Radomir Antić, Радомир Антић (22. nóvember 19486. apríl 2020) var serbneskur knattspyrnumaður og þjálfari. Hann er eini maðurinn sem hefur afrekað að stýra þremur stærstu liðum Spánar: Real Madrid, Barcelona og Atlético Madrid.

Ævi og ferill

breyta

Radomir Antić fæddist í smábænum Žitište í gömlu Júgóslavíu. Fjölskylda hans flutti síðar til Užice og hóf Antić knattspyrnuferil sinn hjá borgarliðinu. Árið 1970 hann til liðs við Partizan frá Belgrað og lék þar næsta áratuginn. Þótt Antić þætti ágætur varnarmaður lék hann aðeins einn landsleik fyrir Júgóslavíu, sem hafði yfir afarsterku liði að ráða um þessar mundir.

Frá 1977-84 lék Antić í þremur löndum. Fyrst með Fenerbahçe í Tyrklandi, þá með Real Zaragoza á Spáni og loks Luton Town í Englandi. Á síðastnefnda staðnum komst Antić í hetjutölu þegar hann skoraði sigurmark í lokaumferðinni 1983 sem hélt Luton í efstu deild á kostnað Manchester City árið eftir lagði hann skóna á hilluna.

Árið 1988 hóf Antić þjálfaraferilinn hjá sínu gamla félagi Real Zaragoza, sem hann stýrði í tvö tímabil með ágætum árangri. Í mars 1991 bauðst honum óvænt að taka við stórliðinu Real Madrid, sem þá hafði vikið gömlu goðsögninni Alfredo Di Stéfano úr starfi eftir fáeina mánuði. Undir stjórn Antić byrjaði Real Madrid leiktíðina 1991-92 vel og sat á toppnum í lok janúar, auk þess sem liðið var komið í fjórðungsúrslit í UEFA bikarnum. Hugur stjórnenda félagsins lá þó til að fá Leo Beenhakker, fyrrum þjálfara hollenska landsliðsins við stjórnvölinn. Hann var ráðinn til starfa sem yfirmaður knattspyrnumála á leiktíðinni miðri og að lokum skipt út fyrir Antić, þrátt fyrir sjö stiga forystu í deildinni. Undir stjórn Beenhakker hafnaði Real í öðru sæti á eftir Barcelona og féll úr leik í undanúrslitum í UEFA bikarnum.

Frá Real Madrid lá leið Antić til Real Oviedo sem hann stýrði til 1995. Árangurinn þar vakti athygli stjórnenda Atlético Madrid sem réðu hann fyrir leiktíðina 1995-96. Árangurinn varð vonum framar og varð Atlético tvöfaldur meistari þegar á fyrsta tímabili. Antić átti eftir að stýra félaginu í þrígang yfir fimm ára tímabil frá 1995-2000.

Antić hélt aftur til Oviedo árið 2000, en tókst ekki að byggja á fyrri velgengni. Liðið féll um vorið og var þjálfarinn rekinn í kjölfarið. Eftir tveggja ára hlé frá knattspyrnuþjálfun fór Antić aftur í stjórasætið í janúar 2003 í kjölfarið af brottrekstri Louis van Gaal frá Barcelona. Allt hafði gengið á afturfótunum hjá liðinu sem sat í fimmtánda sæti spænsku deildarinnar. Undir stjórn Antić endaði Barcelona í sjötta sæti og féll naumlega út í fjórðungsúrslitum Meistaradeildarinnar, en samningur hans var ekki framlengdur í lok leiktíðar.

Antić tók við stjórn serbneska landsliðinu fyrir forkeppni HM 2010. Serbar komust í úrslitakeppnina í Suður-Afríku þar sem liðið vann góðan sigur á Þjóðverjum, en töp gegn Ástralíu og Ghana gerðu það að verkum að Serbar höfnuðu í neðsta sæti í riðlinum og Antić var látinn taka poka sinn.

Á árunum 2012-15 stýrði hann félagsliðum í Kína. Hann lést árið 2020.