Svarti september (samtök)
Svarti september (arabíska: منظمة أيلول الأسود, Munaẓẓamat Aylūl al-aswad) voru palestínsk hryðjuverkasamtök, stofnuð 1970. Nafn hópsins er tilvísun í átök sem hófust þann 16. september 1970 þegar Hussein konungur Jórdaníu setti herlög í landinu vegna ótta um að hinir palestínsku fedayeen tæku yfir land hans. Í kjölfar átakanna var þúsundum palestínumanna vísað frá landinu og allmargir voru drepnir. Svarti september var svar Fatah-hreyfingarinnar við þessum gjörðum konungs og var í upphafi beint að honum og her Jórdaníu. Meðlimir PFLP, as-Sa'iqa og annarra hópa gengu svo til liðs við samtökin.
Svarti september varð alræmdur þegar samtökin tóku 11 ísraelska íþróttamenn til fanga á Ólympíuleikunum í München, Vestur-Þýskalandi, 1972. Þýska lögreglan þóttist ganga að kröfum gíslatökumanna en þegar þeim hafði verið ekið á flugvöll ásamt gíslunum, og þar sem þeim var sagt að flugvél biðið þeirra, réðist þýska lögreglan á þá. Allt sem gat farið úrskeiðis gerði það og allir gíslarnir létu lífið. Gíslatakan varð síðar þekkt sem blóðbaðið í München.
PLO lagði Svarta september niður haustið 1973 í kjölfar þess mats samtakanna að hryðjuverk erlendis myndu ekki skila PLO neinu og ári síðar skipaði leiðtogi samtakanna, Yasser Arafat, meðlimum þeirra að hætta öllu ofbeldi utan Ísrael, Vesturbakkans og Gasastrandarinnar.
Í kjölfar blóðbaðsins í München skipaði forsætisráðherra Ísraels, Golda Meir, ísraelsku leyniþjónustunni, Mossad, að elta þá uppi sem staðið höfðu að blóðbaðinu í München og drepa þá. Sú aðgerð varð síðar þekkt undir nafninu Reiði Guðs. 7 árum síðar hafði Mossad drepið a.m.k. 8 meðlimi PLO sem taldir voru hafa átt þátt í blóðbaðinu. Meðal þeirra var Ali Hassan Salameh, leiðtogi Force 17, persónulegs lífvarðar Yasser Arafats. Auk hans voru þrír yfirmenn samtakanna drepnir í Beirút í apríl 1973. Í júlí 1973 skutu sex ísraelskir leyniþjónustumenn Ahmed Bouchiki, saklausan marokkóskan þjón í Lillehammer, Noregi, til bana þar sem þeir töldu hann vera Ali Hassan Salameh. Leyniþjónustumennirnir sátu allir í fangelsi í stuttan tíma og voru að lokum náðaðir.
Síðar neitaði einn af hugsuðunum á bak við árásina, Abu Daoud, því að nokkur þeirra Palestínumanna sem Mossad hefur tekið af lífi hefðu átt nokkurn þátt í blóðbaðinu í München, þrátt fyrir að 2 þeirra hafi óvéfengjanlega verið á meðal þeirra sem handteknir voru í kjölfar árásarinnar.
Meðal annarra árása samtakanna eru:
- 28. nóvember, 1971: Forsætisráðherra Jórdaníu, Wasfi Tel, tekinn af lífi vegna brottreksturs samtakanna úr landinu;
- Desember, 1971: Tilraun gerð til að myrða Zeid al Rifai, sendaherra Jórdaníu í London;
- Maí, 1972: Belgískri flugvél á leið frá Vín til Lod rænt.
- 1. mars, 1973: Árás á sendiráð Sádí-Arabíu í Kartúm þar sem þrír vestrænir diplómatar voru teknir af lífi.
Tengt efni
breyta- Munich (kvikmynd eftir Steven Spielberg)
- One Day in September, heimildarmynd.
Tilvísanir
breyta- Cooley, J.K. Black September Green March: The Story of the Palestinian Arabs. Frank Cass and Company Ltd., 1973, ISBN 0-7146-2987-1
- Bar Zohar, M., Haber E. The Quest for the Red Prince: Israel's Relentless Manhunt for One of the World's Deadliest and Most Wanted Arab Terrorists. The Lyons Press, 2002, ISBN 1-58574-739-4
- Morris, B. Righteous Victims: A History of the Zionist-Arab Conflict, 1881-2001. Vintage Books, 2001.
- Jonas, G. Vengeance. Bantam Books, 1985.
- Khalaf, S. (Abu Iyad) Stateless.
- Oudeh, M.D. (Abu Daoud) Memoirs of a Palestinian Terrorist.