Ludvig Holberg
Ludvig Holberg (3. desember 1684 – 27. janúar 1754) var danskt leikritaskáld og fræðimaður. Holberg fæddist í Björgvin, Noregi. Hann lést árið 1754.
Lífshlaup
breytaLudvig Holberg fæddist þann 3. desember árið 1684 í norska menntabænum Björgvin. Holberg var ynstur sex bræðra. Faðir hans, Christian Nielsen Holberg, dó á fyrsta aldursári Ludvigs. Fjölskylda Ludvigs missti á svipuðum tíma allar eignir sínar í bruna í Björgvin en móður Ludvigs tókst samt sem áður að veita börnum sínum gott uppeldi. Eftir dauða móður hans árið 1695 var Holberg sendur til ættingja sinna í Guðbrandsdal. Hann fluttist þó fljótlega aftur til Björgvinar og bjó þá hjá móðurbróður sínum, Peder Lem og gekk í latínuskóla.
Ludvig fluttist til Kaupmannahafnar árið 1702 en þurfti þaðan að hverfa til þess að stunda heimiliskennslu hjá prófasti einum þar sem hann æfði sig í að predika. Hann undi sér ekki í þessari stöðu og fór aftur til Kaupmannahafnar og hóf nám í guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla og stundaði sjálfsnám í lögfræði, sögu og tungumálum. Hann var ekkert sérlega spenntur fyrir guðfræðinni og lét sér nægja það nám sem dugði til prestvígslu.
Þar eftir sinnti hann aftur heimiliskennslu en nú hjá Smith lektor í Björgvin, en ferðadagbækur Smiths vöktu útþrá Holbergs. Hann skrapaði saman aurum sínum og lagði land undir fót. Hann flakkaði til Hollands í von um að geta haft lifibrauð sitt af tungumálakennslu og þýðingum en fólk forðaðist að ráða hann sökum aldurs, þá var Holberg aðeins tvítugur. Hann varð því uppiskroppa með peninga og þurfti að snúa aftur heim. Hann afréð þó ekki að fara til Björgvinjar og mæta gagnrýni ættingja sinna. Í stað þess fór hann til Kristianssands en voru næg störf sem hugnuðust Holberg. Hann tók að starfa við tungumálakennslu og í Kristianssandi naut hann ungdómsára sinna.
En Holberg gat ekki setið lengi kyrr og slóst í för með námsmanninum Brix til Oxford á Englandi, þar sem hann nýtti árin 1706-8 í háskólanum þar. Hann kunni vel við sig þarna og kenndi frönsku og tónlist og nam sjálfur heimspeki og raunvísindi. Hann eyddi einnig mikið af tíma sínum á bókasafni skólans og í að ræða við aðra nemendur á latínu. Í Oxford byrjaði Holberg á bókinni sinni; Kynning á sögu evrópskra ríkja sem var fyrsta yfirlit yfir mannkynssöguna á dönsku.
Árið 1708 ferðaðist Holberg til Kaupmannahafnar og sá nú ekki meira af föðurlandi sínu. Hann reyndi að afla fjár með því að halda fyrirlestra um ferðalög sín, en það reyndist ekki góður fjárafli. Hann réði sig þá sem aðstoðarferðfélaga prófessorsonar nokkurs og þeir ferðuðust til Dresden og Leipzig.
Eftir að hann kom aftur til Kaupmannahafnar var hann ráðinn sem heimakennari hjá aðmírálnum F. E. Gjedde. Stuttu seinna fékk hann stöðu í Borch Kollegium þar sem hann hélt fyrirlestra um ferðalög, söguritun, tónlist og tungumálanám. Einnig nýtti hann tíma sinn í að rita bókina Introkuktion til det forrige Seculi danske Historie og sendi uppkast af henni til kóngsins sem útnefndi hann sem „extraordinær Professor“, stöðu sem skapaði honum hvorki skyldur né laun og hann neyddist til að yfirgefa Kollegíumið. Mörgum þótti hann ekki verðskulda titilinn þar sem hann hafði ekki magistergráðu.
