Eiríkur helgi, Eiríkur Játvarðsson eða Eiríkur 9. var hugsanlega tekinn til konungs í Svíþjóð á 6. tug 12. aldar. Fátt er þó vitað um hann með vissu nema að hann hafði konungsvöld á Vestur-Gautlandi árið 1158 og dó á árunum 1160-1162 (samkvæmt helgisögu Eiríks dó hann 18. maí 1160). Rannsókn á jarðneskum leifum hans hefur leitt í ljós að hann var drepinn, sennilega hálshöggvinn.

Innsigli Stokkhólms með mynd Eiríks helga.

Föðurnafn Eiríks kann að benda til þess að faðir hans hafi verið enskrar ættar en um það er þó allt óvíst. Vitað er að maður að nafni Jóar Játvarðsson var við hirð Knúts Eiríkssonar, sonar Eiríks, og gæti hann hafa verið bróðir hans. Í páfabréfi 1172 kemur fram að Eiríkur hafi verið drepinn í fyllirísslagsmálum og leggur páfinn bann við að dýrka slíkan mann sem dýrling. Í helgisögninni segir að hann hafi fallið í bardaga við Magnús Hinriksson, sem varð konungur næstur á eftir honum.

Það litla sem um Eirík hefur verið skrifað snýst fyrst og fremst um helgi hans. Konungstíð hans varði stutt, líklega frá 1156 til 1160 og hann virðist ekki hafa látið mikið til sín taka. Því hefur verið haldið fram að hann hafi leitt fyrstu krossferðina til Finnlands 1155 en það kann að vera saga sem sögð var til að auðveldara yrði að fá hann tekinn í helgra manna tölu. Tilraunir til þess hófust þegar á ríkisstjórnarárum Knúts sonar hans. Elsta ritaða helgisaga Eiríks er frá 1344 og þar er lýst 50 kraftaverkum sem tengd eru Eiríki. Sagt var að lind hefði sprottið fram þar sem blóði hans var úthellt.

Eiríkur var grafinn í Uppsölum og árið 1273 var helgiskrín hans fært úr gömlu Uppsaladómkirkju í þá nýju. Eftir það var það borið á milli kirkjanna í skrúðgöngu 18. maí ár hvert. Mynd Eiríks var sett í innsigli Stokkhólmsborgar 1376.

Kona Eiríks var Kristín, dóttir Björns sonar Haraldar kesju, sonar Eiríks góða Danakonungs, og Katrínar dóttur Inga eldri Svíakonungs. Þau áttu fjögur börn sem vitað er um, Knút Eiríksson, Svíakonung 1167-1196, Filippus, Katrínu og Margréti Noregsdrottningu, konu Sverris konungs.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Sörkvir eldri
Svíakonungur
(1156 (?) – 1160 (?))
Eftirmaður:
Magnús Hinriksson