Strætó bs.
Strætó bs. er byggðasamlag sem rekur strætisvagnakerfi á höfuðborgarsvæði Reykjavíkur. Strætisvagnar Strætó eru einkenndir með rauðgulum lit og merki félagsins er rauðgult S í rauðum hring. Árið 2023 voru leiðirnar í leiðakerfi Strætó 27 á höfuðborgarsvæðinu og 18 utan þess. Tíðasta þjónustan er á tveimur mest notuðu leiðunum: númer 1 milli miðborgar Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og númer 6 milli miðborgarinnar og Grafarvogs. Þar er tíðnin 10 mínútur á háannatíma. Á flestum öðrum leiðum er tíðnin 15 mínútur á háannatíma, en 30 mínútur utan hans. Fjöldi biðstöðva á höfuðborgarsvæðinu er um 900 og við það bætast um 120 biðstöðvar utan þess.[1][2]
Samkvæmt ferðavenjukönnun fyrir höfuðborgarsvæðið árið 2019 var hlutdeild strætisvagna í heildarfjölda ferða 5% og hafði aukist um 1% frá síðustu könnun. Þegar spurt var af hverju fólk notaði ekki strætó meira, og þeir undanskildir sem sögðust einfaldlega kjósa aðra ferðamáta (sem var rúmlega helmingur), voru helstu svörin þau að það væri of tímafrekt, leiðakerfið hentaði ekki og tíðni ferða ekki næg.[3] Fjölgun sérakreina frá 2008 er ein leið til að bregðast við þessu og auka forgang strætisvagna í umferðinni.
Árið 2015 kynntu Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hugmyndir um nýtt almenningssamgöngukerfi, Borgarlínu, með mikla flutningsgetu og tíðni, sérakreinar og gæðabiðstöðvar, á fáum leiðum; sem myndi taka við hluta af þjónustu Strætó.[4] Nýtt leiðarnet mun leggja meiri áherslu á hámarksþátttöku (þéttleika byggðar) en hámarksþekju (heildarlandsvæði).[5] Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins skyldi taka mið af þessum leiðum næstu ár. Forsenda verkefnisins var þátttaka íslenska ríkisins í framkvæmdum sem var samþykkt með Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins árið 2019. Þessar hugmyndir voru umdeildar, meðal annars vegna hás kostnaðar, og árið 2023 höfðu engar framkvæmdir tengdar Borgarlínu enn hafist.[6]
Saga
breytaFyrirtækið var stofnað 1. júlí 2001 með sameiningu Strætisvagna Reykjavíkur (SVR) sem sinnti Reykjavík, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ; og Almenningsvagna (AV) sem sinntu Hafnafirði, Kópavogi, Garðabæ og Bessastaðahreppi.[7] Frá 2012 hefur Strætó sinnt áætlunarferðum til fjölda staða utan höfuðborgarsvæðisins, eins og til Akraness, Keflavíkurflugvallar, Landeyjahafnar, Akureyrar, Egilsstaða, Stykkishólms, Hólmavíkur og Sauðárkróks.[8] Bílar sem notaðir eru í þessar langferðir eru hefðbundnir langferðabílar þar sem ekki er hægt að standa. Þeir eru auðkenndir með tvískiptum gulum og bláum lit.
Árið 2012 gaf Strætó út app þar sem hægt var að fylgjast með ferðum strætisvagna á korti í farsíma. Seinna varð hægt að finna ferðir og kaupa farmiða í gegnum appið. Árið 2021 tók Strætó í gagnið nýtt snjallkortakerfi, Klappið, þar sem hægt var að kaupa miða á sérstakt kort eða með appi í síma. Um leið var hætt að gefa út strætómiða sem höfðu verið greiðslumáti frá 4. áratug 20. aldar. Innleiðing Klappsins gekk brösullega og var kvartað yfir því hve afgreiðsla gekk seint fyrir sig um borð í vögnunum. Við þetta bættist svo tekjufall vegna kórónaveirufaraldursins sem varð til þess að eigendur urðu að veita félaginu viðbótarframlag.[9] Hlutdeild farþega í ferðakostnaði hefur verið rúmlega 20%. Eigendur hafa lagt samlaginu til um helming tekna þess og íslenska ríkið um 10%. Afgangurinn er tekjur af ýmis konar sérþjónustu sem Strætó rekur eins og Pant, akstursþjónustu fyrir aldraða og fatlaða.[10]
Árið 2018 hóf Strætó rekstur næturvagna á sex sérstökum leiðum, einkum til að tryggja samgöngur milli miðborgarinnar og úthverfa.[11] Árið 2020 var ákveðið að hætta þessum rekstri vegna minni notkunar en gert var ráð fyrir. Tveimur árum síðar var næturstrætó endurreistur, en aðeins í Reykjavík, þar sem hin sveitarfélögin vildu ekki taka þátt í kostnaði við rekstur hans. Seinna bættust Hafnarfjörður og Mosfellsbær við, en Seltjarnarnes, Kópavogur og Garðabær kusu að standa utan þjónustunnar.