Holberg hafði nú ekkert lífsviðurværi en fékk loks smá styrk sem hann nýtti til sinnar fjórðu og stærstu reisu. Hann lagði af stað vorið 1714 og ferðaðist til Hollands og Belgíu og svo loks til Parísar þar sem hann bjó í hálft annað ár. Þrátt fyrir nokkuð stöðuga innkomu gat Holberg ekki staðist mátið og yfirgaf Holland og fór til Ítalíu. Hann nýtti árin 1715 og 1716 í að skoða minnismerki og sögu Rómarborgar, en honum var meinaður aðgangur að bókasöfnum sökum andstöðu hans við kaþólsku. Í Róm heillaðist hann af áhugaleikhúsum líkt og hann gerði einnig í Frakklandi og þessi götuleikhús áttu eftir að hafa stór áhrif á skrif hans seinna.
Árið 1716 sneri Holberg aftur heim til Kaupmannahafnar. Hann réði sig í kennslu við Kaupmannahafnarháskóla og tók í fyrstu aðeins einu lausu stöðuna; frumspeki. Seinna kenndi hann latínu og loks fékk hann stöðuna sem hann hafði beðið eftir og var ráðinn til sögukennslu.
Ferðalög Holbergs voru aðalinnblástur hans í seinni skrifum hans. Reynslan af ferðalögunum þroskaði hann sem listamann sem og siðferðislega. Gamlir latneskir gamanleikir og nýrri franskir gamanleikir veittu honum innblástur, en þá sá hann í götuleikhúsum Parísar og Rómarborgar.
Skrifum hans má skipta í þrjú tímabil.
- 1711 – 1718 ritaði hann aðallega söguleg rit.
- 1719 – 1731 orti hann ádeiluljóð og gamanleiki.
- 1731 – 1750 skrifaði hann rit um heimspeki.
Hugmyndafræði
breytaHolberg hitti danska vísindamanninn Jacob Winsløw í París. Winsløw reyndi án árangurs að snúa Holberg til kaþólskrar trúar en það gerði lítið annað en að gera Holberg andsnúinn kaþólsku. Holberg var þrátt fyrir það enginn heiðingi, heldur var hann lútherstrúar. Holberg gagnrýndi kristinfræðikennslu grunnskóla og sagði að börn yrðu að vera komin til manns áður en þau lærðu kristni. „Ef maður lærir guðfræði áður en maður er kominn til manns, verður maður aldrei að manni.“ Holberg trúði á skynsemi einstaklingsins og taldi að fyrsta markmið kennslu ætti að vera að kenna nemendunum að nota sín eigin rök og að fylgja tilfinningunni, í stað þess að læra utan að heilu skólabækurnar með páfagaukaströggli. Þessi hugmyndafræði Holbergs var ný af nálinni í kennslu.
Holberg velti einnig fyrir sér hvernig svona mikil illska gæti fyrirfundist í heiminum þegar allir ættu að geta látið skynsemina ráða. Þar með fjarlægðist hann guðfræðilegar hugmyndir um illsku og nálgaðist þær frá rökfræðilegu sjónarhorni. Holberg var opinn fyrir gagnrýni á Biblíuna og hafði engar áhyggjur af útbreiðslu sólmiðjukenningarinnar. Hann aðhyltist frumgyðistrú (deisma) en fylgjendur hennar trúa á guð með rökrænum hætti. Þeir trúa því að guð hafi skapað alheiminn, en skipti sér ekki af honum eftir það. Holberg trúði ekki á syndafallið heldur aðhyltist frjálsan vilja mannsins.
Með ritum sínum vildi hann upplýsa almenning til að bæta samfélagið. Hann var mun hrifnari af stórborgum, sneisafullum af menningu, heldur en smábæjum og náttúru.
Fjármál Holbergs
breytaLíf Holbergs var látlaust fyrstu árin. Hann aflaði sér viðurværis með einkakennslu og sem ferðafélagi heldri manna. Hann reyndi einnig fyrir sér sem einkaþjálfari í Kaupmannahafnarháskóla. Hann fékk styrk til háskólanáms í öðrum löndum, aðallega í skólum sem voru mótmælendatrúar, en það líkaði Holberg ekki. Hann vildi helst sækja nám þar sem menn rifust sem mest um ýmis málefni.
Á meðan á dvöl hans í Englandi stóð byrjaði Holberg að skrifa fræðirit um sögu. Seinna skrifaði hann einnig lögfræðirit. Til að efnast sem mest gaf hann sjálfur út verkin sín og seldi þau á einblöðungum til áhugasamra. Hann fékk einnig norskan útgefanda til að gefa út lögfræðibók sína en fjárhagslegur grundvöllur þessara útgáfa var ekki mikill.
