Carl Christian Rafn

Carl Christian Rafn (16. janúar 179520. október 1864) var danskur fornfræðingur og útgefandi fræðirita. Hann átti stóran þátt í að draga athygli umheimsins að íslenskum fornbókmenntum og sögu Norðurlanda á fyrri tíð. M.a. kom hann rækilega á framfæri þeirri vitneskju að norrænir menn hefðu fundið Ameríku löngu á undan Kólumbusi.

Carl Christian Rafn.

C. C. Rafn var meðal stofnenda Fornfræðafélagsins, átti sæti í Árnanefnd (Den Arnamagnæanske Kommission) og Fornminjanefndinni (Oldsagskommissionen).

Æviágrip breyta

Carl Christian Rafn fæddist 1795 á Brahesborg á Fjóni. Faðir hans, Christian Rafn, rak mjólkurbú; móðir hans hét Christiane, fædd Kiølbye. Hann brautskráðist frá dómkirkjuskólanum í Óðinsvéum 1814 og hóf nám í Kaupmannahafnarháskóla. Þar komu skarpar námsgáfur hans í ljós, og eftir aðeins 1½ árs nám lauk hann embættisprófi í lögfræði með góðri einkunn, og einnig prófi sem liðsforingi (1816). Eftir að hafa gegnt herþjónustu á Fjóni varð hann, 1820, kennari í latínu og málfræði við landherskóla í Kaupmannahöfn.

Þessar greinar voru þó ekki aðal áhugamál Rafns. Strax á skólaárunum hafði hann lagt stund á íslensku, líkt og „sveitungi“ hans Rasmus Kristján Rask. Árið 1818 stofnaði Rafn stiftsbókasafn í Reykjavík (nú Landsbókasafn Íslands); árið 1827 átti hann þátt í að stofna svipað safn í Þórshöfn í Færeyjum (Føroya landsbókasavn), og 1829 annað í Nuuk á Grænlandi (Nunatta Atuagaateqarfia); loks stofnaði hann herbókasafn og lestrarfélag í Óðinsvéum.

Á árunum 1821–1823 var Rafn aðstoðarmaður við Árnasafn og varð þar handgenginn íslenskum handritum. Hóf hann þar útgáfu á Fornaldar sögum (Nordiske Kæmpehistorier (eller mythiske og romantiske Sagaer), efter islandske Haandskrifter fordanskede, 3 bindi, 1821-1826), en vildi um leið virkja fleiri menn við slíka útgáfu. Í því skyni tók hann höndum saman við nokkra unga Íslendinga um að stofna félag til að gefa út og kynna íslensk fornrit. Fyrsta verkefni félagsins var að gefa út Fornmanna sögur, og var árið 1824 til kynningar dreift sýnishorni eða bráðabirgðaútgáfu af Jómsvíkinga sögu á frummálinu, íslensku. Tókst að afla fjölda áskrifenda, m.a. um 1000 á Íslandi. Einnig þýddi Rafn söguna á dönsku og gaf hana út 1824. Hið konunglega norræna fornfræðafélag var svo stofnað á afmælisdegi konungs, 28. janúar 1825, með það að markmiði að gefa út og rannsaka íslensk fornrit, og varpa ljósi á tungumál, minjar og sögu Norðurlanda að fornu, og efla þannig áhuga á fortíð föðurlandsins. Fyrsti formaður félagsins var Rasmus Rask. Hinn 9. maí 1828 fékk félagið nafnbótina „konunglegt“, og um leið varð Josef Abrahamson formaður félagsins, en hann hafði náin tengsl við konunginn, Friðrik 6. Frá 1829 fékk félagið árlegt 600 kr. framlag frá danska ríkinu.

