir að norðurdeild stjórnarhersins hefði gengið til liðs við TPLF og að flugher alríkisstjórnarinnar hefði hafið loftárásir á svæði nálægt Mekelle.[12]

Þann 29. nóvember lýsti Abiy því yfir að stjórnarherinn hefði hertekið Mekelle og náð fullu valdi á Tígraí-héraðinu. TPLF hélt þó áfram hernaði gegn stjórnarhernum.[13] TPLF náði aftur völdum í Mekelle í júní 2021 og hefur haldið áfram vopnuðum átökum gegn alríkisstjórninni.[14]

Í nóvember árið 2022 komust sendinefndir ríkisstjórnar Eþíópíu og uppreisnarhópanna í Tígraí að samkomulagi um „var­an­lega stöðvun stríðsátaka“ eftir friðarviðræður í Pretoríu sem Afríkusambandið hafði milligöngu um.[15] Með samningnum var uppreisnarhreyfingum TPLF og bandamanna þeirra gert að leggja niður vopn. Byggt var á gagnkvæmu trausti til að leysa ágreiningsverkefni sem eftir stóðu og ýmis ákvæði voru háð túlkunum.[16]

Meðlimir

breyta

Meðal núverandi og fyrrverandi félaga í TPLF má nefna Meles Zenawi (leiðtoga flokksins til dauðadags árið 2012), Tedros Adhanom Ghebreyesus (núverandi framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar), Seyoum Mesfin, Sebhat Nega, Arkebe Equbay, Tesfaye Hayara, Aregawi Berhe, Abay Tsehaye, Tsegay Berhe, Siye Abraha, Sara Abraham, Tadesse Gebregzabier, Haftom Abraha, Gebrezgi Alemayahu (látinn) og Weyen (látinn). Margir félagar í TPLF hafa setið í ríkisstjórn Eþíópíu, til dæmis Fetlework Gebre-Egziabher sem var verslunar- og iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Abiy Ahmed frá 2018 til 2020.

Tilvísanir

breyta
  1. „Ethiopia designates TPLF, OLF-Shene as terror groups“. www.aa.com.tr. Sótt 12. ágúst 2021.
  2. „TPLF and Shene designated as terrorist organisations“. Embassy of Ethiopia, London (bandarísk enska). 7. maí 2021. Sótt 12. ágúst 2021.
  3. Torstensson, Gösta. Befrielsekampen i Tigray. Stokkhólmur: Kommunistiska Arbetarförlaget, 1986. bls. 4-5.
  4. Torstensson, Gösta. Befrielsekampen i Tigray. Stokkhólmur: Kommunistiska Arbetarförlaget, 1986. bls. 8.
  5. Bahru Zewde, A History of Modern Ethiopia, 2. útg. (Oxford: James Currey, 2001), bls. 215, 259.
  6. Torstensson, Gösta. Befrielsekampen i Tigray. Stokkhólmur : Kommunistiska Arbetarförlaget, 1986. bls. 14.
  7. „2005 Ethiopian Election: A Look Back“ (enska). Voice of America. 16. maí 2018.
  8. „In the spotlight: The Tigrayan party at the heart of Ethiopia's conflict“. France 24. 19. nóvember 2020. Sótt 27. febrúar 2021.
  9. „L'Ethiopie tente de rassurer après le lancement d'opérations militaires contre la région dissidente du Tigré“. Le Monde. 06-11-2020. Sótt 07-11-2020.
  10. Christelle Gérand (05-11-2020). „L'Éthiopie fait un pas de plus vers la guerre civile“. Le Figaro. Sótt 07-11-2020.
  11. „Tigray crisis : Ethiopia's Abiy Ahmed vows to continue military offensive“ (enska). Yahoo News. 06-11-2020. Sótt 08-11-2020.
  12. „Ethiopia says forced into 'aimless war' as bombings alleged“. apnews.com. Associated Press. 05-11-2020. Sótt 07-11-2020.
  13. „Abiy seg­ir stjórn­ar­her­inn með fullt vald í Tigray“. mbl.is. 29. nóvember 2020. Sótt 30. nóvember 2020.
  14. „Andspyrnuhreyfingar náðu Mekelle aftur á sitt vald“. mbl.is. 29. júní 2021. Sótt 30. júní 2021.
  15. „Borgarastyrjöldinni í Eþíópíu lokið“. mbl.is. 2. nóvember 2022. Sótt 6. nóvember 2022.
  16. Róbert Jóhannsson (4. nóvember 2022). „Líkir friðarsamningi við bréf til jólasveinsins“. RÚV. Sótt 6. nóvember 2022.