Richard Strauss
Richard Strauss (11. júní 1864 í München – 8. september 1949 í Garmisch-Partenkirchen) var þýskt tónskáld. Hann var þekktur fyrir óperur sínar en einnig fyrir önnur tónverk og kórverk. Strauss gat sér einnig gott nafn sem hljómsveitarstjóri. Richard Strauss var hvorki skyldur né tengdur Strauss fjölskyldunni í Vínarborg, sem einnig var mikið tónlistarfólk.
Æviágrip
breytaRichard Strauss fæddist 1864 í München. Faðir hans var einnig tónlistarmaður og lék á horn í hljómsveit konungshirðarinnar, auk þess að vera tónlistarkennari. Aðeins sex ára byrjaði Strauss að semja sín fyrstu tónverk og leika á píanó. Árið 1882 hóf Strauss nám í heimspeki og listasögu í háskólanum í München. En sama ár fór hann með föður sínum til borgarinnar Bayreuth, þar sem faðirinn tók þátt í tónlistarhátíð. Strauss yngri var svo hrifinn af tilstandinu og tónleikunum, að hann ákvað að hætta námi og verða tónskáld. Strax á næsta ári voru verk eftir hann frumflutt. Hann sneri sér einnig að hljómsveitarstjórnun. Árið 1884 varð Strauss hljómsveitarstjóri í Meiningen. Þar kynntist hann tónskáldinu Johannes Brahms og frænku Richards Wagner. Við það breyttist stíll Strauss í þungan Wagners-stíl. Næstu árin starfaði Strauss sem hljómsveitarstjóri í München og í Weimar. Á síðarnefnda staðnum uppfærði hann verk eftir Wagnar, svo sem Tannhäuser, Lohengrin og Tristan og Ísoldi. Árið 1894 kvæntist hann söngkonunni Pauline, sem sungið hafði í verkum undir hans stjórn. Eftir það starfaði Strauss sem hljómsveitarstjóri í Berlin og Vín, en uppfærði einnig ýmis verk annars staðar. Allan þann tíma samdi hann óperur og ýmis önnur tónverk.
Árið 1933 féll Strauss í ónáð hjá nasistum og var neyddur til að hætta tónlistarstörfum. En það breyttist skjótt. Hitler fannst mikið til Strauss koma og fól honum að semja tónverk fyrir upphafshátíð Ólympíuleikanna í Berlín 1936. Hitler lét setja Strauss á lista yfir mestu listamenn þriðja ríkisins og taldi hann vera meðal þriggja helstu tónlistarmanna ríkisins. Sem slíkur þurfti Strauss ekki að þjóna í hernum.
Richard Strauss lést 1949 heima hjá sér í Garmisch-Partenkirchen og var lagður til hvíldar í þeim bæ. Líkamsleifar Strauss voru brenndar. Duftkerið er grafið í Garmisch kirkjugarðinum í Garmisch-Partenkirchen í gröf þar sem eiginkona hans Pauline, sonur þeirra Franz (1898–1980) og kona hans Alice (1904–1991), barnabarn Richard (1927–2007) og eiginkona hennar Gabrielle , fædd Hotter (1939–2020), og barnabarnið Christian og eiginkona hans Brigitte, fædd Eckhardt (1925–1988), voru grafin.
Tónlist
breytaStrauss samdi alls 15 óperur. Þeirra helstu voru Salóme (1905) og Elektra (1909), sem nutu mikilla vinsælda. Fyrir þær öðlaðist hann heimsfrægð. Af öðrum óperum Strauss má nefna Aríadne á Naxos, Helenu hina egypsku, Arabellu, Daphne og Capriccio. Strauss samdi níu kórverk en í mörgum þeirra var textinn eftir þekkt skáld. Auk þess samdi Strauss 16 symfóníur, tónverk við leikrit (s.s. Don Kíkóti, Macbeth og Don Juan) og ýmsa aðra tónlist.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Richard Strauss“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.