Skagi (Skagafirði)

Skagi eða Skaginn er byggðarlag á austanverðum Skaga, Skagafjarðarmegin, en byggðin vestan á Skaga (Húnaflóamegin) kallast Skagaströnd. Skaginn nær frá Sævarlandsvík, við mynni Laxárdals, og út á Skagatá og er ströndin um 30 km á lengd, tiltölulega bein og láglend, að undanskildum Ketubjörgum.

Upp af ströndinni eru lágir ásar og fell og á milli þeirra mýrar, móar og fjöldi stöðuvatna. Í mörgum þeirra er ágæt silungsveiði. Innsti bærinn á Skaga heitir Skefilsstaðir og var þar áður þingstaður hreppsins, Skefilsstaðahrepps, en nú tilheyrir Skaginn Sveitarfélaginu Skagafirði. Allmargir bæir voru á Skaga en sumir þeirra eru nú komnir í eyði. Ysti bærinn, Hraun, er þó enn í byggð.

Helsta höfnin á Skaga er í Selvík. Þar var áður verstöð og má sjá þar rústir gamalla verbúða. Úr Selvík sigldi floti Kolbeins unga áleiðis til Vestfjarða um Jónsmessu 1244 en mætti skipum Þórðar kakala á miðjum Húnaflóa og hófst þá Flóabardagi, eina sjórrusta Íslandssögunnar.

Margar jarðir á Skaga eru hlunnindajarðir og þar er reki, silungsveiði, selveiði, æðarvarp og fleiri hlunnindi en þar þykir næðingssamt og kalsalegt, enda liggur byggðin opin fyrir norðanvindinum og hvergi skjól af fjöllum. Landslagið er víðast hvar sviplítið en fallegt útsýni er yfir Skagafjörð.

Kirkja sveitarinnar er í Ketu, lítil timburkirkja og er hún friðuð.

Heimildir

breyta
  • Hallgrímur Jónasson: Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands, 1946.
  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar I. bindi. Skefilsstaðahreppur - Skarðshreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 1999. ISBN 978-9979-861-18-8