Álfheiður Ingadóttir

Álfheiður Ingadóttir (f. 1. maí 1951) er íslenskur stjórnmálamaður og líffræðingur og var alþingismaður Reykvíkinga fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð 2007-2013. Álfheiður var heilbrigðisráðherra 1. okt. 2009 til 2. sept. 2010 og formaður þingflokks Vinstri grænna 2012-2013. Álfheiður skipaði 2. sæti á framboðslista VG í Reykjavíkurkjördæmi suður í kosningunum 2013. Álfheiður er gift Sigurmari K. Albertssyni hrl. og eiga þau einn son, Inga Kristján, f. 1991.

Álfheiður Ingadóttir (ÁI)

Fæðingardagur: 1. maí 1951 (1951-05-01) (73 ára)
10. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður
Flokkur: Merki Vinstri grænna Vinstrihreyfingin – grænt framboð
Nefndir: Heilbrigðisnefnd, viðskiptanefnd, iðnaðarnefnd, viðskiptanefnd, allsherjarnefnd, velferðarnefnd, efnahagsnefnd, umhverfisnefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
Þingsetutímabil
2007-2009 í Reykjavík s fyrir Vg
2009-2013 í Reykjavík n fyrir Vg
= stjórnarsinni
Tenglar
Æviágrip á vef Alþingis

Menntun og fyrri störf

breyta

Álfheiður lauk grunnskólaprófi frá Melaskóla, landsprófi frá Hagaskóla og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1971. Hún lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1975 og stundaði nám í þýsku og fjölmiðlun í Freie Universität í Berlín 1976-1977. Hún kenndi líffræði með námi í MR og MH, var blaðamaður við Þjóðviljann 1977-1987, upplýsingafulltrúi Samtaka um kvennaathvarf 1994–1995 og framkvæmdastjóri ráðstefnu norrænna kvennaathvarfa á Íslandi í nóvember 1995. Álfheiður var útgáfustjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands 1997-2007 og ritstjóri Náttúrufræðingsins, tímarits Hins íslenska náttúrufræðifélags, 1997-2006 og aftur 2014-2021.

Stjórnmál

breyta

Álfheiður hefur lengi tekið virkan þátt í félagsmálum og pólitík. Hún var félagi í Alþýðubandalaginu, tók þátt í myndun Reykjavíkurlistans 1994 og stofnun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs 1999. Álfheiður var varaborgarfulltrúi AB í Reykjavík 1978-1986 og varaþingmaður 1987-1991. Hún átti sæti í ýmsum nefndum á vegum borgarinnar m.a. í jafnréttisnefnd 1982–1986 og í umhverfismálaráði 1978-1986 og var formaður þess um skeið. Hún sat í nefnd um byggingu Náttúruhúss í Reykjavík 1989–1990 og var formaður nefndar um áhættumat Reykjavíkurflugvallar 1990-1991. Hún gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á vegum Reykjavíkurlistans, m.a. í stjórn Sorpu 1994–1998 og í nefnd um mótun orkustefnu Reykjavíkurborgar 2002–2003. Álfheiður var einn þriggja fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Landsvirkjunar 2003-2006 þegar borgin seldi hlut sinn til ríkisins.

Álfheiður var kjörin á þing fyrir Vinstri græn 2007. Hún var 5. varaforseti Alþingis frá kosningum 2009 til 2012 að undanskildu því tæpa ári sem hún gegndi embætti heilbrigðisráðherra og þinginu 2012-2013 þegar hún var formaður þingflokks VG. Hún var formaður viðskiptanefndar og velferðarnefndar með hléum 2007-2013 og varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá 2011 til loka kjörtímabilsins.

Álfheiður átti sæti í Norðurlandráði 2009- 2013 og sat í umhverfis- og auðlindanefnd ráðsins þann tíma. Hún var formaður flokkahóps vinstri grænna sósíalista í ráðinu 2011-2012. Álfheiður var formaður Þingvallanefndar 2009-2013.


Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Ögmundur Jónasson
Heilbrigðisráðherra
(1. október 20092. september 2010)
Eftirmaður:
Guðbjartur Hannesson