Rafn var frá upphafi ritari félagsins, og lagði brátt svo mikla vinnu í það starf að hann hætti kennslu 1826; um leið varð hann prófessor að nafnbót. Mikil starfsorka hans og næmt auga fyrir fjármálum og rekstri fengu hér tækifæri til að blómstra, einkum þar sem félagsmönnum fjölgaði hratt og fjárframlög jukust að sama skapi. Félagið náði að teygja anga sína um allan heim, sem engin dæmi voru um áður. Rafn sá um umfangsmiklar bréfaskriftir, ávaxtaði fjármuni félagsins, þýddi og gaf út rit, ritstýrði tímaritum félagsins og kom stöðugt á nýjum samböndum og fjárhagslegum bakhjörlum. Með framlögum einstaklinga og félaga var stofnaður fastur sjóður til að gefa út íslensk handrit og efla rannsóknir á fornöld Norðurlanda. Árið 1846 var sjóðurinn orðinn 92.000 kr. og þegar Rafn féll frá, 170.000 kr., sem var mikið fé.

Rafn átti verulegan þátt í umfangsmiklu útgáfustarfi Fornfræðafélagsins. Hann tók þátt í útgáfunni á Fornmanna sögum (12 bindi, 1825-1837) og þýddi a.m.k. fyrstu þrjú bindin á dönsku. Hann gaf út Fornaldarsögur Norðurlanda, 1-3 (1829-1830) og þýddi þær á dönsku: Nordiske Fortidssagaer, 1-3 (1829-1830). Það vakti mikla athygli erlendis, einkum í Ameríku, þegar hið mikla og glæsilega verk, Antiqvitates Americanæ, kom út 1837. Þar var safnað saman öllum fornum heimildum um ferðir norrænna manna til Ameríku, og þeim fylgt úr hlaði með ítarlegum ritgerðum, skýringum og fallegum ritsýnum úr handritunum. Samsvarandi verk, sem einnig vakti mikla athygli, var Antiquités Russes, d'aprés les monuments historiques des Islandais et des anciens Scandinaves (2 bindi, 1850-1858). Þá tók Rafn einhvern þátt í útgáfunni á hinu gagnlega ritsafni, Grønlands historiske Mindesmærker (3 bindi, 1838-1845), þó að Finnur Magnússon hafi átt þar mestan þátt. Einnig má nefna Oldtidsminder fra Østen; Antiquités de l'Orient (1856). Almennt er viðurkennt að þessi verk áttu mikinn þátt í að beina athygli umheimsins að sögu og bókmenntum Norðurlanda að fornu.

Árið 1830 var Rafn skipaður í Fornminjanefndina (Den kongelige Kommission for Oldsagers Opbevaring), og sá þar öran vöxt forngripasafnsins, undir stjórn Christian Jürgensen Thomsen. Nefndin hafði gefið út Antiqvariske Annaler, en þeirri útgáfu lauk 1827. Nú vantaði vettvang eða málgagn fyrir fornleifarannsóknir í Danaveldi. Rafn beitti sér þá fyrir því að Fornfræðafélagið víkkaði út verksvið sitt og sinnti einnig rannsóknum á dönskum forngripum og söguminjum. Félagið hóf þá útgáfu á nýju tímariti, Nordisk Tidsskrift for Oldkyndighed (1832-1836), og í framhaldi af því Annaler for nordisk Oldkyndighed og Historie (1836-1863) og Antiquarisk Tidsskrift (1843-1863). Til kynningar erlendis voru mikilvægustu greinarnar þýddar og birtar í Mémoires de la Société des Antiquaires du Nord (1836-1860).

Rafn stofnaði sögulegt og fornleifafræðilegt bóka- og skjalasafn við Oldnordisk Museum. Einnig ameríska deild með forngripum og þjóðfræðilegu efni. Með starfi sínu náði Rafn að koma á nánu samstarfi vísindamanna víðs vegar að úr heiminum, sem varð einnig til þess að erlend fræðirit (og þekking) urðu aðgengileg dönskum fræðimönnum og bókasöfnum. Með ferðum til útlanda og óþreytandi bréfaskriftum náði hann persónulegu sambandi við marga erlenda vísinda- og safnamenn.

