Gjörðabækur öldunga Zíons eða Siðareglur Zíonsöldunga (rússneska: Протоколы сионских мудрецов; umritað: Protokoly síonskíkh múdretsov) er bók sem var rituð af leynilögreglu keisarastjórnarinnar í Rússlandi og gefin út árið 1903. Bókin er falsaður texti sem á að vera vitnisburður um alþjóðlegt samsæri Gyðinga til að ná heimsyfirráðum. Bókin var þýdd á mörg tungumál og hún varð metsölubók víða um heim. Frásögnin í Gjörðabókum öldunga Zíons er hornsteinn í hugarheimi Gyðingahatara og margar samsæriskenningar um meint alþjóðleg samsæri byggja beint eða óbeint á hugmyndum sem bókin breiddi út.

Gjörðabækur öldunga Zíons
Kápa útgáfu bókarinnar frá 1912.
HöfundurÓþekktur
Upprunalegur titillПротоколы сионских мудрецов
ÞýðandiKristmundur Þorleifsson (1951)
LandRússland
TungumálRússneska
ÚtgefandiZnamja
Útgáfudagur
1903; fyrir 121 ári (1903)

Texta bókarinnar var að miklu leyti stolið úr bókinni Dialogue aux enfers entre Machiavel et Montesquieu eftir Maurice Joly frá árinu 1864. Sú bók var ádeila með háðslýsingum af uppspunnu ráðabruggi Napóleons 3. Frakkakeisara til að leggja undir sig heiminn. Bókin er safn fundargerða þar sem samsærismennirnir lýsa áætlunum sínum til að beita ofbeldi, stríðum, byltingum og áhrifum iðnbyltingarinnar og kapítalisma til að ná yfirráðum.[1]

Adolf Hitler vísaði til Gjörðabóka öldunga Zíons í bókinni Mein Kampf til stuðnings kenningum sínum um að Gyðingar stæðu í alþjóðlegu samsæri til að ná heimsyfirráðum. Gjörðabækur öldunga Zíons urðu síðar mikilvægur hluti af áróðri Þriðja ríkisins. Bókin er einnig lykilhluti í samsæriskenningum bandarískra öfgahægrisinna um að Gyðingar stjórni ríkisstjórnum Vesturlanda á bak við tjöldin.

Söguágrip

breyta

Fyrstu útgáfur á rússnesku

breyta

Textinn sem nú er þekktur undir titlinum Gjörðabækur öldunga Zíons var birtur í rússneska keisaradæminu í tveimur útgáfum. Sú fyrri birtist í köflum í tímariti Pavels Krúshevan, Znamja, árið 1903. Síðar birtist bókin í heild sinni árið 1905 í ritstjórn Sergej Nílús og árið 1906 í ritstjórn þjóðernissinnaða rithöfundarins Georgíj Bútmí.[2][3]

Í apríl árið 1902 hafði þegar verið vísað til Gjörðabókanna í grein sem birtist í tímaritinu Novoje Vremja.[4] Því er talið að útgáfa bókarinnar hafi verið í umferð fyrir árið 1903, líklega sem handrit eða handprentað eintak.

Árið 1905 birti Sergej Nílús heildartexta Gjörðabókanna í tólfta og síðasta kafla bókar sinnar Velíkoja v malom í aníkhríst (ísl. Hið stóra í hinu smáa: Koma Andkristar og ríki Satans á jörðu). Nílús fullyrti að textinn hefði verið tekinn saman á fyrsta heimsþingi Zíonista sem var haldið árið 1897 í Basel í Sviss.[5] Þessi fullyrðing Nílús hefur verið endurtekin af síðari dreifendum Gjörðabókanna en hún er ósönn. Þegar Krúshevan var bent á að heimsþingið 1897 hefði verið haldið fyrir opnum dyrum og að margt fólk hafi verið viðstatt sem ekki var Gyðingar breytti hann framburði sínum og sagði ritið vera samantekt frá fundum öldunganna á árunum 1902–03. Þetta var í mótsögn við fyrri staðhæfingar hans um að hann hefði fengið ritið í sínar hendur árið 1901.[6]

