Skagi (Norðurlandi)

nesið sem er á milli Húnaflóa og Skagafjarðar
(Endurbeint frá Skagi (Norðurland))

Skagi kallast nesið sem er á milli Húnaflóa og Skagafjarðar, og dregur Skagafjörður nafn af Skaganum.

Gervitunglamynd af Skaganum
Horft frá Vatnsnesi yfir á Skaga.

Áður fyrr voru þrjú sveitarfélög á Skaga, Skagahreppur og Vindhælishreppur að vestanverðu, tilheyrðu Austur-Húnavatnssýslu; heita nú Húnabyggð og Skagaströnd. Að austanverðu var Skefilsstaðahreppur í Skagafjarðarsýslu, en hann rann inn í Sveitarfélagið Skagafjörð árið 1998.

Reykjaströnd við Skagafjörð, austan við Tindastól, telst ekki til Skagans. Byggðin Húnaflóamegin á Skaga, frá kirkjustaðnum Höskuldsstöðum og út fyrir Kálfshamarsvík, heitir Skagaströnd en Skagafjarðarmegin kallast hún Skagi frá Sævarlandsvík utan við Tindastól og út á Skagatá. Ystu bæirnir Húnavatnssýslumegin eru líka sagðir vera á Skaga en ekki Skagaströnd. Sýslumörkin liggja eftir endilöngum Skaga, heldur austan megin við miðju.

Utan til er Skaginn láglendur með fjölda vatna á svokallaðri Skagaheiði, þar er víða ágæt silungsveiði. Sunnar taka við fjöll, einkum að vestanverðu. Þeirra þekktast er Spákonufell ofan við Höfðakaupstað, sem nú kallast jafnan Skagaströnd og er eina þéttbýlið á Skaga. Áður fyrr var lítið þorp við Kálfshamarsvík, utarlega á Skaga. Engin þéttbýlismyndun varð nokkru sinni austan á Skaga en útræði var áður úr Selvík. Víða á Skaganum, einkum utan til, voru mikil hlunnindi af reka, selveiði og æðarvarpi, auk silungsveiði í vötnum á Skagaheiði.

Skagafjarðarmegin er ysti bær Hraun á Skaga. Þar er viti á svokallaðri Skagatá. Við Hraun gekk hvítabjörn á land 16. júní 2008 (sjá Hraunsbirnan). Annar hvítabjörn var felldur 3. júní 2008 á Þverárfjalli, skammt frá þjóðveginum milli Sauðárkróks og Skagastrandar. Þverárfjall er syðst á Skaganum, um 35 km frá Hrauni.