Krónprins
Krónprins er aðalsborinn karl sem stendur næstur til ríkiserfða í konungs- eða furstadæmi. Samkvæmt vestrænum hefðum er hann oftast elsti sonur ríkjandi konungs eða drottningar. Næsti bróðir í aldursröð erfir krúnuna ef konungurinn er barnlaus, og svo ganga erfðirnar koll af kolli samkvæmt sérstökum reglum. Í arabískri hefð gengur krúnan frá eldri bróður til yngri bróður, en ekki frá föður til sonar. Í mörgum vestrænum konungsríkjum, til dæmis Englandi, Hollandi og Danmörku hefur konum verið gert kleift að erfa krúnuna til jafns við karla. Þá getur ríkisarfinn verið hvort sem er, krónprins eða krónprinsessa.