Árið 1830 var Rafn skipaður í Árnanefnd (Kommissionen for den Arnamagnæanske Stiftelse), 1836 varð hann félagi í Det kongelige danske Selskab for Fædrelandets Historie, 1861 kaus Fornfræðafélagið hann ritara til lífstíðar; 1859 varð hann konferensráð. Erlendis hlaut hann margvíslegan sóma, hann varð heiðursdoktor í sagnfræði og lögfræði, og félagi í fjölda erlendra vísindafélaga og stofnana.

Rafn andaðist 20. október 1864, 69 ára gamall. Hann giftist, 1826, Johanne Catharine Kiølbye, dóttur Christians Kiølbye tollvarðar; hún dó 17. maí 1878. Fornfræðafélagið lét setja minningarstein úr graníti á leiði hans í Assistents kirkjugarði í Kaupmannahöfn. Steinninn var í fornum stíl með rúnaáletrun.

Prentuð rit breyta

Þess ber að geta að þó að Rafn sé hér skrifaður fyrir eftirtöldum ritum, þá voru sum þeirra að miklum hluta unnin af öðrum, einkum Íslendingum. Það á t.d. við um Fornmanna sögurnar. Einnig mun Sveinbjörn Egilsson hafa átt talsverðan þátt í Antiqvitates Americanæ, t.d. við þýðingar á latínu. Meðal verka sem Rafn á hlut í eru:

  • 1821-1826 – Nordiske Kæmpehistorier (eller mythiske og romantiske Sagaer), efter islandske Haandskrifter fordanskede (3 bindi)
  • 1824 – Jomsvikingesaga. Dönsk þýðing.
  • 1825-1837 – Fornmanna sögur (12 bindi)
  • 1826 – Krákumál
  • 1826-1827 – Kong Olaf Tryggvesøns Saga (3 bindi). Fyrstu þrjú bindin af Oldnordiske sagaer. Dönsk þýðing.
  • 1829-1830 – Fornaldarsögur Norðrlanda (3 bindi)
  • 1829-1830 – Nordiske Fortidssagaer (3 bindi). Dönsk þýðing á Fornaldarsögum Norðurlanda.
  • 1832 – Færeyínga saga eller Færøboernes Historie i den islandske Grundtext med færøisk og dansk Oversættelse
  • 1837 – Antiqvitates Americanæ
  • 1838-1854 – Grønlands historiske Mindesmærker (3 bindi). Að mestu verk Finns Magnússonar.
  • 1850-1858 – Antiquités Russes (2 bindi)
  • 1852 – Saga Játvarðar konúngs hins Helga (í samvinnu við Jón Sigurðsson)
  • 1854 – Remarks on a Danish runic stone from the eleventh century, found in the central part of London
  • 1856 – Oldtidsminder fra Østen; Antiquités de l'Orient

Tímarit (ritstjórn) breyta

  • 1826-1829 – Tidsskrift for nordisk Oldkyndighed (2 bindi)
  • 1832-1836 – Nordisk Tidsskrift for Oldkyndighed (3 bindi)
  • 1836-1863 – Annaler for nordisk Oldkyndighed (og Historie) (23 bindi)
  • 1836-1860 – Mémoires de la Société des Antiquaires du Nord (4 bindi)
  • 1843-1863 – Antikvarisk Tidsskrift (7 bindi)

Sjá einnig: Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie

Heimildir breyta

  • Danska Wikipedian, 28. desember 2007
  • Benedikt Gröndal: Breve fra og til Carl Christian Rafn, 1869
  • Ole Widding: „Carl Christian Rafn, 1795–1864“. Í: Bibliography of Old Norse-Icelandic Studies, 1964
  • Finnbogi Gudmundson: Sveinbjörn Egilsson og Carl Christian Rafn. Odense Universitetes forlag, 1969
  • J. J. A. Worsaae: „Carl Christian Rafn og C. J. Thomsen“. Í: Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie, 1866

Tenglar breyta