Árið 1908 skipaði forsætisráðherra Rússlands, Pjotr Stolypín, rannsókn á uppruna ritsins, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að það væri fölsun sem hefði upphaflega birst í París í kringum aldamótin.[7] Þegar Nikulási 2. Rússakeisara var tilkynnt um niðurstöðurnar skipaði hann að Gjörðabækurnar skyldu teknar úr umferð þar sem ekki væri hægt að „verja góðan málstað með slæmum aðferðum“.[8] Þrátt fyrir þá tilskipun var dreifingu ritsins haldið áfram[9] og Nikulás las síðar sjálfur úr Gjörðabókunum fyrir fjölskyldu sína í fangavist eftir að þeim var steypt af stóli árið 1917.[10]

Þýðingar á þýsku, ensku og frönsku

breyta
 
Fyrsta útgáfa Gjörðabóka öldunga Zíons á ensku frá árinu 1920 í birtingu Eyre & Spottiswoode Ltd. 1920.

Gjörðabækur öldunga Zíons voru þýddar á þýsku árið 1909 og voru lesnar á þingfundi austurríska þingsins í Vín.[11]

Dreifing Gjörðabókanna jókst eftir októberbyltinguna árið 1917 og fjöldaflótta rússneskra keisarasinna og gagnbyltingarmanna til Vestur-Evrópu.[12] Verkið varð heimsþekkt þegar það var gefið út í Þýskalandi í janúar 1920.

Gjörðabækurnar urðu enn alræmdari þegar fjallað var um þær í leiðara breska dagblaðsins The Times þann 8. maí 1920. Í leiðaranum, sem bar titilinn Gyðingahættan, bæklingur sem vekur ugg. Beiðni um rannsókn var vísað til þessarar „furðulegu litlu bókar“ og reynt að sýna fram á að texti hennar væri ósvikinn, meðal annars með vísan til þess að spár hennar hefðu ræst.[13] Greinin var birt þegar hvítliðar voru að tapa borgarastyrjöldinni í Rússlandi og harðlínumenn innan breska Íhaldsflokksins vildu grafa undan trúverðugleika nýrra stjórnvalda í Kreml með því að bendla þau við alþjóðlegt Gyðingasamsæri.[14]

Á næstu árum voru mörg helstu stefin úr Gjörðabókunum endurtekin í ritverkum Gyðingahatara (bæði stjórnmálaritum, fræðiritum og skáldverkum) um alla Evrópu.[13][15]

Fyrsta þýðingin á frönsku kom út árið 1920 undir titlinum Gjörðabækur: Samantektir úr leynifundum öldunga Ísraels í útgáfu La Vieille-France. Frönsk þýðing Gjörðabókanna var aftur birt árið 1922 af kaþólska prestinum Ernest Jouin í tímaritinu Revue internationale des sociétés secrètes undir titlinum Gjörðabækur ársins 1901, árið 1924 af blaðamanninum Urbain Gohier undir titlinum Gjörðabækur öldunga Ísraels og loks árið 1932 undir titlinum „Gjörðabækur“ öldunga Zíons: Ósvikin útgáfa af bókafélaginu Éditions Bernard Grasset ásamt formála eftir franska einveldissinnann Roger Lambelin.

Jouin birti einnig úrdrátt úr bókinni á frönsku árið 1932.[16]

Adolf Hitler vísaði til Gjörðabókanna í bók sinni, Mein Kampf, sem sönnun þess að Gyðingar ættu í alþjóðlegu samsæri gegn þjóðum heimsins.[17] Hitler gerði texta Gjörðabókanna síðar hluta af áróðri Þriðja ríkisins.[18][17]

Í Bandaríkjunum birti bílaframleiðandinn Henry Ford hluta úr Gjörðabókunum í dagblaði sínu, The Dearborn Independent. Ford taldi að Gjörðabækurnar væru „of hræðilega sannar til að geta verið skáldskapur, of djúpstæðar í þekkingu sinni á leynilegum gangverkum lífsins til að geta verið fölsun.“[19][20]

Gjörðabækur öldunga Zíons eru jafnframt lykilhluti af samsæriskenningu bandarískra öfgahægrimanna sem gengur út á að Gyðingar stjórni ríkisstjórnum heimsins á bak við tjöldin (Zionist Occupation Government).[21]

Sannanir á fölsun bókarinnar

breyta
 
Umfjöllun um greinar Philips Graves, sem sannaði að Gjörðabækur öldunga Zíons væru falsaðar, í The New York Times þann 4. september 1921.