Holberg ferðaðist yfirleitt fótgangandi í sparnaðarskyni og eins til þess að halda malaríunni niðri, en hann smitaðist af henni á ferðum sínum suður á bóginn. Seinna þegar hann var kominn til meiri efna fjárfesti hann í fasteignum og keypti meðal annars Brorupgård og Tersløsegård. Sá síðarnefndi er eina fasteign Holbergs sem hefur varðveist, en hinar brunnu eða voru rifnar.
Það má sjá á bréfaskiptum Holbergs að hann var íhaldsamur í fjármálum og vildi meðal annars ekki hækka laun kennara við Havrebjerg. Holberg sagði sjálfur að hann væri aðeins tilbúinn að eyða peningum ef að þeim var eytt til nytsamlegara hluta, svo sem lyfja fyrir bændurna á bóndabæjunum hans. Hann studdi einnig Sorø-háskólann á meðan hann var á lífi þar sem mjög erfitt var á fjármagna skólastarf.
Holberg var ógiftur og barnlaus svo að á gamalsaldri ánafnaði Sorø-háskólanum öllum eignum sínum eftir sinn dag. Konungurinn gaf honum þá barónstitil og skipaði svo fyrir um að hann þyrfti ekki að greiða skatta af eignum sínum. Holberg dó í Kaupmannahöfn árið 1754 og var jarðsettur í Sorøkirkjukarðinum.
Það er greinilegt að Holberg hafði ekki aðeins áhrif á danska menningu með leikritum sínum heldur var fræðilegt innlegg hans einnig gífurlegt. Hann skrifaði margar fræðibækur sem jafnvel eru enn í dag notaðar til kennslu.
Verk Holbergs
breytaGamanleikir
breyta- Den Politiske Kandestøber, 1722
- Den Vægelsindede, 1722
- Jean de France eller Hans Frandsen, 1722
- Jeppe paa Bjerget eller den forvandlede Bonde, 1722
- Mester Gert Westphaler, 1722
- Barselstuen, 1723
- Den ellefte Junii, 1723
- Jacob von Tyboe eller den stortalende Soldat, 1723
- Ulysses von Ithacia, 1723
- Erasmus Montanus eller Rasmus Berg, 1723
- Don Ranudo de Colibrados, 1723
- Uden Hoved og Hale, 1723
- Den Stundesløse, 1723
- Hexerie eller Blind Allarm, 1723
- Melampe, 1723
- Det lykkelige Skibbrud, 1724
- Det Arabiske Pulver, 1724
- Mascarade, 1724
- Julestuen, 1724
- De Usynlige, 1724
- Kildereisen, 1725
- Henrich og Pernille, 1724-1726
- Den pantsatte Bondedreng, 1726
- Pernilles korte Frøkenstand, 1727
- Den Danske Comoedies Liigbegængelse, 1727
- Den honette Ambition, 1731
- Plutus eller Proces imellom Fattigdom og Riigdom, utg. 1753
- Husspøgelse eller Abracadabra, utg. 1753
- Philosophus udi egen Indbildning, utg. 1754
- Republiqven eller det gemeene Bedste, utg. 1754
- Sganarels Rejse til det philosophiske Land, utg. 1754
Ljóð
breyta- Peder Paars, 1720
- fire Skæmtedigte, 1722
- Metamorphosis eller Forvandlinger, 1726
Skáldsögur
breyta- Nicolai Klimii iter subterraneum, 1741. (Þýtt á dönsku af Hans Hagerup árið 1742 sem „Niels Klims underjordiske Rejse“.)
Ritgerðir
breyta- Moralske Tanker, 1744
- Epistler, 1748–54
- Moralske Fabler, 1751
- Tre latinske levnedsbreve, 1728-1743
Sagnfræðiverk
breyta- Introduction til de fornemste Europæiske Rigers Historier, 1711
- Morals Kierne eller Introduction til Naturens og Folke-Rettens Kundskab, 1716
- Dannemarks og Norges Beskrivelse, 1729
- Dannemarks Riges Historie, 1732–35
- Den berømmelige Norske Handel-Stad Bergens Beskrivelse, 1737
- Almindelig Kirke-Historie, 1738
- Den jødiske Historie fra Verdens Begyndelse, fortsat til disse Tider, 1742
- Adskillige store Helte og berømmelige Mænds sammenlignede Historier, 1739–53
- Adskillige Heltinders og navnkundige Damers sammenlignede Historier, 1745