Baulárvallarvatn er stöðuvatn á Snæfellsnesi, inn af Dufgusdal. Vatnið er um 1,6 ferkílómetrar að stærð og 47 metra djúpt, þar sem það er dýpst. Vatnið er í um 193 metra hæð yfir sjávarmáli og er í því urriði, enda telst það vera gott veiðivatn. Í vatnið rennur Vatnaá, Moldargilsá, Baulá, Draugagilsá og Rauðsteinalækur. Úr því rennur Straumfjarðará, sem er fræg fyrir góða laxveiði. Áður fyrr var vatnið einkum þekkt fyrir skrýmsli sem þar voru talin vera. Býlið Baulárvellir, sem stóð við Baulá sunnan vatnsins fór í eyði 1864 en er þekktast fyrir Baulárvallaundur þau sem þar urðu 1838.

Þjóðsaga breyta

Til er þjóðsaga sem segir frá atburðunum við Baulárvallavatn sem leiddu til þess að bærinn Baulárvellir lagðist í eyði.

Við Baulárvallavatn stóð eitt sinn bærinn Baulárvellir. Um eða eftir miðja 19. öld bjó þar maður er Jón hét og var kallaður Jón Sundmann og Kristín kona hans. Jón var mikill íþróttamaður og hirti heimili sitt lítið enda voru þau mjög snauð. Einu sinni um vetur þegar Jón var að heiman, eins og oft áður, var Kristín ein heima með börnin. Ís var á vatninu og mikill snjór kringum bæinn. Eitt kvöldið heyrast mikil óhljóð frá vatninu. Kristín og börnin hræðast mjög. Kristín lokar þá bænum vel áður en hún fer að sofa og sygnir allar dyr. Þegar hún er komin í rekkju getur hún ekki sofnað. Hún hafði vakað í stutta stund þegar hún heyrir mikla bresti og undirgang og finnst henni þessi ógangur þokast nær og nær þar til bærinn fer allur að skjálfa. Konar sér þá ekkert nema endalokin fyrir sér og fyllist skelfingu. Hún heyrir að komið er upp að bænum að framan með svo miklum gauragangi að brakar í hverju tré. Finnur hún svo kaldan gust í baðstofunni að það er sem hún sé úti. Hún þykist því vita að bæjahúsin hafi verið rofin að framan. Hún heyrir þessi læti í langan tíma og taldi hún þetta hafa staðið í allt að þrjá tíma. Til morguns liggur hún skelfingu lostin í rúmi sínu. Þá fer hún á fætur og klæðist. Þykir henni ekki fagurt um að litast. Hún sér að allur frambærinn með eldhúsi og búri er brotinn niður. Þekjan og veggirnir sem höfðu verið gaddfreðnir voru muldir í smátt. Mikil slóð lá frá bænum og út í vatnið og þar stór vök skammt undan landi, þó var allt að álnarþykkur ís á vatninu. Krístín vildi ekki gista á Baulárvöllum aðra nótt og lagði því að stað með börnin til byggða. Veður var gott en nokkur ófærð og óslétt undir fæti. Þegar hún er komin niður í miðjan Dufgusdal mætir hún bónda sínum og segir honum alla söguna. Hann verður mjög undrandi og fylgir henni til byggða. Menn voru þá sendir til Baulárvalla að skoða vegsummerki og var þá allt eins og Kristín hafði sagt. Kristín náði sér aldrei eftir þennan arburð og ekki hefur verið búið á Baulárvöllum eftir þetta. Saga þessi er sögð af þeim mönnum sem voru sjónarvottar af vegsummerkjum á Baulárvöllum. Skrímslum er kennt um ókyrrð í vatninu. Menn trúa því að Baulárvallavatn sé tvíbytna og sé auga úr því undir jörð og út í sjó. Einnig er sagt að göng séu úr Baulárvallavatni og yfir í Elliða en þar í hamrinum má sjá gatið greinilega.[1]

Heimildir breyta

  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, A-G. Örn og Örlygur.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Snæfellsnes. Mál og menning. ISBN 9979-3-0853-2.
  1. Gráskinna annað bindi, útgefendur: Sigurður Nordal & Þórbergur Þórðarson. Gefin út á Akureyri 1929 af Bókaverslun Þorsteins M. Jónassonar. Bls 70-72.