Snepaskóf (fræðiheiti: Parmelia saxatilis) er tegund fléttna af litskófarætt. Hún er mjög algeng á Íslandi.[1]

Snepaskóf
Snepaskóf á grjóti á Bretlandi.
Snepaskóf á grjóti á Bretlandi.
Ástand stofns
Ekki metið (IUCN)
Vísindaleg flokkun
Ríki: Sveppir (Fungi)
Fylking: Asksveppir (Ascomycota)
Flokkur: Lecanoromycetes
Ættbálkur: Lecanorales
Ætt: Litskófarætt (Parmeliaceae)
Ættkvísl: Litunarskófir (Parmelia)
Tegund:
Snepaskóf (P. saxatilis)

Tvínefni
Parmelia saxatilis

Útlit

breyta

Snepaskóf hefur stórt þal, 10-20 cm eða jafnvel meira, þar sem efra borðið er grátt eða grábrúnt með aflöngum raufum og netlaga hryggjum. Þalið er oft nær alþakið litlum sívölum snepum sem eru svartir í endann og brotna auðveldlega af fléttunni.[1]

Útbreiðsla og búsvæði

breyta

Snepaskóf vex aðallega á klettum en stundum á trjábolum. Hún er algeng um allt land frá láglendi upp í 900 metra hæð, bæði við ströndina og inn til landsins.[1] Snepaskóf getur verið með algengustu fléttum í sumum vistgerðum, til dæmis í lyngmóavist á láglendi.[2] Á Íslandi er snepaskóf algengasta tegundin sem finnst í nábýli við skeggburkna[3] sem er í útrýmingarhættu hér á landi.[4]

Nytjar

breyta

Snepaskóf var áður nefnd litunarmosi og var notuð til litunar á sama hátt og skyld tegund, litunarskóf.[1]

Rannsóknir

breyta

Snepaskóf hefur verið notuð til að fylgjast með brennisteins- og flúormengun frá stóriðju á Grundartanga.[5] Seyði unnið úr snepaskóf hefur sýnt veiruhamlandi virkni gegn RS-kvefveirum og herpesveirunum HSV1 og HSV2. Talið er að virknin sé vegna salazinsýru sem fléttan inniheldur.[6]

Efnafræði

breyta

Snepaskóf inniheldur nokkur þekkt fléttuefni: atranórin, salazinsýru, consalazinsýru, lóbarinsýru og prótócetrarsýru.[1]

Þalsvörun snepaskófar er K+ barkarlag gult en miðlag rautt, KC-, C-, P+ miðlag laxagult.[1]

Samband við aðrar tegundir

breyta

Í Íslandi hefur ein sveppategund fundist sem sýkur á snepaskóf, tegundin Abrothallus parmeliarum. Hún finnst á Suðurlandi og Austurlandi.[7]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Hörður Kristinsson. Íslenskar fléttur. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. ISBN 978-9979-66-347-8
  2. Lyngmóavist á láglendi. Náttúrufræðistofnun Íslands. Sótt 29. apríl 2019
  3. Hörður Kristinsson, Eva G. Þorvaldsdóttir & Björgvin Steindórsson (2007). Vöktun válistaplantna 2002-2006. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 50. Náttúrufræðistofnun Íslands. 86 bls.
  4. Náttúrufræðistofnun Íslands (1996). Válisti 1: Plöntur. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands.
  5. Hörður Kristinsson (2004). Vöktun á mosum og fléttum við Grundartanga í Hvalfirði Framvinduskýrsla fyrir árið 2003. Unnið fyrir Íslenska járnblendifélagið hf og Norðurál hf. Skýrsla nr. NÍ-04004. Akureyri, Náttúrufræðistofnun Íslands.
  6. Ágrip veggspjalda. Læknablaðið, fylgirit 53 desember 2006 - HÍ ráðstefna.
  7. Helgi Hallgrímsson og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (2004). „Íslenskt sveppatal I: Smásveppir“ (PDF). Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 45. Sótt 28. október 2019.