Stefán Th. Jónsson

Stefán Th. Jónsson (fæddur Stefán Þorvaldur Jónsson) (12. október 18657. apríl 1937) var útgerðarmaður, kaupmaður og bæjarfógeti á Seyðisfirði. Stéfán stóð einnig að því að reisa mörg glæsilegustu hús Seyðisfjarðar.

Ættir, nám og fyrstu störf

breyta

Stefán fæddist á Kóngsparti í Sandvík í Norðfjarðarhreppi. Foreldrar hans voru Jón Þorvaldsson bóndi þar og kona hans Gróa Eyjólfsdóttir, ættuð frá Þernunesi við Reyðarfjörð. Árið 1880 flutti fjölskyldan að Stóra-Steinsvaði í Hjaltastaðaþinghá og bjó þar í ár, en síðan á Fornastekk við Seyðisfjörð.

Árið 1882 hóf Stefán verslunarnám í Norskubúð, sem hét Det Norske Komagnies Handel fullu nafni, en var kölluð Norskubúð. Tveimur árum síðar sigldi hann til Noregs með aleiguna, 315 krónur. Hann dvaldi í Stafangri í tvö ár við úrsmíðanám og lauk sveinsprófi í þeirri iðn. Heim kominn 1886 settist Stefán aftur að á Fornastekk á Seyðisfirði, þar sem hann stundaði í fyrstu úrsmíðar og fór þá þegar að versla með klukkur og gjafavörur. Tveimur árum síðar var Stefán kominn í hreppsnefnd. Árið 1890 var hann hvortveggja orðinn oddviti og hreppstjóri og sama ár átti hann þátt í stofnun Sparisjóðs Seyðisfjarðar og var í stjórn hans.

Útgerðarfélagið Bjólfur

breyta

Þátttaka Stefáns í útgerð hófst 1898 með því að hann var meðal þeirra sem stofnuðu Fiskveiðifélagið Garðar á Seyðisfirði. En sú útgerð leið undir lok um aldamótin 1900. Í ársbyrjun 1904 keypti Stefán í félagi við Sigurð Jónsson 31 feta langan, opinn mótorbát, sem jafnframt var fyrsti mótorbátur Austfirðinga. Báturinn hét Bjólfur eins og útgerðarfélagið. Enn voru færðar út kvíarnar 1905 þegar Stefán hóf bátasmíði í félagi við Friðrik Gíslason úrsmið. Pantanir bárust í nokkra báta og reyndust vel. Í fyrstu voru bátarnir smíðaðir undir beru lofti, en næsta skref var bátasmiðja; þaðan var fyrsti báturinn sjósettur í janúar 1906.

Árið 1911 átti Stefán sjö mótorbáta, hlut í gufuskipi, fiskverkunarhúsin Liverpool og Evanger ásamt hafskipabryggjum, fjögur lifrarbræðsluhús, hálft nótalag, bátasmiðju, fjölda geymsla og útihúsa, en þar að auki íbúðarhúsin Nóatún, Stefánshús og Stefánsbúð.

Blaðaútgáfa

breyta

Í samvinnu við Sigurd Johansen stofnaði Stefán til útgáfu á blaðinu Bjarka, en jafnframt var byggt hús fyrir prentsmiðju með íbúð fyrir ritstjórann, sem var skáldið Þorsteinn Erlingsson. Þorsteinn Gíslason varð meðritstjóri aldamótaárið og tók einn við ritstjórninni, en blaðið var haldið úti í fjögur ár til viðbótar. Það var síðan allöngu síðar, árið 1919, að Stefán réðst í nýjan blaðaslag; nú ásamt Eyjólfi Jónssyni og Jóni Jónssyni bónda í Firði. Þá hófst útgáfa Austurlands undir ritstjórn Guðmundar G. Hagalín. Fyrsta blaðið kom út 1. janúar 1920, en á nýju sumri 1922 hætti blaðið að koma út og tók við blaðið Austanfari, sem síðar hét Hæsir og kom út til 1930.

Tenglar

breyta
   Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.