Moderato Wisintainer
Moderato Wisintainer, almennt einfaldlega þekktur sem Moderato) (f. 14. júlí 1902 - d. 31. janúar 1986) var knattspyrnumaður frá Brasilíu. Hann keppti fyrir hönd þjóðar sinnar í Copa America 1925 og á fyrstu heimsmeistarakeppninni í Úrúgvæ.
Ævi og ferill
breytaModerato fæddist í Alegrete og hóf sem unglingur að leika með félaginu Esporte Clube 14 de Julho. Þaðan lá leiðin til Cruzeiro frá borginni Belo Horizonte, sem þá gekk raunar undir heitinu Palestra Itália. Árið 1923 gekk hann í raðir stórliðsins Flamengo frá Rio de Janeiro þar sem hann lék til ársins 1930. Það var hjá Flamengo sem frægðarsól Moderato reis hvað hæst. Hann varð Ríó-meistari með liðinu árin 1925 og 1927. Í síðara skiptið vakti hann mikla aðdáun fyrir að skora sigurmarkið í úrslitaleiknum þrátt fyrir að vera íklæddur miklum hlífðarbúnaði eftir botnlangaskurðaðgerð fáinum dögum fyrr.
Í Suður-Ameríkukeppninni 1925 varð Brasilía í öðru sæti af aðeins þremur þátttökuliðum, þar sem Argentína fór með sigur af hólmi. Moderato lék alla fjóra leiki Brasilíu í keppninni. Landsleikirnir urðu ekki nema fimm talsins. Sá síðasti kom á HM í Úrúgvæ 1930. Moderato var ekki í liðinu í fyrri leik Brasilíu í keppninni, tapi á móti Júgóslavíu sem gerði í raun út um allar vonir um að komast áfram í keppninni. Hann fékk hins vegar tækifærið á móti Bólivíu í seinni viðureigninni og skoraði þar tvö mörk í 4:0 sigri.
Eftir að knattspyrnuferlinum lauk starfaði Moderato sem verkfræðingur. Hann lést í Pelotas árið 1986, 83 ára að aldri.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Moderato Wisintainer“ á portúgölsku útgáfu Wikipedia. Sótt 5. ágúst 2023.