Spiro Agnew

39. varaforseti Bandaríkjanna
(Endurbeint frá Spiro T. Agnew)

Spiro Theodore Agnew (9. nóvember 1918 – 17. september 1996) var bandarískur stjórnmálamaður og 39. varaforseti Bandaríkjanna. Agnew var varaforseti frá 1969 þar til hann sagði af sér árið 1973. Hann er annar af tveimur varaforsetum Bandaríkjanna á eftir John C. Calhoun árið 1832 sem hafa sagt af sér, en ólíkt Calhoun sagði Agnew af sér vegna hneykslismála.

Spiro Agnew
Varaforseti Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 1969 – 10. október 1973
ForsetiRichard Nixon
ForveriHubert Humphrey
EftirmaðurGerald Ford
Fylkisstjóri Maryland
Í embætti
25. janúar 1967 – 7. janúar 1969
ForveriJ. Millard Tawes
EftirmaðurMarvin Mandel
Persónulegar upplýsingar
Fæddur9. nóvember 1918
Baltimore, Maryland, Bandaríkjunum
Látinn17. september 1996 (77 ára) Berlin, Maryland, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiJudy Judefind (g. 1942)
Börn4
HáskóliJohns Hopkins-háskóli
Háskólinn í Baltimore
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Æviágrip breyta

Spiro Agnew fæddist árið 1916 í Baltimore. Faðir hans var grískur innflytjandi sem hafði upphaflega heitið Anagnostopoulos en hafði breytt ættarnafni sínu í Agnew eftir flutning sinn til Bandaríkjanna. Fjölskylda Agnews rak veitingahús í Baltimore en neyddist til að loka því á tíma kreppunnar miklu.[1]

Árið 1937 hóf Agnew nám í efnafræði við Johns Hopkins-háskóla. Hann hætti í því námi eftir þrjú ár og skipti yfir í lögfræðinám við Háskólann í Baltimore. Agnew gekk í bandaríska herinn á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar og barðist í Evrópu, þar sem hann vann til fjölda heiðursmerkja. Að stríði loknu hélt Agnew laganámi sínu áfram og lauk prófi árið 1947.[2] Hann hóf síðan lögmannsstörf í Baltimore en gegndi aftur herþjónustu á tíma Kóreustríðsins.[1]

Agnew hafði verið meðlimur í Demókrataflokknum á yngri árum en að lokinni herþjónustu skipti hann yfir í Repúblikanaflokkinn og vann fyrir framboð Repúblikana til sveitastjórnar Baltimore-sýslu í Maryland. Árið 1957 var Agnew skipaður fulltrúi í áfrýjunarrétt Baltimore-sýslu og varð hann síðar forseti hans. Árið 1962 var Agnew kjörinn héraðsstjóri Baltimore-sýslu, sem þótti mikið afrek þar sem Demókratar voru mun fjölmennari en Repúblikanar í sýslunni.[1]

Árið 1967 var Agnew kjörinn fylkisstjóri Maryland. Maryland var eitt af höfuðvígjum Demókrataflokksins en Agnew tókst meðal annars að ná kjöri með því að höfða til bandarískra blökkumanna með frjálslyndum húsnæðisstefnum sínum. Agnew þótti í upphafi frjálslyndur og vinveittur réttindabaráttu blökkumanna en samband hans við réttindahreyfinguna átti síðar eftir að stirðna, að sögn Agnews vegna þess að honum þótti hún orðin of róttæk og vinstrisinnuð. Í óeirðunum sem hófust eftir að Martin Luther King var myrtur árið 1968 fór Agnew í hár saman við leiðtoga blökkumanna í Maryland og lét handtaka 230 svarta stúdenta sem kröfðust áheyrnar hans.[3][4] Í ræðu sem Agnew hélt á landsþingi Repúblikanaflokksins á Miami Beach árið 1968 lýsti hann því yfir að lögreglan ætti ekki að hika við að skjóta fólk sem færi ránshendi í óeirðum.[1]

