Múhameð Zahir Sja

Síðasti konungur Afganistans (1933-1973)
(Endurbeint frá Mohammed Zahir Shah)

Múhameð Zahir Sja (pastú: محمد ظاهرشاه, persneska: محمد ظاهر شاه‎; 15. október 1914 – 23. júlí 2007) var síðasti konungur Afganistans. Hann ríkti frá 8. nóvember 1933 þar til honum var steypt af stóli þann 17. júlí 1973.[1]

Skjaldarmerki Barakzai-ætt Konungur Afganistans
Barakzai-ætt
Múhameð Zahir Sja
Múhameð Zahir Sja
محمد ظاهر شاه
Ríkisár 8. nóvember 1933 – 17. júlí 1973
Fæddur15. október 1914
 Kabúl, Afganistan
Dáinn23. júlí 2007 (92 ára)
 Kabúl, Afganistan
GröfMaranjan-hæð
Konungsfjölskyldan
Faðir Múhameð Nadir Sja
Móðir Mah Parwar Begum
DrottningHumaira Begum
Börn8

Zahir Sja jók samskipti Afganistans við ýmis erlend ríki, þar á meðal báða deiluaðila í kalda stríðinu.[2] Á sjötta áratugnum hóf hann að nútímavæða landið, sem fól meðal annars í sér upptöku nýrrar stjórnarskrár og innleiðingu þingbundinnar konungsstjórnar. Valdatíð Zahirs Sja einkenndist af friðsæld sem hefur ekki þekkst í landinu síðan.[3]

Zahir Sja var steypt af stóli á meðan hann var í fríi á Ítalíu árið 1973. Frændi hans og fyrrum forsætisráðherra Afganistans, Múhameð Daúd Khan, lýsti í kjölfarið yfir stofnun lýðveldis í landinu.[4] Zahir Sja bjó í útlegð nærri Róm til ársins 2002 en eftir endalok Talíbanastjórnarinnar var honum leyft að snúa heim. Hann hlaut heiðurstitilinn „faðir þjóðarinnar“ og hélt honum til dauðadags árið 2007.[5]

Ríkisár

breyta

Múhameð Zahir Sja varð konungur Afganistans aðeins nítján ára gamall þann 8. nóvember 1933 eftir að faðir hans, konungurinn Múhameð Nadir Sja, var myrtur fyrir framan hann á verðlaunaafhendingu í menntaskóla í Kabúl. Zahir Sja þótti ekki sérlega sterkur þjóðarleiðtogi og við byrjun valdatíðar hans voru það frændur hans og ættingjar sem fóru með mestöll völdin. Á tæplega 40 ára valdatíð sinni átti hann þó eftir að færa Afganistan nær því að vera nútímalegt lýðræðisríki. Hann lét jafnframt byggja fyrsta háskóla landsins.

Zahir Sja gætti þess að viðhalda hlutleysi í utanríkismálum. Hann viðhélt hlutleysi landsins bæði í seinni heimsstyrjöldinni og í kalda stríðinu þrátt fyrir að Afganistan væri nágrannaríki Sovétríkjanna. Hann jók við menningarleg og efnahagsleg tengsl landsins við Vesturlönd og Afganistan varð vinsæll ferðamannastaður á valdatíð hans.

Árið 1964 innleiddi Zahir Sja nýja stjórnarskrá sem umbreytti Afganistan úr óskoruðu einveldi í þingbundið konungdæmi. Með stjórnarskránni voru skref stigin í átt að lýðræði í landinu, meðal annars með innleiðingu skólaskyldu, kosningaréttar kvenna og aukinna möguleika til menntunar og atvinnu. Þar sem konungurinn var tregur til að láta af of miklum völdum gengu aðrar umbætur hans ekki eins langt. Til dæmis var starfsemi stjórnmálaflokka aldrei leyfð og bæði þingið og forsætisráðherrann höfðu lítil völd.

Þessir annmarkar á umbótum konungsins kunna að hafa verið ástæða þess að frændi hans og fyrrum forsætisráðherrann Múhameð Daúd Khan framdi valdarán gegn honum og lýsti yfir stofnun lýðveldis í Afganistan á meðan Zahir Sja var í fríi á Ítalíu þann 17. júlí 1973. Daúd Khan aðhylltist róttækari aðgerðir í þágu nútímavæðingar en vegna innrásar Sovétmanna í landið og áframhaldandi óstöðugleika báru áætlanir hans aldrei ávöxt. Til þess að forðast ofbeldi í kjölfar valdaráns Daúds sagði Zahir Sja formlega af sér í ágúst 1973 og batt þar með enda á 300 ára gamla valdaætt.