Allt frá birtingu verksins hafa verið uppi grunsemdir um að Gjörðabækur öldunga Zíons séu falsaðar. Ári eftir að The Times fjallaði um Gjörðabækurnar og færði rök fyrir að þær væru ósviknar birti blaðið aðra grein, undir titlinum Endalok gjörðabókanna, þar sem sýnt var fram á að þær væru ritfölsun. Sýnt var fram á að stórir hlutar bókarinnar væru teknir orðrétt upp úr bæklingnum Dialogue aux enfers entre Machiavel et Montesquieu (ísl. Samræður í helvíti á milli Machiavelli og Montesquieu), sem var ádeila sem franski rithöfundurinn Maurice Joly hafði skrifað um stjórn Napóleons 3. Frakkakeisara og var gefin út í Brussel árið 1864. Árið 1934 bar jesúítapresturinn Pierre Charles verkin tvö saman, orð fyrir orð, og sýndi enn skýrar fram á að seinna verkið væri eftirlíking.[22]

Orð sem eru eignuð Machiavelli (sem er látinn tákna Napóleon 3.) í frumritinu eru færð til í Gjörðabókunum og þau þess í stað eignuð öldungaráði Gyðinga.[23]

Jacques Bainville, meðlimur í frönsku þjóðernissamtökunum Action française, vísaði til greinar The Times sem sýndi fram á ritfölsunina árið 1921.[24] Umberto Benigni, sem hafði verið virkur í að dreifa Gjörðabókunum, skrifaði Ernest Jouin árið 1921, óskaði honum til hamingju með dreifingu sína á verkinu og sagði: „Því meira sem ég velti fyrir mér spurningunni, því sannfærðari verð ég bæði um efnislega fölsun verksins og um raunverulegt mikilvægi þess.“[25]

Þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á með óyggjandi hætti að Gjörðabækur öldunga Zíons séu falsaðar vísa Gyðingahatarar gjarnan með beinum eða óbeinum hætti til þeirra í dag til að sýna fram á tilvist „alþjóðlegs Gyðingasamsæris“.[26][27][28][29][30]

Þýðing á íslensku

breyta

Íslensk þýðing á Gjörðabókunum kom út árið 1951 undir titlinum Samsærisáætlunin mikla : siðareglur Zíonsöldunga. Íslenska útgáfan var birt af Jónasi Guðmundssyni, embættismanni og fyrrum Alþingismanni úr Alþýðuflokknum, sem ritaði jafnframt formála og eftirmála að bókinni og birti valda kafla úr þýðingunni í tímariti sínu, Dagrenningu.[31] Samtímamenn Jónasar gagnrýndu útgáfu verksins og bentu á að sýnt hefði verið fram á fölsun textans[32] en Jónas hafnaði því að um væri að ræða fölsun og kvað bókina hafa verið ritaða á seinni hluta 18. aldar.[33]

Heimildir

breyta
  • Cesare G. De Michelis (1997). „Les Protocoles des sages de Sion“. Cahiers du monde russe. Éditions de l'École des hautes études en sciences sociales. 38 (3): 263–305. De Michelis1997.
  • Walter Laqueur (2010). L'Antisémitisme dans tous ses états. Depuis l'Antiquité jusqu'à nos jours (franska). ISBN 9782940427086.
  • Pierre-André Taguieff (2006). L'Imaginaire du complot mondial. Aspects d'un mythe moderne (franska). Paris: Mille et une nuits. ISBN 2-84205-980-8.

