Ljósavatn

Ljósavatn

Ljósavatn er stöðuvatn í Ljósavatnsskarði í Þingeyjarsveit. Það er 3,2 ferkílómetrar að stærð. Veiði er einkum silungur, jafnt bleikja sem urriði, og er selt veiðileyfi á þremur bæjum í kring um vatnið. Ein eyja er í vatninu og er hún einfaldlega kölluð "Hólminn". Þar verpir álftapar á hverju vori. Tveir himbrimar hafa sest að við vatnið og eru alláberandi ef keyrt er framhjá vatninu að sumri til.

Stutt austan við Ljósavatn standa samnefndur bær og kirkja. Þar bjó Þorgeir Ljósvetningagoði sem fékk það hlutverk fyrir rúmlega þúsund árum að ákveða hvaða trú yrði tekin upp á Íslandi. Hann valdi kristna trú og henti goðalíkneskjum sínum úr Ásatrú í foss sem upp frá því var nefndur Goðafoss.

Ein á rennur úr vatninu og heitir hún Djúpá. Veiði þykir ágæt í ánni, en hún þykir nokkuð merkileg að því leytinu til að hún rennur í átt frá sjó að stórum hluta til.

Þjóðsaga ein segir að eitt sinn hafi tveir menn róið út á vatnið með 60m langa línu og slakað henni allri úr í vatnið en ekki náð til botns. Nýlegar dýptarmælingar hafa hins vegar leitt í ljós að vatnið er 35m djúpt þar sem það er dýpst og meðaldýpið er 10,5m.

Önnur saga segir að póstberi einn hafi drukknað í vatninu og rak líkið upp á land við tanga einn er nefndur hefur verið Dauðatangi. Við hliðina á honum er vík sem póstberinn var grafinn í og hefur hún verið nefnd Grafarvík.

Mikið sumarbústaðaland er nú að rísa í kring um vatnið, einkum við það vestanvert.

Víðmynd af Ljósavatni

Tengt efni

breyta