Kennaraháskóli Íslands

(Endurbeint frá Kennaraháskólinn)

Kennaraháskóli Íslands var háskóli fyrir kennaramenntun á Íslandi. Hann sameinaðist Háskóla Íslands 1. júlí 2008 og varð eitt fimm sviða þar, Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Kennaraháskólinn menntaði fyrst og fremst stéttir sem starfa við kennslu, umönnunarstörf og rannsóknir á sviði menntunar- og uppeldisfræða. Nemendur skólans voru um 2300 á B.A., B.Ed. og B.S. sviði en einnig var hægt að stunda við skólann diplómunám og framhaldsnám til M.A. og doktorsprófs. Kennaraháskólinn starfaði í 100 ár.

Kennaraháskóli Íslands
Merki skólans
Stofnaður: 1907
Gerð: Ríkisháskóli
Rektor: Ólafur Proppé
Nemendafjöldi: 2.300
Staðsetning: Reykjavík, Ísland
Vefsíða

Fjarnám og upplýsingatækni

breyta

Kennaraháskólinn lagði áherslu á fjarnám og nám sem notar ýmsa tæknimiðla. Rúmlega helmingur nemenda skólans stundaði fjarnám þegar skólinn var sameinaður HÍ árið 2008.

Kennaraskóli Íslands var stofnaður með lögum árið 1907 en kennslan hófst haustið 1908 í nýreistu húsi að Laufásvegi 81. Það hús er kallað Gamli kennaraskólinn og er nú friðað. Kennaramenntun á Íslandi hófst í Flensborgarskóla í Hafnarfirði árið 1892, fyrst sem stutt námskeið og síðar sem viðbótarbekkur við gagnfræðaskóla. Kennaraskólinn var í fyrstu þriggja ára skóli en var lengdur í fjögur ár árið 1943. Við skólann var starfrækt æfingadeild fyrir æfingakennslu kennaranema. Frá árinu 1947 voru inntökuskilyrði í kennaranám landspróf og gagnfræðapróf en fram að þeim tíma var algengt að nemendur kæmu í skólann eftir eitt eða tvö ár í héraðsskóla, gagnfræðaskóla eða öðrum framhaldsskólum. Auk þess mátti ljúka kennaranámi á einu ári eftir stúdentspróf og var það gert í sérstakri stúdentsdeild.

Eftir 1990 var aukin áhersla lögð á framhaldsnám og útskrifuðust fyrstu nemendurnir með M.Ed. gráðu árið 1996.

Nýjar námsbrautir bættust við þegar Kennaraháskólinn, Fósturskólinn, Íþróttakennaraskólinn og Þroskaþjálfaskólinn voru sameinaðir í ársbyrjun 1998. Árið 2008 sameinaðist Kennaraháskólinn Háskóla Íslands og fer kennaramenntun nú fram innan menntavísindasviðs HÍ.

Húsakynni

breyta

Fyrsti áfangi nýbyggingar Kennaraháskólans við Stakkahlíð í Reykjavík var tekinn í notkun árið 1962. Húsnæðið hýsir nú menntavísindasvið Háskóla Íslands. Á lóð skólans var reistur barnaskóli sem tók við hlutverki æfingadeildarinnar. Hann hét upphaflega Æfinga- og tilraunaskóli Kennaraháskóla Íslands en heitir nú Háteigsskóli og er einn af grunnskólum Reykjavíkur án sérstakra tengsla við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Nýbyggingin Hamar var reist á lóð skólans í Stakkahlíð og tekin í notkun árið 2002. Kennsla í list- og verkgreinum fer fram í Listgreinahúsi skólans í Skipholti 37. Skrifstofur margra kennara og stofnana innan skólans eru í Skipholti og Bolholti. Stefnt er að því að Menntavísindasvið flytji úr Stakkahlíð og verði staðsett á háskólasvæðinu vestur í bæ.

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta
  • Lög um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands
  • Vefsetur Kennaraháskóla Íslands Geymt 12 apríl 2006 í Wayback Machine
  • „Saga Kennaraháskóla Íslands, höf. Helgi Skúli Kjartansson“. Sótt 23. mars 2006.


Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta