Sara Beinharða (franska: Sarah Bernhardt) eftir Morris (Maurice de Bevere), Jean Leturgie og Xavier Fauche er 50. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1982.

Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

Söguþráður breyta

Sagan hefst í París þann 26. júlí 1880 þegar Hjarri rótari tilkynnir með símskeyti til allra dagblaða í Bandaríkjunum að leikkonan heimsfræga Sara Beinharða muni sækja Bandaríkin heim. Ekki gleðjast allir yfir þeim tíðindum þar sem sumir telja leikkonuna fulltrúa siðspillingar og forseti Bandaríkjanna, Jibbi B. Hæhæ, fær Lukku Láka til að gæta öryggis leikkonunnar meðan á heimsókninni stendur. Sara kemur til New York, en á leið til Boston liggur við stórslysi þegar lestarvagn Söru losnar og rennur stjórnlaust niður bratta brekku. Lukku Láki bjargar málunum, en grunar að svikari leynist í hópnum sem vilji Söru illt. Á fljótabát niður Mississippifljót er aftur reynt að ráða Söru af dögum, en tilræðismaðurinn sleppur undan. Eftir viðburðaríka heimsókn til Blönkuborgar liggur leiðin um yfirráðasvæði indíána og þá gildir að hafa hljótt um sig.

Fróðleiksmolar breyta

 
Sarah Bernhardt á ljósmynd frá um 1864.
  • Hin heimsfræga franska leikkona Sarah Bernhardt (1844-1923) kom í sína fyrstu heimsókn til Bandaríkjanna haustið 1880 og vakti heimsóknin gríðarlega athygli þarlendra fjölmiðla. Að öðru leyti er sagan skáldskapur, þó með einni undantekningu: þótt ótrúlegt sé er nokkurn veginn sannsögulega sagt frá skiptum Söru við hvalveiðimanninn Mr. Smith sem gaf henni raunverulega hval í auglýsingaskyni.
  • Nítjándi forseti Bandaríkjanna, Rutherford B. Hayes (1822-1893), kemur við sögu í bókinni (Jibbi B. Hæhæ) ásamt eiginkonu sinni Lucy Webb (1831-1889). Þau áttu eftir að birtast aftur í stærra hlutverki í bókinni L'Homme de Washington sem kom út árið 2008.
  • Á nokkrum stöðum í bókinni fer Sara Beinharða með ljóðlínur eftir franska ljóðskáldið og nóbelsverðlaunahafann Sully Prudhomme (1839-1907). Í íslenskri útgáfu bókarinnar er hins vegar notast við brot úr kvæðum eftir íslensk ljóðskáld, þ.e. Steingrím Thorsteinsson (bls. 5 og 46), Hannes Hafstein (bls. 6 og 35) og Kristján Jónsson fjallaskáld (bls. 15 og 44).
  • Sara Beinharða er síðasta Lukku Láka bókin þar sem Lukku Láki reykir sígarettur. Í næstu bók, Fingers, hefur strá leyst sígarettuna af hólmi. Þess sér raunar stað í bókinni að umburðarlyndi gagnvart reykingum Láka fer minnkandi - Sara Beinharða kvartar yfir reykjarbrælu í návist Lukku Láka og Léttfeti spyr Láka kaldhæðnislega hvort hann vanti eld í soghólkinn.
  • Sara Beinharða er fyrsta Lukku Láka bókin sem Morris teiknaði í samstarfi við höfundana Jean Leturgie og Xavier Fauche. Þeir unnu einnig með Morris við bókaflokkinn um Rattata og gerð teiknimynda um Lukku Láka fyrir sjónvarp.

Íslensk útgáfa breyta

Sara Beinharða var gefin út af Fjölva árið 1982 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 31. bókin í íslensku ritröðinni.