Osmín
Osmín er frumefni með efnatáknið Os og sætistöluna 76 í lotukerfinu. Þetta er harður, stökkur, gráblár eða svarblár hliðarmálmur sem tilheyrir platínuflokknum og er eðlisþyngstur allra náttúrulegra frumefna.
Rúþen | |||||||||||||||||||||||||
Renín | Osmín | Iridín | |||||||||||||||||||||||
Hassín | |||||||||||||||||||||||||
|
Almenn einkenni
breytaOsmín í málmformi er gríðarlega eðlisþungt. Það er gráblátt eða svarblátt, stökkt og gljáandi, jafnvel við hátt hitastig, en er erfitt í vinnslu. Auðveldara er að framleiða osmín í duftformi, en ef það kemst í snertingu við loft myndar það osmíntetroxíð (OsO4), sem er eitrað. Oxíðið er einnig öflugt oxandi efni, gefur frá sér sterka lykt og sýður við 130°C.
Sökum gríðarlega hás eðlismassa, er osmín yfirleitt talið vera þyngsta þekkta frumefnið, aðeins þyngra en iridín.
Þessi málmur hefur hæsta bræðslumark og lægsta gufuþrýsting allra efna í platínuflokknum. Algeng oxunarstig osmíns eru +3 og +4, en fundist hafa oxunarstig frá +1 til +8.
Notkun
breytaSökum gríðarlega eituráhrifa oxíðs þess, er osmín sjaldan notað í hreinu formi, en er í staðinn oft blandað saman við aðra málma sem síðan eru notaðir í slitþolna hluti. Osmínmálmblöndur eru gríðarlega harðar og efnið er, ásamt öðrum platínuflokksmálmum, næstum eingöngu notað í odda á lindarpennum, plötuspilaranálar, kúlulegur og rafsnertur.
Osmíntetroxíð hefur verið notað í fingrafarsgreiningu og til að lita fituvefi á sýnisglerjum smásjáa. Blanda 90% platínu og 10% osmíns er notuð í ígræðslur, eins og til dæmi hjartagangráða og staðgengla fyrir lungnaslagæðalokur.
Tetroxíðið (og skylt efnasamband, kalínosmat) eru mikilvægir oxarar í efnasmíði.
Saga
breytaSmithson Tennant í London á Englandi uppgötvaði osmín (gríska osme sem þýðir „lykt“) árið 1803, ásamt iridíni, í leifum eftir upplausn platínu í kóngavatni.
Tilvist
breytaÞessi hliðarmálmur finnst í iridosmíni, sem er náttúruleg málmblanda iridíns og osmíns, og í platínuríku straumvatnsseti í Úralfjöllum og Norður- og Suður-Ameríku. Það finnst einnig í nikkelgrýti við Sudbury í Ontario, ásamt öðrum málmum í platínuflokknum. Jafnvel þótt magn platínumálma í þessu grýti sé lítil, gerir mikið magn nikkelgrýtis sem unnið er með, hagkvæmt að vinna þessa málma úr því.
Efnasambönd
breytaOsmíntetroxíð (OsO4)
Samsætur
breytaOsmín hefur sjö náttúrulegar samsætur, og af þeim eru 5 stöðugar: Os-187, Os-188, Os-189, Os-190 og Os-192 (algengust). Os-184 og Os-186 hafa ótrúlega langan helmingunartíma og er því almennt hægt að telja þær stöðugar líka. Os-187 er dótturkjarni Re-187 (helmingunartími 4,56×1010 ár) og er oft mælt í hlutfalli Os-187/Os-188. Þetta hlutfall, ásamt hlutfalli Re-187/Os-187, hefur víða verið notað til að aldursgreina jarðneskt grjót og einnig grjót úr loftsteinum. Það má þó geta þess, að best þekktu not osmíns í aldursgreiningu hafa verið mælingar á hlutfalli þess og iridíns, til að aldursgreina ákveðin leirlög frá þeim tíma er risaeðlurnar dóu út fyrir 65 milljón árum síðan.
Varúðarráðstafanir
breytaOsmíntetroxíð er baneitrað efni. Þéttleiki osmíns í lofti, allt niður að 10-7 g/m³, getur valdið lungnateppu, húð- eða augnskemmdum.