Ibn Sád

Stofnandi og fyrsti konungur Sádi-Arabíu

Abdulaziz (arabíska: عبد العزيز بن عبد الرحمن آل سعود‎, ‘Abd al-‘Azīz ibn ‘Abd ar-Raḥman Āl Sa‘ūd; 15. janúar 18769. nóvember 1953), þekktari utan arabaheimsins sem Ibn Sád, var fyrsti konungur Sádí-Arabíu sem er þriðja ríki Sáda.

Skjaldarmerki Sád-ætt Konungur Sádí-Arabíu
Sád-ætt
Ibn Sád
Abdulaziz „Ibn Sád“
عبد العزيز بن عبد الرحمن آل سعود
Ríkisár 23. september 19329. nóvember 1953
SkírnarnafnAbdulaziz ibn Abdul Rahman ibn Faisal ibn Turki ibn Abdúlla ibn Múhameð Al Sád
Fæddur15. janúar 1876
 Ríad, emírdæminu Nejd
Dáinn9. nóvember 1953 (77 ára)
 Ta'if, Sádí-Arabíu
Konungsfjölskyldan
Faðir Abdul Rahman bin Faisal
Móðir Sarah Al Sudairi
Börn43, þ. á m. Sád, Faisal, Khalid, Fahd, Abdúlla og Salman

Hann fæddist í Ríad, sonur Abdul Rahman bin Faisal sem var síðasti emír Nejd. Árið 1890 lögðu Rasídar Ríad undir sig og fjölskylda Ibn Sád hraktist í útlegð. Árið 1902 tókst Ibn Sád að leggja Ríad aftur undir sig með litlum hópi skæruliða. Rasídar óskuðu þá eftir aðstoð frá Tyrkjaveldi sem sendu herlið til Nejd. Sádar hófu þá skæruhernað gegn her Tyrkja. Árið 1912 lagði hann Najd og austurströnd Arabíuskagans undir sig. Hann átti þátt í að stofna vopnaða bræðralagið Ikhwan sem var stefnt gegn ættbálkasamfélögum bedúína í anda Wahhabisma. Ibn Sád nýtti sér að Bretar hófu að styðja uppreisn araba gegn Tyrkjaveldi í Fyrri heimsstyrjöld og fékk frá þeim bæði nútímavopn og fé sem hann í kjölfarið notaði til að leggja ríki Rasída, emíratið Jabal Shammar, undir Nejd. Við þetta tvöfaldaðist ríki Ibn Sád. Árið 1925 lagði hann síðan Mekka og konungsríkið Hejaz undir sig. Nú voru Ikhwan-liðar orðnir honum andsnúnir vegna bandalags hans við Breta en hann gjörsigraði þá í orrustunni við Sabilla 1930. Þann 23. september 1932 sameinaði Ibn Sád konungsríkin Nejd og Hejaz og Sádí-Arabía varð til.

Hið nýja ríki Ibn Sád byggðist á hugmyndafræði Muhammad ibn Abd al-Wahhab sem meðal annars fól í sér að loka á hefðbundnar pílagrímaslóðir til Mekka og Medína. Olía uppgötvaðist í Sádí-Arabíu árið 1938 og gerði það að verkum að efnahagur ríkisins blómstraði og mikilvægi þess á alþjóðavettvangi stórjókst. Auður konungsfjölskyldunnar jókst líka og óhóflegt líferni auk árása á pílagríma sköpuðu aukna spennu innanlands. Eftir að hann lést 1953 tók elsti eftirlifandi sonur hans, Sád, við völdum.

Á Valentínusardegi árið 1945 átti Ibn Sád leynilegan fund með Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta um borð í herskipinu USS Quincy í hinu svokallaða Mikla Beiskavatni í Súesskurðinum í Egyptalandi. Á fundinum gerðu þeir Roosevelt og Ibn Sád með sér samkomulag um bandalag sem fæli í sér að Bandaríkin stæðu vörð um öryggi Sádi-Arabíu í skiptum fyrir greiðan aðgang að olíulindum konungsríkisins. Samkomulag leiðtoganna tveggja varð grunnurinn að langvarandi bandalagi sem ríkir enn á milli Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu og hefur mikil áhrif á utanríkisstefnur beggja ríkjanna.[1]

Ibn Sád átti 22 eiginkonur og 45 syni, þar af 36 sem lifðu til fullorðinsára. Allir konungar Sádí-Arabíu eftir hans dag hafa verið synir hans.

Tilvísanir

breyta
  1. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Mið-Austurlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Reykjavík: Mál og menning. bls. 215–217. ISBN 978-9979-3-3683-9.


Fyrirrennari:
Abd al-Aziz ibn Mut'ib
Emír Nejd
(1902 – 1921)
Eftirmaður:
Hann sjálfur sem soldán
Fyrirrennari:
Hann sjálfur sem emír
Soldán Nejd
(1921 – 1927)
Eftirmaður:
Hann sjálfur sem konungur
Fyrirrennari:
Hann sjálfur sem soldán
Konungur Nejd
(1927 – 1932)
Eftirmaður:
Hann sjálfur sem konungur Sádí-Arabíu
Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Konungur Sádí-Arabíu
(1932 – 1953)
Eftirmaður:
Sád


   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.