L'Homme de Washington

L'Homme de Washington (íslenska: Maðurinn frá Washington) eftir franska teiknarann Achdé (Hervé Darmenton) og höfundinn Laurent Gerra er 75. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 2008 og hefur ekki komið út á íslensku.

Kápa ensku útgáfu bókarinnar.

Söguþráður breyta

Það styttist í forsetakosningar í Bandaríkjunum og frambjóðandi Demókrata, Rutherford B. Hayes, hyggur á kosningaferðalag um Vesturríkin. Bandaríkjaþing óttast um öryggi Hayes á ferðalaginu, ekki síst þar sem spilltur mótframbjóðandi hans, hinn vellauðugi Repúblikani Perry Camby, hugsar Hayes þegjandi þörfina. Kallar þingið Lukku Láka á sinn fund og fær hann til að gæta öryggis Hayes. Lukku Láki fær fljótt í nógu að snúast þar sem á fyrsta áfangastað Hayes - smábænum Columbus í Kentucky - er reynt að ráða hann af dögum. Eftir aðra morðtilraun á næsta viðkomustað - í bænum Hermann í Missouri - vakna grunsemdir um að svikari leynist í fylgdarliði frambjóðandans. Á framboðsfundi í Memphis í Tennessee er Hayes hársbreidd frá því að falla fyrir byssukúlu tilræðismannsins, en ekki tekst að hafa hendur í hári hans frekar en fyrri daginn. Eftir ýmsar hrakningar á ferð yfir indíánasvæði í Oklahoma nær hópurinn loks til Austin í Texas þar sem Lukku Láki leggur til að Hayes og Camby geri út um sín mál í kappræðum á krá bæjarins.

Fróðleiksmolar breyta

 
Rutherford B. Hayes forseti Bandaríkjanna 1877-1881.
  • Nítjándi forseti Bandaríkjanna, Rutherford B. Hayes (1822-1893), er í aðalhlutverki í sögunni ásamt eiginkonu sinni Lucy Webb (1831-1889), en þau höfðu áður birst í smærra hlutverki í Söru Beinhörðu. Í þeirri bók var Hayes hins vegar orðinn forseti. Annar samtímamaður sem kemur við sögu er píanóleikarinn Scott Joplin (1867-1917) sem oft er talinn konungur svonefndrar Ragtime tónlistarstefnu í Bandaríkjunum.
  • Eins og í fyrstu bók þeirra Achde og Gerra í bókaflokknum, La Belle Province, eru ýmsar persónur sögunnar skopstælingar á þekktu fólki, bæði stjórnmálamönnum og kvikmyndaleikurum. Fyrirmynd Perry Camby, frambjóðanda Repúblikana frá Texas, er bersýnilega George W. Bush, 43. forseti Bandaríkjanna, og aðstoðarmaður hans í sögunni líkist mjög Dick Cheney varaforseta. Lífverðir Hayes í sögunni, sem Lukku Láki leysir af hólmi, eru karakterar úr bandarísku sjónvarpsþáttunum The Wild Wild West frá sjöunda áratuginum, þ.e. leyniþjónustumennirnir James West og Artemus Gordon (James East og Art Gin í bókinni). Lestarstjórinn Jack Lantyer líkist franska kvikmyndaleikaranum Jean Gabin (1904-1976) sem hafði raunar áður birst í bókinni Óaldarflokkur Jússa Júmm. Loks er blaðamaðurinn Paul Hemick lifandi eftirmynd franska útvarps- og sjónvarpsmannsins Marc-Olivier Fogiel.
  • Nokkrar persónur úr eldri Lukku Láka bókum koma við sögu í bókinni, þar á meðal Billi Barnungi, Elliot Belt úr Sjakalanum og fjárhættuspilarinn Cat Thumbs úr Póstvagninum. Þá er mexíkóski veitingamaðurinn í sögunni, sem býður Hayes að smakka Mezcalvín, nauðalíkur "bankastjóranum" Pepé úr Rex og pex í Mexíkó.
  • Á leið sinni til Columbus fer lestin framhjá kúahjörð. Ef grannt er skoðað má þar sjá bregða fyrir undanvillingnum sem var fulltrúi Lukku Láka í bókinni Gaddavír á gresjunni.
  • Dansarinn á Columbus Saloon er nefndur Britney Schpires, með vísan til söngkonunnar Britney Spears.
  • Á teikningunni af aðalgötunni í Memphis (Beal Street) eru augljósar skírskotanir til frægra tónlistarmanna, þar með talið Jackson bræðranna. Ungur Michael sést þar í reiðiskasti elta annan strák og í upprunalegri útgáfu bókarinnar er tilefnið að sá var að gera grín að nefi Michaels. Í enskri útgáfu bókarinnar hefur þessu verið breytt þannig að tilefnið er slagur um ástir stúlku með tilvísun til lagsins The Girl is Mine af plötunni Thriller, en Michael Jackson lést nokkrum árum áður en bókin kom út á ensku.