Rekstrarform
breytaStrætó er byggðasamlag í eigu Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarneskaupstaðar. Fyrirtækið rekur strætisvagnakerfi sem nær til allra þessara sveitarfélaga, auk nokkurra áfangastaða utan höfuðborgarsvæðisins. Eignarhlutfall (og þar með atkvæðavægi) hvers sveitafélags er í samræmi við íbúafjölda þess, en hver eigandi byggðasamlagsins á einn fulltrúa í stjórn þess og þarf minnst þrjá fulltrúa til að samþykkja mikilvægar ákvarðanir samkvæmt stofnskrá samlagsins. Þetta skilyrði nær til dæmis yfir allar breytingar á leiðakerfi, þjónustustigi eða fargjöldum.
Framkvæmdastjóri Strætó er Jóhannes Svavar Rúnarsson, viðskiptafræðingur. Stjórn Strætó skipa Magnús Örn Guðmundsson (Seltjarnarnes - D), Dóra Björt Guðjónsdóttir (Reykjavík - P), Andri Steinn Hilmarsson (Kópavogur - D), Kristín Thoroddsen (Hafnarfjörður - D), Hrannar Bragi Eyjólfsson (Garðabær - D) og Lovísa Jónsdóttir (Mosfellsbær - C).[12]
Skiptistöðvar
breyta- Ártún, Reykjavík
- Ásgarður, Garðabæ
- Fjörður, Hafnarfirði
- Hambraborg, Kópavogi
- Háholt, Mosfellsbæ
- Hlemmur, Reykjavík (lögð niður tímabundið vegna framkvæmda 2024)
- Lækjargata, Reykjavík
- Mjódd, Reykjavík
- Spöng, Reykjavík
Tilvísanir
breyta- ↑ Samgöngur og fatlað fólk: Stöðumat og aðgerðaráætlun (PDF) (Report). Innviðaráðuneytið. Mars 2023.
- ↑ Ástand stoppistöðva á landsvísu: Strætisvagnar á landsbyggðinni (PDF) (Report). ÖBÍ. Október 2022.
- ↑ „Ferðavenjukönnun 2019“. Stjórnarráðið.
- ↑ Nadine Guðrún Yaghi (30. júní 2015). „Hágæða almenningssamgöngukerfi mun rísa 2040“. Vísir.
- ↑ Borgarlínan 1. lota: Forsendur og frumdrög (PDF) (Report). SSH. Janúar 2021. bls. 26.
- ↑ Róbert Jóhannsson (21. september 2023). „Aðeins búið að klára þrjár af níu stórum framkvæmdum sem átti að vera lokið“. RÚV.
- ↑ „Almennt fargjald í 200 kr“. Morgunblaðið. 89 (139): 16. 22.6.2001.
- ↑ Ingveldur Geirsdóttir (5.9.2012). „Geta verið lausir og standandi“. Morgunblaðið. 100 (207): 16.
- ↑ Brynjólfur Þór Guðmundsson (24. nóvember 2022). „Strætó fær viðbótarframlag á næsta ári“. RÚV.
- ↑ Strætó: Ársreikningur 31. desember 2023 (PDF) (Report). Strætó bs. 31. desember 2022.
- ↑ „Næturvagnar Strætó hefja akstur í nótt“. Mbl.is. 12.1.2018.
- ↑ „Eigendur, stjórn og skipurit“. Strætó. Sótt 27.2.2024.