Sád bin Abdul Aziz al-Sád

2. konungur Sádi-Arabíu (1902-1969)

Sád bin Abdul Aziz al-Sád (15. janúar 1902 – 23. febrúar 1969) var annar konungur Sádi-Arabíu. Hann ríkti frá dauða föður síns, Ibns Sád, árið 1953, þar til honum var steypt af stóli árið 1964. Bróðir hans, Feisal, tók í kjölfarið völdin í Sádi-Arabíu og Sád var gerður útlægur frá heimalandi sínu.

Skjaldarmerki Sád-ætt Konungur Sádi-Arabíu
Sád-ætt
Sád bin Abdul Aziz al-Sád
Sád bin Abdul Aziz al-Sád
سعود بن عبد العزيز آل سعود‎
Ríkisár 9. nóvember 19532. nóvember 1964
SkírnarnafnSád bin Abdulaziz bin Abdúl Rahman bin Feisal bin Turki bin Abdúlla bin Múhameð bin Sád
Fæddur15. janúar 1902
 Kúveitborg, Kúveit
Dáinn23. febrúar 1969 (67 ára)
 Aþenu, Grikklandi
GröfAl-Oud-grafreiturinn, Ríad
Konungsfjölskyldan
Faðir Ibn Sád
Móðir Wadhah bint Hussein Al-Orair
Börn108

Æviágrip

breyta

Sád var næstelsti sonur Ibns Sád og tók á unga aldri þátt í herförum föður síns til að sameina ríki Arabíuskagans í konungsveldi undir stjórn Sád-ættarinnar. Sem krónprins Sádi-Arabíu stýrði Sád herdeildum föður síns í stríði gegn Jemenum árið 1934 og vann sigur gegn þeim. Faðir hans kallaði Sád heim í stað þess að láta hann hertaka jemensku höfuðborgina Sana, en hernaðarsigur Sáds átti þátt í því að auka hróður hans heima fyrir svo að hann varð óumdeildur ríkisarfi að sádi-arabísku krúnunni.[1]

Þegar Ibn Sád lést árið 1953 tók Sád við krúnunni og útnefndi bróður sinn, Feisal, ríkisarfa og forseta ríkisráðsins. Feisal hafði þá verið utanríkisráðherra konungdæmisins í mörg ár en nýja fyrirkomulagið var í samræmi við hinstu óskir föður þeirra.[2] Missætti tókst fljótt á milli bræðranna þar sem Feisal var undir áhrifum af hugmyndum Gamals Abdel Nasser Egyptalandsforseta um sam-arabíska þjóðernishyggju og samstöðu arabaþjóða, en Sád var mjög mótfallinn slíkum hugmyndum.[1]

Vegna olíulinda Sádi-Arabíu tók Sád við miklum auðæfum þegar hann varð konungur. Sád var mikill eyðsluseggur og nýtti sér ríkisfjármuni konungdæmisins til að lifa miklu vegsemdarlífi. Til að mynda átti Sád um 200 glæsibifreiðar af Cadillac-gerð og festi eitt sinn kaup á 60 nýjum bílum í einni atrennu er hann ferðaðist til Bandaríkjanna.[3] Þegar Sád varð konungur átti hann rúmlega hundrað frillur í kvennabúri sínu, að minnsta kosti 40 syni og hafði allt að 5000 manns við hirð sína. Á fáum árum frá valdatöku Sáds komst ríkið í um 100 milljóna punda skuld vegna eyðslu hans. Um allt þetta þótti Sád ólíkur Feisal, sem var sparsamur og þótti lifa tiltölulega hófsömu lífi miðað við stöðu sína.[4] Þrátt fyrir bönn kóranins gegn áfengisneyslu var Sád einnig mikill drykkjumaður og tók gjarnan með sér kassa af viskíi í ferðir sínar um Evrópu.[5]

Á meðan Sád ferðaðist til Damaskus árið 1957 til að miðla málum í deilu milli Sýrlendinga og Tyrkja gaf Feisal heima fyrir út yfirlýsingar um utanríkismál sem brutu í bága við allar fyrirætlanir konungsins. Á sama tíma bárust út orðrómar um að Sád hefði boðið sýrlensku leyniþjónustunni 60 milljóna dollara greiðslu í skiptum fyrir að steypa Nasser af stóli í Egyptalandi. Staða Sáds veiktist verulega við þetta og jafnvel var vafamál hvort hann ætti afturkvæmt heim til Sádi-Arabíu. Að endingu fékk hann að snúa heim en neyddist hins vegar til að framselja Feisal úrslitavald yfir stjórn ríkisins, meðal annars yfir ríkisfjármálum. Feisal réðst í niðurskurð á ríkisútgjöldum og skar meðal annars verulega niður í persónulegum útgjöldum til konungsins úr olíusjóðum.[1]

Feisal varð heilsuveill á næstu árum og þurfti oft að ferðast til Evrópu í læknismeðferðir. Þegar Feisal var fjarverandi lét Sád ógilda flestar stjórnartilskipanir hans og færði stjórn ríkisfjármála í hendur prinsins Talals. Árið 1961 varð Sád sjálfur hins vegar að ferðast til Boston til að fara í meðferð gegn augnsjúkdómi og í fjarveru hans fékk Feisal öll völd í sínar hendur á ný. Árið 1962 útnefndi Sád Feisal varaforsætisráðherra og utanríkisráðherra konungdæmisins.[1]

Árið 1964 lét Feisal til skarar skríða og gerði valdarán gegn bróður sínum með stuðningi aðalsmanna og trúarleiðtoga sem blöskraði óhóflegur lifnaður konungsins, skuldir ríkisins og spillingin sem blómstraði undir stjórn hans. Sád var neyddur til að segja af sér og hann síðan sendur í útlegð. Sád fór fyrst til Genf í Sviss en settist síðan að í Aþenu í Grikklandi.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Saud konungur“. Lesbók Morgunblaðsins. 11. nóvember 1962. Sótt 27. september 2019.
  2. „Olíukóngurinn Saud“. Fálkinn. 8. október 1954. Sótt 27. september 2019.
  3. „Saud Arabíukonungur, auðugasti konungur veraldar“. Sunnudagsblaðið. 14. júlí 1957. Sótt 27. september 2019.
  4. „Olíugróðinn ruglaði hann alveg í rýminu“. Samtíðin. 1965. Sótt 27. september 2019.
  5. 5,0 5,1 Vera Illugadóttir. „Konungar Sádi-Arabíu“. RÚV. Sótt 27. september 2019.


Fyrirrennari:
Ibn Sád
Konungur Sádi-Arabíu
(9. nóvember 19532. nóvember 1964)
Eftirmaður:
Feisal