Tilvísanir

breyta
  1. Laqueur 1996.
  2. De Michelis 1997.
  3. Laqueur 2010, bls. 117 & suiv., 127 & suiv..
  4. Jacques Halbronn, « Le texte prophétique en France. Formation et fortune », thèse d'État, université Paris X, 1999.
  5. Cesare G. De Michelis (2004). The Non-Existent Manuscript : a Study of the Protocols of the Sages of Zion (enska). University Of Nebraska Press. ISBN 978-0-8032-1727-0..
  6. Kominsky, Morris (1970), The Hoaxers, Branden Press, bls. 209, ISBN 978-0-8283-1288-2.
  7. Fjodorov, Borís, Попытка П. Столыпина решить "еврейский вопрос" (rússneska), Rússland, afrit af upprunalegu geymt þann 10. febrúar 2012, sótt 23. nóvember 2006.
  8. Búrtsev, Vladímír (1938), „4“, The Protocols of the Elders of Zion: A Proved Forgery (rússneska), Paris: Jewniverse, bls. 106.
  9. Kadzhaya, Valery. „The Fraud of a Century, or a book born in hell“. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. desember 2005..
  10. „Five myths about the Romanovs“. The Washington Post. 26. október 2018. Afrit af uppruna á 8. mars 2023.
  11. Halbronn 2002.
  12. Taguieff 2006, bls. 120–121.
  13. 13,0 13,1 Taguieff 2006, bls. 123.
  14. Léon Poliakov (1983). De Moscou à Beyrouth. Essai sur la désinformation (franska). París: Calmann-Lévy. bls. 27. ISBN 2-7021-1240-4.
  15. Poliakov 1983, bls. 27.
  16. Ernest Jouin (1932). Le péril judéo-maçonnique : les "Protocols" des sages de Sion : coup d’œil d'ensemble (franska). Paris: Revue internationale des sociétés secrètes. Émile-Paul frères. bls. 24.
  17. 17,0 17,1 Adolf Hitler, Mein Kampf, bls. 160.
  18. Norman Cohn (1966). Warrant for Genocide : The Myth of the Jewish World-Conspiracy and the Protocols of the Elder of Zion (enska). New York: Harper & Row Publishers. bls. 32–36.
  19. Henry Ford. The International Jew (enska).
  20. Richard Allen Landes et Steven T. Katz (2012). „The Protocols of the Elders of Zion on the Contemporary American Scene: Historical Artifact or Current Threat?“. The Paranoid Apocalypse: A Hundred-year Retrospective on the Protocols of the Elders of Zion (enska). NYU Press. bls. 172-176.
  21. Richard Allen Landes et Steven T. Katz (2012). „The Protocols of the Elders of Zion on the Contemporary American Scene: Historical Artifact or Current Threat?“. The Paranoid Apocalypse: A Hundred-year Retrospective on the Protocols of the Elders of Zion (enska). NYU Press. bls. 181.
  22. Pierre Charles (1938). „Les Protocoles des sages de Sion“. Nouvelle Revue théologique. 65: 56-78, 966-969, 1083-1084.
  23. „Upp komast svik...“. Morgunblaðið. 11. september 1951. bls. 72-73.
  24. Pierre-André Taguieff, Les Protocoles des Sages de Sion : Faux et usages d'un faux, Paris, Fayard, 2004.
  25. Bibliothèque nationale de France, mss, FM7, 17, RISS, lettre de Benigni à Jouin du 9 février 1921.
  26. Tristan Mendès France; Michaël Prazan (1998). Une tradition de la haine. Paris-Méditerranée. bls. 153. ISBN 978-2-84272-054-4.
  27. Jérôme Jamin (2009). L'imaginaire du complot (franska). Amsterdam: Amsterdam University Press. bls. 60. ISBN 978-90-8964-048-2.
  28. Anne-Marie Duranton-Crabol (1991). L'Europe de l'extrême droite. 43. árgangur. Éditions Complexe. bls. 42. ISBN 978-2-87027-404-0.
  29. Dominique Albertini; David Doucet (2016). La Fachosphère. Flammarion. ISBN 978-2-08-135491-3.
  30. France Culture. „Mécanique du complotisme. Les Protocoles des Sages de Sion, le complot centenaire (1/3) : les faussaires du Tsar“. franceculture.fr (franska).
  31. Jónas Guðmundsson (1951). „Siðareglur Zionsöldunga“. Dagrenning. bls. 33-44.
  32. „„Siðareglurnar". Norðurljósið. 1. maí 1951. bls. 18-19.
  33. Jónas Guðmundsson (1. júní 1951). „„Víða koma Hallgerði bitlingar". Dagrenning. bls. 19-22.