Billi Barnungi
Billi barnungi (franska: Billy the kid) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 20. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1962, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) árið 1961.
Söguþráður
breytaByssubófinn og óknyttastrákurinn Billi barnungi heldur bænum Lumputanga (e. Fort Weakling) í heljargreipum og hvorki skerfarinn né aðrir í bænum þora að hreyfa legg né lið til að koma Billa í hendur réttvísinnar. Þegar Lukku Láki birtist í Lumputanga í atvinnuleit og lætur sér fátt um finnast fær Valli Vamban, ritstjóri Lumpulúðursins og eini bæjarbúinn sem skelfur ekki eins og lauf í vindi fyrir Billa, Láka til aðstoðar við að losna við óbótamanninn. Fljótt kemur í ljós að helsta hindrunin í vegi þess að koma lögum yfir Billa er að fá einhvern bæjarbúa til að þora að bera vitni gegn honum. Lukku Láka tekst með miklum harmkvælum að fá einn bæjarbúa, Hróa nýlendukaupmann, til að bera vitni gegn Billa vegna þjófnaðar á rauðum brjósygg. Þegar Billi er sýknaður af lafhræddum kviðdómi grípa Lukku Láki og Valli til örþrifaráða til að koma bæjarbúum í skilning um að enginn bófi er eins ægilegur og orðspor hans.
Fróðleiksmolar
breyta- Persóna Billa barnunga er byggð á hinum alræmda útlaga villta vestursins Henry McCarty (1859-1881), betur þekktum sem Billy the kid eða William H. Bonney, sem lék lausum hala í Nýju Mexíkó á áttunda og níunda áratug 19. aldar. Sagan segir að hann hafi drepið 21 mann, en síðari tíma rannsóknir þykja hafa leitt í ljós að þeir hafi verið mun færri. Hann féll fyrir hendi lögreglustjórans Patt Garrett árið 1881. Ófáar kvikmyndir hafa verið gerðar um ævi Billa barnunga.
- Í bókinni er Billi örvhentur. Rímar það við þjóðsöguna, en í dag er talið nokkuð víst að hann hafi verið rétthentur.
- Sagan um Billa barnunga sætti ritskoðun af hendi útgefandans Dupuis þegar hún kom út í bókarformi árið 1962. Fjarlægðir voru nokkrir rammar í byrjun sögunnar, m.a. þar sem nýfæddur Billi í vöggu notar skammbyssu sem snuð. Þegar bókin kom út á ensku árið 2006 hafði þessum römmum verið bætt við að nýju.
- Billi barnungi kom stuttlega við sögu í tveimur eldri Lukku Láka bókum, þ.e. Eldri Daldónum og Óaldarflokki Jússa Júmm, en var þá ekkert líkur persónunni eins og hún birtist í Billa barnunga. Vinsældir Billa urðu slíkar að síðar leit önnur Lukku Láka bók dagsins ljós þar sem Billi var í aðalhlutverki, Heiðursvörður Billa Barnunga.
- Billi barnungi var ein af eftirlætisbókum Morris sjálfs.
- Bókin er sennilega sú fyrsta í bókaflokknum þar sem til beinna tjáskipta kemur milli Lukku Láka og Léttfeta. Sjá bls. 30 í íslensku útgáfunni.
- Í bókarlok kemur útlaginn Jesse James stuttlega við sögu. Hann varð síðar í aðalhlutverki í samnefndri Lukku Láka bók sem kom út árið 1969.
- Ritstjórinn Valli Vamban er skopstæling á Paul Dupuis sem var ritstjóri útgáfufélagsins Dupuis þegar bókin kom út.
Íslensk útgáfa
breytaBilli barnungi var gefin út af Fjölva árið 1978 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 12. bókin í íslensku ritröðinni. Íslenska útgáfan er styttri (ritskoðaða) útgáfa bókarinnar.