Olof Rudbeck
Olof Rudbeck eða Olof Rudbeck eldri, (13. september 1630 – 17. september 1702), var sænskur vísindamaður sem var prófessor í Uppsalaháskóla og fékkst við margar fræðigreinar, læknisfræði, grasafræði, sagnfræði o.fl. Hann varð víðkunnur fyrir rannsóknir í líffærafræði þegar hann uppgötvaði sogæðakerfið (1652). Hann var einnig þekktur grasafræðingur og bjó í haginn fyrir Carl von Linné.
Æviágrip
breytaOlof Rudbeck var fæddur í Västerås, sonur biskupsins þar Johannes Rudbeckius (1581–1646), (eldri) og síðari konu hans Magdalena Carlsdotter Hising (1602–1649).
Hann ólst upp og gekk í skóla í Västerås, hóf nám í Uppslalaháskóla 1648 og valdi læknisfræði sem aðalgrein. Hann varði doktorsritgerð 22. maí 1652, um hringrás blóðsins. Námsferð til Leiden í Hollandi 1653–1654, fór þá aftur til Uppsala og hóf kennslu í læknisfræði og grasafræði. Hann varð prófessor í náttúrufræði 1660.
Árið 1661 varð Olof Rudbeck rektor Uppsalaháskóla og vann eftir það stórvirki við uppbyggingu skólans. Komu honum þar að góðu haldi náin tengsl við hirðina og ríkiskanslarann, Magnus Gabriel De la Gardie. Sem prófessor og síðar rektor lagði hann mikla árherslu á verklegt og hagnýtt nám, sem gæti gagnast ríkinu, og leitt til framfara jafnt í vísindum og verklegum greinum, eins og skipasmíðum, húsagerð o.fl. Eftir 1680 lenti Rudbeck í hörðum deilum við aðila sem sökuðu hann um að fara illa með fé háskólans o.fl. Þó að hann stæði það af sér, varð það til að veikja stöðu hans, m.a. gagnvart konunginum.
Árið 1691 gaf hann syni sínum, Olof Rudbeck yngri, eftir prófessorsstöðuna í læknisfræði og grasafræði, og dró sig síðan að nokkru leyti í hlé.
Í Uppsalabrunanum mikla vorið 1702 brann hús Rudbecks með meginhluta eigna hans, margvíslegum söfnum og ómetanlegum handritum. Þar glataðist einnig megnið af þeim ritverkum hans sem enn voru óprentuð. Hann dó síðar á sama ári og var grafinn í miðri dómkirkjunni í Uppsölum. Síðan þá hafa Svíakonungar oft verið krýndir yfir gröf hans.
Olof Rudbeck var áberandi persónuleiki og það streymdi frá honum styrkur og lífsgleði. En hann átti sér veikleika, þoldi t.d. ekki gagnrýni og eyddi mikilli orku í tilgangslausar deilur. Starfsorka hans var takmarkalaus og átti þátt í því að hann reyndi að gína yfir öllu. Og þó að hann legði fram markverðan skerf til margra fræðigreina, þá er lífsstarf hans fremur brotakennt.
Sogæðakerfið
breytaOlof Rudbeck er talinn eiga heiðurinn af því að hafa einna fyrstur uppgötvað að sogæðar í mönnum og dýrum mynda heildstætt kerfi. Hann kynnti niðurstöður sínar við hirð Kistínar Svíadrottningar í apríl 1652, þá 22 ára gamall. Hins vegar birti hann ekkert á prenti um það fyrr en vorið 1653, í ritinu Nova exercitatio anatomica exhibens ductus hepaticos aquosos et väsa glandulorum serosa, eftir að danski læknirinn Thomas Bartholin eldri hafði gefið út rit með svipuðum niðurstöðum (í desember 1652). Urðu af þessu harðar deilur um það hvorum þeirra bæri heiðurinn, en almennt er nú talið að þeir hafi báðir uppgövað þetta á sama tíma. Þessi uppgötvun leiddi til þess að drottningin og fleiri aðilar veittu Rudbeck öflugan stuðning til frekari rannsókna. Lét hann reisa kúpul á háskólabygginguna, Gustavianum, þar sem var stunduð verkleg kennsla og rannsóknir í líffærafræði.
