Hraunbreyskja
Hraunbreyskja (fræðiheiti: Stereocaulon vesuvianum) er runnflétta sem vex á blágrýti. Hún er mjög algeng á Íslandi og er sérstaklega áberandi í frumframvindu í nýjum hraunum.[4] Hún er ríkjandi tegund í hraunum inn til landsins þar sem grámosi vex ekki.[5]
Hraunbreyskja | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Hraunbreyskja í hraunum Heklu.
| ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
|
Útlit og greining
breytaHraunbreyskja er yfirleitt um 1,5 sentimetri á hæð og getur verið mjög misgreinótt. Hún er hvít eða grá og getur myndað þétta brúska. Hraunbreyskja er náskyld öræfaosti og líkist honum mjög í útliti. Hægt er að greina hraunbreyskju frá flestum öðrum fléttum á því að þalvörtur hennar eru hnöttóttar með dökkri laut í miðju.[6]
Þalsvörun hraunbreyskju er K+ gult, C-, KC- og P+ laxagult.[7]
Útbreiðsla
breytaHraunbreyskja nemur hraun mjög fljótlega eftir tilurð og vex á berri klöpp. Hún er mjög algeng á Íslandi, sérstaklega þar sem grámosi hefur ekki náð að mynda breiður yfir hraunið. Útbreiðsla hraunbreyskju nær um allan heim að Ástralíu og Suð-Austur Asíu undanskildum.[8]
Hraunbreyskja var ein af fyrstu fléttunum til að finnast í Surtsey árið 1970 en hinar tvær voru deiglugrotta (Trapelia coarctata) og skeljaskóf (Placopsis gelida).[3][4] Ári seinna fannst hraunbreyskja víða um Surtsey sem bendir til þess að gró hennar berist mjög greiðlega með vindi frá meginlandi Íslands.[3]
Áhrif á undirlag
breytaRannsóknir á hrauni úr eldgosinu árin 1730-1736 á Lanzarote hafa leitt í ljós að hraunbreyskja örvar veðrun hraunsins allt að sextánfallt miðað við bert hraun. Veðrun hraunsins vegna hraunbreyskju stafar líklega af efnum sem hún gefur frá sér og leysa upp bergið. Rannsóknir á Hawaii benda til þess að hærri loftraki þar en á Lanzarote valdi því að veðrun hrauna vegna hraunbreyskju sé um tvöfalt hraðari þar en á Lanzarote.[9]
Notagildi
breytaHraunbreyskja hefur þann eiginleika að safna ýmsum mengunarefnum í vefi sína og gagnast mönnum þannig til þess að fylgjast með umhverfismengun vegna spilliefna.
Á Íslandi
breytaHraunbreyskja er ein þriggja fléttna sem notaðar eru til þess að mæla flúor- og brennisteinsmengun frá Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Hinar tvær flétturnar eru snepaskóf (Parmelia saxatilis) og klettastrý (Ramalina subfarinacea).[10]
Erlendis
breytaHraunbreyskja sem vex við rætur Vesúvíusar á Sikiley er notuð til þess að fylgjast með niðurbroti geislavirkra efna sem bárust um Evrópu eftir kjarnorkuslysið í Tsjernobyl 1986. Hraunbreyskjan safnaði þá geislavirkum samsætum sesíums og rúþens úr umhverfinu og geymdi í vefjum sínum. Niðurbrot þessara geislavirku efna er mælt reglulega til þess að meta hversu mikilla áhrifa gætir enn vegna kjarnorkyslyssins 1986.[11]
Efnafræði
breytaHraunbreyskja inniheldur þrjú þekkt fléttuefni: atranórin, stictinsýru og norstictinsýru.[7]
Heimildir
breyta- ↑ Australian Antarctic Data Center (AADC). Taxon profile: Stereocaulon vesuvianum. Skoðað 11. september 2016. (enska)
- ↑ Global Biodiversity Information Facility (GBIF). Skoðað 1. september 2016. (enska)
- ↑ 3,0 3,1 3,2 Hörður Kristinsson og Starri Heiðmarsson (2009). Colonization of lichens on Surtsey 1970-2006. Surtsey research 12: 81-104
- ↑ 4,0 4,1 Hörður Kristinsson. 1972. Studies on Lichen Colonization in Surtsey 1970. Surtsey Progress Report VI. (enska)
- ↑ Flóra Íslands. Hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum). Hörður Kristinsson. Sótt 11. september 2016.
- ↑ Náttúrufræðistofnun Íslands. Hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum).[óvirkur tengill] Sótt 11. september 2016.
- ↑ 7,0 7,1 Hörður Kristinsson (2016). Íslenskar fléttur. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. ISBN 978-9979-66-347-8
- ↑ Discover Life Kort af hnattrænni útbreiðslu hraunbreyskju Hraunbreyskju.
- ↑ Stretch, R. C. og Viles, H. A. 2002. The nature and rate of weathering by lichens on lava flows on Lanzarote. Biogeomorphology vol. 47 (1), bls. 87-94. (enska)[1]
- ↑ Hörður Kristinsson (2004). Vöktun á mosum og fléttum við Grundartanga í Hvalfirði Framvinduskýrsla fyrir árið 2003. Unnið fyrir Íslenska járnblendifélagið hf og Norðurál hf. Skýrsla nr. NÍ-04004. Akureyri, Náttúrufræðistofnun Íslands. [2]
- ↑ Adamo, P., Arienzo, M., Publiese, B., Roca, V. og Violante, P. (2004). Accumulation history of radionuclides in the lichen Stereocaulon vesuvianum from Mt. Vesuvius (south Italy). Environmental Pollution vol. 127(3), bls. 455-461 (enska) [3]
Tenglar
breyta- Flóra Íslands. Hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum).
- Náttúrufræðistofnun Íslands.[óvirkur tengill] Hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum).