Sverrir Sigurðsson (konungur)

(Endurbeint frá Sverrir konungur)

Sverrir Sigurðsson (eða Sverrir Sigurðarson), oftast kallaður Sverrir konungur (um 11519. mars 1202), var konungur Noregs á árunum 11771202. Fram til 1184 var Magnús Erlingsson einnig konungur og áttu þeir í stöðugu stríði.

Nokkrar helstu orrustur Sverris konungs.

Uppruni Sverris

breyta

Sverrir fæddist líklega í Björgvin en þegar hann var fimm ára fluttu foreldrar hans, Gunnhildur og Unás kambari, til Færeyja en þaðan var Unás. Bróðir hans var Hrói biskup í Kirkjubæ og ólst Sverrir upp hjá honum, lærði til prests og hlaut vígslu. Það var ekki fyrr en þá sem Gunnhildur móðir hans sagði honum – eftir því sem segir í sögu Sverris – að hann væri ekki sonur Unáss, heldur væri faðir hans Sigurður munnur, sem var konungur Noregs 1136–1155. Nútíma sagnfræðingar telja þetta þó útilokað.

Í Færeyjum er enn haldið á lofti þeirri sögn, að Sverrir sé fæddur í helli ofan við Kirkjubæ.[1]

Leiðtogi Birkibeina

breyta

Hvort sem Sverrir trúði því sjálfur að hann væri konungssonur eða ekki, hélt hann til Noregs 1177 en þar voru feðgarnir Magnús konungur og faðir hans, Erlingur skakki, alráðir. Sverrir fór fyrst til Austur-Gautlands í Svíþjóð og hitti Birgi brosa, jarl þar, en Birgitta kona hans var systir Sigurðar munns. Birgir vildi fyrst í stað ekki styðja Sverri því hann hafði heitið stuðningi við uppreisnarflokk birkibeina, manna Eysteins meylu, sem kvaðst vera sonur Eysteins konungs Haraldssonar. Eysteinn meyla hafði fallið í bardaga við menn Magnúsar konungs og Erlings skakka fyrr sama ár og flokkurinn var án leiðtoga. Sverrir hélt þá til Vermlands, þar sem leifar birkibeinaflokksins voru, og eftir nokkrar viðræður ákvað hann að gerast foringi þeirra.

Sverrir reyndist fær leiðtogi og herforingi og ekki leið á löngu þar til honum hafði tekist að fá sig hylltan sem konung á Eyraþingi. Næstu árin háðu birkibeinar skæruhernað gegn mönnum Magnúsar og Erlings skakka og var stöðugt á faraldsfæti. Erlingur skakki féll í bardaga 1179 og þar með hafði Sverrir tryggt yfirráð sín yfir Þrændalögum. Magnús flúði til Danmerkur, en sneri þó aftur og skæruhernaðurinn hélt áfram. Reynt var að koma á friðarsamningum en Magnús gat ekki hugsað sér að gera Sverri að meðkonungi sínum og Sverrir gat ekki hugsað sér að vera undirkonungur Magnúsar.

Sverrir konungur

breyta

Næstu árin ríkti stöðug styrjöld milli konunganna. Magnús flúði aftur til Danmerkur haustið 1183 en kom aftur snemma vors 1184. Þann 15. júní kom til sjóorrustu milli konunganna við Fimreiti í Sogni og þar féll Magnús ásamt um 2000 mönnum sínum. Þá gat Sverrir talið sig tryggan í sessi því Magnús átti engan erfingja. Eftir þetta má segja að gömlu norsku höfðingjaættirnar hafi verið mikið til úr sögunni, útdauðar eða áhrifalausar.

Sverrir átti aftur á móti í miklum útistöðum við kirkjuna, sem leit á hann sem valdaræningja og konungsmorðingja. Þó tókst honum árið 1190 að þvinga Nikulás Árnason biskup, sem var hálfbróðir Inga konungs krypplings, og aðra biskupa til að krýna sig konung. Ekki bætti það þó samskipti hans við kirkjuna og árið 1194 bannfærði Eiríkur Ívarsson erkibiskup, sem Sverrir hafði hrakið úr landi, konunginn með samþykki Selestínusar III páfa. Árið 1197 gat Sverrir þó sýnt bréf frá páfa þar sem bannfæringunni var aflétt en flestir sagnfræðingar eru nú sammála um að það muni hafa verið falsbréf.

Stríð við bagla

breyta

Í október 1198 lýsti Innósentíus III Noreg allan í bann og ásakaði Sverri um skjalafals. Páfi kom líka boðum til konunga í grannríkjunum um að þeir skyldu setja Sverri af. Því boði var þó ekki hlýtt og Jóhann landlausi sendi Sverri meira að segja hermenn til að sýna honum stuðning í baráttu hans við flokk bagla, sem stýrt var af Nikulási Árnasyni biskupi með stuðningi Eiríks erkibiskups. Konungsefni þeirra var Ingi, sem sagður var launsonur Magnúsar Erlingssonar.

Á ýmsu gekk í borgarastyrjöldinni en 18. júní 1199 vann Sverrir stórsigur á her Bagla í Strindafirði og leifarnar af baglahernum flúðu til Danmerkur. Það voru þó ekki endalok átakanna, þau stóðu þar til Sverrir dó á sóttarsæng í Björgvin 9. mars 1202. Ingi baglakonungur gat þó ekki nýtt sér það færi sem skapaðist við dauða Sverris því hann dó sama ár.

Fjölskylda

breyta

Kona Sverris var Margrét, dóttir Eiríks helga Svíakonungs og áttu þau eina dóttur, Kristínu. Sverrir átti einnig tvo frilluborna syni, Sigurð lávarð, sem dó skömmu á undan föður sínum og lét eftir sig ungan son, Guttorm, og Hákon Sverrisson, sem tók við ríki af föður sínum en varð ekki langlífur.

Sverris saga

breyta

Karl Jónsson ábóti á Þingeyrum ritaði sögu Sverris konungs (Sverris sögu), sem talin er tímamótaverk í bókmenntasögunni.

Tilvísanir

breyta
  1. Kirkjubøur @ Faroeislands.dk. Skoðað 10. október 2010.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Magnús Erlingsson
Noregskonungur
með Magnúsi Erlingssyni (til 1184)
(1177 – 1202)
Eftirmaður:
Hákon Sverrisson