Nadezhda Krúpskaja

Rússnesk byltingarkona (1869-1939)
(Endurbeint frá Nadezhda Krupskaya)

Nadezhda Konstantínovna Krúpskaja (26. febrúar 1869 – 27. febrúar 1939) var rússnesk byltingar- og stjórnmálakona úr flokki Bolsévika og eiginkona byltingarleiðtogans Vladímírs Lenín.

Nadezhda Krúpskaja
Надежда Крупская
Fædd26. febrúar 1869
Dáin27. febrúar 1939 (70 ára)
ÞjóðerniRússnesk
StörfByltingarmaður, stjórnmálamaður
FlokkurBolsévikar
Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna
MakiVladímír Lenín (g. 1898; d. 1924)

Krúpskaja var komin af aðalsfólki sem hafði glatað auðæfum sínum og hún þróaði ung með sér sterkar skoðanir á hlutskipti hina fátæku. Hún kynntist Lenín á marxískum umræðufundum. Hann var stuttu síðar sendur í útlegð til Síberíu en Krúpskaja fékk leyfi til að fylgja honum þangað með því skilyrði að þau gengju í hjónaband. Krúpskaja komst í framlínusveit sovéskra stjórnmála eftir byltinguna 1917. Hún tók afstöðu með Stalín, Zínovjev og Kamenev gegn vinstriandstöðu Trotskíjs á árunum 1922 til 1925 en féll síðar úr náðinni hjá Stalín. Hún var aðstoðarþjóðfulltrúi menntamála frá 1929 til 1939 og hafði mikil áhrif á menntakerfi Sovétríkjanna, meðal annars á þróun sovéska bókasafnskerfisins.

Æviágrip

breyta

Nadezhda Krúpskaja fæddist árið 1869 í Sankti Pétursborg.[1] Foreldrar hennar voru af aðalsættum en voru fjárhagslega bágstödd þegar þau eignuðust Nadezhdu. Móðir hennar var munaðarlaus og hafði alist upp á opinberri stofnun og unnið fyrir sér sem kennslukona. Faðir hennar, sem einnig varð munaðarlaus á unga aldri, hafði alist upp í herskóla og útskrifast með liðsforingjatign. Hann hafði gegnt stöðu sem umdæmishöfðingi í Póllandi en hafði verið leystur frá störfum og sætt áralöngum málaferlum fyrir að vera of hallur undir pólska menningu og siði í því starfi.[2]

Krúpskaja flutti að heiman þegar hún var fjórtán ára og vann fyrir sér til að geta haldið áfram námi. Hún gerðist kennslukona og varð fyrir miklum áhrifum af ritum Tolstojs, sem gagnrýndu óhóf og iðjuleysi rússnesku yfirstéttanna.[2] Hún lauk menntaskólaprófi árið 1887 með ágætiseinkunn og hlaut gullverðlaun fyrir góðan námsárangur.[1]

Á námsárum sínum gerðist Krúpskaja aðili að leshringi róttækra stúdenta þar sem hún hóf að lesa ritverk Karls Marx. Í þessum félagsskap gerðist Krúpskaja byltingarsinni og fór að aðhyllast kommúnisma. Hún tók að sér sjálfboðastarf sem kennslukona við sunnudagaskóla fyrir verkamenn.[2] Krúpskaja kynntist Vladímír Lenín á samkomu leshringanna árið 1894. Þau urðu nánir samverkamenn en aðeins um ári eftir að þau hittust handtóku yfirvöld þau fyrir að dreifa byltingaráróðri.[1] Lenín var sendur í útlegð til Síberíu og Krúpskaju var leyft að fylgja honum langað með því skilyrði að hún yrði skráð sem unnusta Leníns. Það varð úr og því gengu Krúpskaja og Lenín í hjónaband þegar komið var til Síberíu.[3]

Eftir að Síberíuútlegð hans lauk flutti Lenín til München. Krúpskaja fylgdi honum þangað þegar henni var sleppt árið 1901. Hún vann sem ritari í miðstjórn Bolsévikaflokksins á árunum 1905 til 1907[2] og skrifaði fjölda greina um þjóðfélagsmál og kvenréttindi. Hún gaf út fyrstu bók sína, Hin vinnandi kona, í Genf árið 1901. Árið 1915 tók Krúpskaja þátt í alþjóðlegu kvennaþingi í Bern og kynntist þar Clöru Zetkin, sem varð náin vinkona og samstarfskona hennar til æviloka.[1]

Lenín og Krúpskaja sneru heim til Rússlands eftir upphaf rússnesku byltingarinnar árið 1917. Þegar þangað var komið beitti Krúpskaja sér til þess að fá konur til þess að styðja októberbyltingu Bolsévikanna með greinaskrifum, fundum og bréfaskiptum.[1] Eftir að Bolsévikar tóku völdin í Rússlandi hóf Krúpskaja störf við alþýðufræðslu í nýja rússneska sovétlýðveldinu.[2] Sem aðstoðarþjóðfulltrúi í menntamálum lagði Krúpskaja meðal annars áherslu á einstaklingsréttindi barnsins en einnig á að börn yrðu að fá samfélagslegt uppeldi strax í bernsku.[1]

Lenín lést árið 1924 en Krúpskaja var áfram virk í stjórnmálum Sovétríkjanna. Í innanflokksdeilum gegn vinstriandstöðu Trotskíjs tók Krúpskaja afstöðu með Stalín, Zínovjev og Kamenev. Árið 1925 gagnrýndi hún Trotskíj og sagði að „marxísk greining [hefði] aldrei verið sterkasta hlið félaga Trotskíj.“ Í desember árið 1927 greiddi Krúpskaja atkvæði með brottrekstri Trotskíjs, Kamenevs og Zínovjevs úr Kommúnistaflokknum í samræmi við vilja Stalíns og hægriandstöðunnar sem Níkolaj Búkharín leiddi.[4]

Krúpskaja var gerð heiðursmeðlimur sovésku Akademíunnar árið 1931 og hlaut doktorsnafnbót í uppeldisvísindum. Síðustu æviár sín var Krúpskaja meðlimur í Æðstaráði Sovétríkjanna.[1]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Nadeshda Krupskaja“. Þjóðviljinn. 16. mars 1960. bls. 4.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 „Nadesda Krúpskaja: Ævi mín“. Þjóðviljinn. 4. júlí 1944. bls. 4; 5.
  3. Marcia Nell Boroughs Scott, Nadezhda Konstantinovna Krupskaya: A flower in the dark. The University of Texas at Arlington, ProQuest Dissertations Publishing, 1996. 1383491.
  4. Nadezhda K. Krupskaya. The Lessons of October Source: The Errors of Trotskyism, Communist Party of Great Britain, May 1925