Á landsfundinum studdi Agnew í upphafi framboð Nelsons Rockefeller til forseta, en Rockefeller ákvað óvænt að draga framboð sitt til baka.[3][5] Að endingu varð Richard Nixon forsetaefni Repúblikanaflokksins og Agnew var valinn varaforsetaefni flokksins í yfirvofandi forsetakosningum Bandaríkjanna. Ein ástæðan fyrir því að Agnew varð fyrir valinu var sú að Strom Thurmond, öldungadeildarþingmaður frá Suður-Karólínu sem naut verulegra áhrifa í flokknum og studdi áframhaldandi kynþáttaaðskilnaðarstefnu, gat sætt sig við hann. Einnig var talið að Agnew gæti veitt framboði Nixons mótvægi gegn sjálfstæðu forsetaframboði George Wallace, sem reyndi opinskátt að höfða til kynþáttahatara í kosningabaráttu sinni.[1]

Nixon og Agnew unnu sigur í forsetakosningunum 1968 á móti Hubert Humphrey, frambjóðanda Demókrataflokksins. Agnew tók við embætti varaforseta Bandaríkjanna í janúar næsta ár. Sem varaforseti varð Agnew kunnur fyrir stórorðar ræður sínar þar sem hann hallmælti frjálslyndum, vinstrimönnum og fjölmiðlum. Hlutverk Agnews innan Nixonstjórnarinnar varð það að ráðast að Demókrötum án þess að Nixon þyrfti sjálfur að leggjast í skítkast. Nixon hafði sjálfur gegnt svipuðu hlutverki sem varaforseti á stjórnartíð Dwights D. Eisenhower og því leiddi þetta til þess að Agnew varð kallaður „Nixoninn hans Nixons“.[6]

Nixon og Agnew unnu afgerandi sigur til endurkjörs í forsetakosningum ársins 1972 á móti Demókrötunum George McGovern og Sargent Shriver. Stuttu eftir að Nixon og Agnew hófu annað kjörtímabil sitt fóru hneykslismál hins vegar að varpa skugga á þá báða. Nixon lenti í vandræðum vegna Watergate-hneykslisins en Agnew blandaðist inn í ótengt spillingarmál frá fylkisstjóratíð hans í Maryland. Agnew var sakaður um skattsvik og um að hafa þegið mútufé frá verktakafyrirtækjum í Maryland á meðan hann gegndi embætti fylkisstjóra. Ákæruvaldið færði sönnur á að Agnew hefði tekið við rúmlega 100 þúsund dollara mútgreiðslu bæði á meðan hann var fylkisstjóri og eftir að hann tók við embætti varaforseta. Peningarnir hefðu verið skráðir sem framlag til kosningasjóðs en Agnew hefði í reynd haft þá til eigin umráða.[7]

Þann 6. ágúst 1973 spurðist út að dómsmálaráðuneytið hefði hafið rannsókn á máli Agnews. Agnew varði sig af hörku og sakaði starfsmenn dómsmálaráðuneytisins um ofsóknir gegn sér. Nixon forseti kom Agnew ekki til varnar nema að takmörkuðu leyti, enda dreifði mál Agnews athygli almennings frá Watergate-málinu.[8] Þann 10. október 1973 lýsti Agnew sig sekan af einum ákærulið, skattsvikum, við héraðsdómstól í Baltimore og lýsti síðan yfir afsögn sinni úr embætti varaforseta. Agnew var dæmdur til 10.000 dollara fjársektar og þriggja ára skilorðseftirlits. Hann hafði ekki frekari afskipti af stjórnmálum það sem hann átti eftir ólifað.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Hinn nýkjörni varaforseti Bandaríkjanna: Spiro Theodore Agnew“. Morgunblaðið. 7. nóvember 1968.
  2. „Agnew veikir verulega sigurvonir Nixons í Norðurríkjunum“. Tíminn. 13. ágúst 1968.
  3. 3,0 3,1 „Varaforseti Bandaríkjanna: Spiro Agnew“. Nýr stormur. 14. nóvember 1969.
  4. „Vill Nixon láta Agnew víkja?“. Tíminn. 4. september 1973.
  5. „Frambjóðendur vestra: Spiro T. Agnew“. Alþýðublaðið. 4. september 1968.
  6. Coffey, Joseph P. (2015). Spiro Agnew and the Rise of the Republican Right. Santa Barbara, CA: ABC-CLIO. bls. 95–96. ISBN 978-1440841415.
  7. „„Þótt hann segi af sér, situr óþefurinn eftir". Tíminn. 12. október 1973.
  8. Ingi Hrafn Jónsson (13. október 1973). „Líklega er Nixon fegnastur“. Morgunblaðið.


Fyrirrennari:
Hubert Humphrey
Varaforseti Bandaríkjanna
(20. janúar 196910. október 1973)
Eftirmaður:
Gerald Ford