Raunar er talið að Ítalinn Gasparo Aselli hafi fyrstur lýst sogæðum á prenti (1627), og Frakkinn Jean Pecquet lýsti sogæðakerfinu 1651 og 1653 um svipað leyti og þeir Rudbeck og Bartholin gerðu sínar uppgötvanir.
Grasafræði
breytaOlof Rudbeck var einnig kunnur grasafræðingur, kom upp fyrsta grasagarði í Uppsölum og gaf út plöntulista o.fl. Um 1670 hóf hann að undirbúa mikið útgáfuverk um plöntur, Campus elysii, þar sem birta átti myndir af um 11.000 plöntum, eða nær öllum þeim sem þekktar voru. Hver planta eða afbrigði var teiknuð nákvæmlega upp og síðan gerðir prentstokkar eða mót. Annað bindið kom út 1701, og fyrsta bindið 1702, en nær allt upplagið eyðilagðist í Uppsalabrunanum 1702, og einnig flest prentmótin sem gerð höfðu verið. Árið 1878 fannst í bókasafninu í Löfstabruk í Upplandi eitt sett af þessum jurtamyndunum, 11 bindi af 12 (fyrsta bindið glatað), með um 6.200 frumteikningum í lit, sem myndamótin hafa verið gerð eftir.
Atlantica – Fornfræði
breytaÁ árunum 1670-1702 fékkst Olof Rudbeck mikið við söguleg og málfræðileg skrif til þess að varpa ljóma á sögu Svíþjóðar. Ritaði hann 3.000 bls. verk í fjórum bindum, Atland, eller Manheim (latína: Atlantica, sive Manheim), þar sem hann reyndi að sanna að Svíþjóð væri hið forna Atlantis, vagga siðmenningarinnar, og að sænska væri tungumál sem latína og hebreska hefðu þróast úr. Fyrsti hluti verksins kom út 1677–1679. Þessi skrif voru harðlega gagnrýnd, m.a. af Ludvig Holberg, sem ritaði háðsádeilu um þau, og franski fjölfræðingurinn Denis Diderot nefndi þau sem dæmi um hvernig óvísindaleg orðsifjafræði gæti leitt menn á rangar brautir. Þessar hugmyndir ber að skoða með hliðsjón af stórveldistíma Svíþjóðar.
Annars hefur verið sagt að Atlantica sé í rauninni mikið skáldverk, innblásið af heitri ættjarðarást. Skáldið Atterbom segir um verkið, að þó að það sé eitt mesta dellurit sögunnar, séu hugarórarnir í því þó margfalt áhugaverðari en skynsemi flestra þeirra sem gagnrýndu það.
Olof Rudbeck fékkst nokkuð við íslensk fræði og hélt áfram starfi læriföður síns í sagnfræði, Olofs Vereliusar, t.d. með því að gefa út fyrstu íslensku orðabókina í Svíþjóð: Index linguo veterìs scytho-scandicæ sive gothico (1691), sem Verelius hafði tekið saman. Þessi vinna vakti áhuga hans á rúnasteinum og fjallaði hann nokkuð um þá í verkum sínum.
Rudbeck átti einnig þátt í því að Magnus Gabriel De la Gardie gaf Uppsalaháskóla 1669 hið merka handritasafn sitt, en helstu dýrgripirnir í því eru Silfurbiblían (Codex Argenteus) með hinni gotnesku guðspjallaþýðingu Wulfila frá því um 500 e.Kr., og Uppsla-Edda sem hefur að geyma eina gerð Snorra-Eddu. Bæði þessi handrit hafði De la Gardie keypt, en það fyrrnefnda hafði nokkru áður verið herfang úr styrjöldum Svía.
Fjölskylda – Eftirmæli
breytaKona Olofs Rudbecks var Wendela Lohrman (1637–1711). Dóttir þeirra, Wendela Rudbeck (1668–1710), giftist Petrus Olai Nobelius (1655–1707). Af þeim er Nóbel-fjölskyldan komin, t.d. Alfred Nobel og Ludvig Nobel. Sonur hans Olof Rudbeck yngri (1660–1740), var kunnur læknir og grasafræðingur. Þriðja barnið var Johanna Kristina.
Carl von Linné gaf einni ættkvísl plantna nafnið Rudbeckia, í virðingarskyni við Olof Rudbeck og son hans, Olof Rudbeck yngri.
Heimildir
breyta- Svenska män och kvinnor 6, Stockholm 1949:383–385.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Olof Rudbeck d.ä.“ á sænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. maí 2010.