Tíbeskur búddismi

(Endurbeint frá Lamasiður)

Tíbeskur búddismi er grein innan mahajana-búddisma sem hefur marga fylgjendur i Tíbet og víða um Mið-Asíu. Þessi grein búddisma einkennist af miklum og fjölbreyttum helgisiðum sem eiga rætur í bæði mahajana og vajrajana-hefðum og einnig fjölda klausturreglna. Veigamikill þáttur í tíbeskum búddisma eru tantrískar íhugunaraðferðir, jóga og aðrar andlegar þjálfunaraðferðir. Þessi grein búddisma er á stundum nefnd lamasiður, lamahefð eða lamaismi á vesturlandamálum en það er nafngift sem tíbeskir búddistar sætta sig ekki við. Orðið lama á tíbesku er samsvarandi sanskrítarorðinu gúru og þýðir kennari í dharma en er eingöngu notað sem heiðurstitill.

Dhamma-hjólið, tákn búddismans
Guru Rinpoche, stofnandi Nyingma-greinar tíbeska búddismans

Tíbeskur búddismi á rætur í textum og trúarhefðum mahajana og vajrajanagreina búddismans og bárust þær í tveimur aðskildum bylgjum til Tíbet. Sú fyrri á áttundu og fram á níundu öld og sú seini á seinnihluta tíundu aldra. Samkvæmt söguhefð Tíbeta var það Indverski trúarspekingurinn sem í indverskum heimildum er nefndur Padmasambhava og í tíbeskum Guru Rinpoche sem árið 747 e.Kr. hóf að boða kenningar búddismans í Tíbet.

Í tíbeskum búddisma má finna arfleifð frá hinum fornu tíbesku trúarbrögðum sem nefnd eru bön. Hin sterka tantríska hefð tíbesks búddisma tengir hann einnig beint við tantrískar hefðir hindúisma. Þó kjarnasvæði tíbeska búddismans hafi ævinlega verið Tíbet hefur þessi hefð enn sterk ítök víða um Asíu, má þar nefna Bhutan, Mongólíu og Nepal. Einnig í Rússnesku héruðunum Burjatia, Kalmykia og Tuva og norðaustur Kína (Mandsjuria, Heilongjiang, Jilin). Þessi hefð er líka sterk í héruðunum Ladakh og Sikkim á Indlandi. Tíbeskur búddismi skiptist í fjórar megingreinar og fjölda minni greina.

Tíbeskur búddismi var ríkistrú í aldaraðir og klausturreglur fóru bæði með andleg og veraldleg völd. Höfuðstöðvar trúarinnar voru í borginni Lhasa og þar voru einnig aðalstöðvar æðsta yfrirmanns trúarinnar, Dalai Lama. Næstur honum að tign var Panchen Lama. Í samband við hernám Kínverja af Tíbet 1950 var hið veraldlega veldi trúarinnar brotið á bak aftur, Panchen Lama var settur í fangelsi og Dalai Lama flúði til Indlands 1959 og hefur hann búið þar síðan.

Sérkenni tíbeska búddismans

breyta

Það er einkum þrjú atriði sem einkenna tíbeskan búddisma og aðgreina frá öðrum greinum búddisma:

  • trúin að lama geti valið að endurfæðast og þá í grunnformi sínu sem nefnt er tulku. Það er hægt að þekkja þetta tulku á ákveðnum einkennum í því barni sem það hefur endurfæðst í. En barnið þarf að endurmenntast í fræðum búddismans.
  • trúin að búddar geti endurfæðst í mannlegu gervi
  • leitin að duldum heilögum fræðum, svo nefndum terma. Sá sem leitar þessara fræða er nefndur terton. Þessi fræði má á stundum finna í föstu formi t.d. skrifum og þá oftast á dulmáli. Tertoninn verður að lesa og túlka textann hvað eftir annað þar til merkingin að lokum opinberast. Fræðin má einnig uppgötva við hugleiðslu eða bein tengsl við sérstaka hluti. Þegar það gerist tengist tertoninn beint við fræðin og þau birtast honum í einni heild.

Í tíbeskum búddisma er einnig mjög sterk trú á ýmsa boddhisattva og verndara dharma. Botthisattva eru upplýstur maður sem velur að dveljast í samsara öðrum til aðstoðar. Dharma-verndarar eru einskonar húsguðir sem vernda hús og þorp.

Þeir sem ekki helga sig trúnni sem munkar eða nunnur bera fram fórnir til ýmissa boddhisatva, færa munkum mat, kveikja á smjörlömpum í musterunum, fara í pílagrímaferðir eða syngja bænir.

Klaustur og klausturmenntun var afar mikilvægur þáttur í tíbeskum búddisma. Þegar kínverski herinn réðist inn í Tíbet 1950 er álitið að um 25 prósent af íbúum landsins hafi búið í klaustrum. Fyrir menningarbyltinguna á sjöunda áratug 20. aldar er talið að það hafi verið milli 2000 og 3000 klaustur í Tíbet. Kínversk yfirvöld hafa nú yfirsjón með kennslu og kenningum í klaustrunum í Tíbet og reyna með harðri hendi að stjórna þeim í pólitískum tilgangi.

Saga og munkareglur

breyta

Búddismi barst til Tíbet um 750 þegar indverski vajrajana-munkurinn Padmasambhava kom til landsins og stofnaði fjölda klaustra, hann varð þar með fyrsti laman. Búddisminn blandaðist mjög bön, hinum fornu tíbesku trúarbrögðum.

Sú hefð sem Padmasabhava stofnaði er nefnd Nyingma. Trúarhefð og trúarkenningar þessarar hefðar byggir á þýðingum á heilögum textum búddisma sem gerðar voru eftir kínverskum textum. Þessir textar höfðu verið þýddir yfir á kínversku úr sanskrít og samkvæmt öðrum búddistum hafði allmikið skolast til á þessu þýðingarferli. Hinar meginhefðir tíbesks búddisma, kayu, sakya og geluk, byggja á seinni þýðingum beint úr frumritunum á sanskrít. Áberandi munur á hinum mismunandi hefðum er að geluk-munkarnir bera gulan höfuðbúnað og hinir rauða.

Dalai Lama tilheyrir geluk-reglunni og er einnig almennt talinn yfirmaður tíbesks búddisma. Hann var einnig yfirmaður tíbesku ríkisstjórnarinnar frá byrjun 17. aldar. Núverandi Dalai Lama, Tenzin Gyatso, er sá fjórtándi í röðinni og eru þeir allir taldir vera endurholdganir indverska bodhisattvasans Avalokiteshvara.

Heimildir

breyta
  • Coogan, Michael D. (ritstj.), The Illustrated Guide to World Religions (Oxford: Oxford University Press, 2003). ISBN 1-84483-125-6.
  • Lopez, D., Prisoners of Shangri-La: Tibetan Buddhism and the West (Chicago: University of Chicago Press, 1998).
  • Schumann, Hans W., Handbuch Buddhismus: Die zentralen Lehren – Ursprung und Gegenwart (München: Diederichs, 2000). ISBN 3-7205-2153-2.
  • Stee Hagen, Buddhism Plain and Simple (Broadway, 1998). ISBN 100767903323

Tengt efni

breyta