Útlegð

breyta

Í útlegðinni settist Zahir Sja að í Róm og bjó þar í 29 ár. Hann lifði að mestu rólegu lífi og gaf sér tíma til að iðka skák, ljósmyndun og málaralist. Hann gaf sjaldan viðtöl. Árið 1991 varð hann fyrir morðtilræði þegar portúgalskur maður sem þóttist vera blaðamaður stakk hann með hnífi í andlit og háls.

Undir lok níunda áratugarins viðraði forseti afgönsku kommúnistastjórnarinnar, Mohammad Najibullah, hugmyndir um að leyfa Zahir Sja að snúa heim til Afganistans og hjálpa til við að koma á „þjóðarsátt“ í landinu.[6] Najibullah og Mikhaíl Gorbatsjev, leiðtogi Sovétríkjanna, vildu fá Zahir Sja til þess að mynda samvinnustjórn á breiðari grundvelli en konungurinn hafnaði bæði þeirri tillögu og hugmyndum Bandaríkjanna um að hann myndaði útlegðarstjórn.[7]

Konungurinn fyrrverandi gat lengst af fátt annað gert en að fylgjast með stríðseyðileggingunni í heimalandi sínu, fyrst við hernám Sovétmanna og síðan við borgarastríðið milli Talíbana og Norðurbandalagsins. Líkt og margir Afganir vonaðist hann til þess að stjórn Talíbana myndi koma á friði og stöðugleika í landinu en varð fljótt fyrir vonbrigðum. Zahir Sja hóf störf við að skipuleggja ættbálkasamkomuna loya jirga, sem hann vonaðist til þess að gæti stillt til friðar og myndað þjóðstjórn fyrir landið. Áætlanirnar hlutu lítið brautargengi fyrr en eftir innrás Bandaríkjanna í Afganistan og endalok Talíbanastjórnarinnar í lok 2001.

„Faðir þjóðarinnar“

breyta
 
Zahir Sja (lengst til hægri) við embættistöku Hamids Karzai forseta árið 2004.

Eftir fall Talíbanastjórnarinnar sneri Zahir Sja aftur til Afganistans í apríl 2002 og settist að í gömlu höllinni sinni. Hann afsalaði sér öllu tilkalli til krúnunnar og ítrekaði margsinnis að hann hefði ekki áhuga á að gerast þjóðhöfðingi á ný, aðeins að hjálpa til við enduruppbyggingu landsins. Zahir Sja setti fyrsta fund þjóðflokkasamkomunnar loya jirga sama ár. Í setningarræðu sinni sagði hann: „Þjóðin treystir sig á ykkur og þið megið ekki gleyma henni“. Hann sagðist jafnframt vona að samkoman myndi gera sitt mesta til að tryggja frið, stöðugleika og samheldni meðal þjóðarinnar. Zahir Sja var jafnframt viðstaddur embættisvígslu Hamids Karzai, nýs forseta Afganistans, árið 2002.

Í janúar árið 2004 var innleidd ný stjórnarskrá í Afganistan sem gerði landið formlega að íslömsku lýðveldi. Zahir Sja hlaut heiðurstitilinn „faðir þjóðarinnar“, sem var lagður niður eftir dauða hans.

Zahir Sja lést þann 23. júlí árið 2007 eftir að hafa glímt við slæma heilsu í nokkur ár. Hann hafði nokkrum sinnum þurft að fara erlendis í læknismeðferðir frá því að hann sneri heim til Afganistans. Karzai forseti lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg eftir andlát konungsins fyrrverandi. Í útför hans var kista Zahirs Sja flutt frá forsetahöllinni í mosku í Kabúl og hann síðan lagður til hinstu hvílu í grafhýsi á Maranjan-hæð í austurhluta borgarinnar.[8]

Tilvísanir

breyta
  1. „Profile: Ex-king Zahir Shah“. 1. október 2001 – gegnum news.bbc.co.uk.
  2. *C-SPAN: Afghan King & Queen 1963 Visit to U.S. Reel America Preview (official U.S. government video; public domain).
  3. Judah, Tim (23. september 2001). „Profile: Mohamed Zahir Shah“ – gegnum www.theguardian.com.
  4. „State funeral for Afghanistan's former President“. UNAMA. 19. mars 2009.
  5. Encyclopædia Britannica, "Mohammad Zahir Shah"
  6. „Þjóðarsátt miðar hægt“. Þjóðviljinn. 6. mars 1987. bls. 7.
  7. William Scobie (12. febrúar 1988). „Kóngi teflt fram í friðarsókn“. Morgunblaðið. bls. 27.
  8. "Afghanistan's King Mohammad Zahir Shah Laid to Rest", Associated Press (Fox News), 24. júlí 2007.


Fyrirrennari:
Múhameð Nadir Sja
Konungur Afganistans
(8. nóvember 193317. júlí 1973)
Eftirmaður:
Embætti langt niður
(Múhameð Daúd Khan sem forseti Afganistans)