Keflavík
Keflavík er um 19.000 manna bær (2019) austan megin á Miðnesi á Reykjanesskaga og heyrir undir sveitarfélagið Reykjanesbæ. Keflavík er helst þekkt fyrir herstöðina á Miðnesheiði, eina alþjóðaflugvöllinn á Íslandi, Keflavíkurflugvöll og blómlegt tónlistarlíf á seinni hluta 20. aldar.
Bærinn dregur nafn sitt af samnefndri vík, sem liggur á milli Hólmsbergs að norðan og Vatnsness að sunnan og gengur til vesturs inn úr Stakksfirði. Víkin er opin á móti austri og þótti aldrei gott skipalægi. Hún var samt grundvöllur þeirrar verslunar sem þar þróaðist frá 17. öld og varð grundvöllur bæjarins.
Saga
breytaSamkvæmt Landnámu var Steinunn gamla, landnámskona, fyrsti eigandi lands á Suðurnesjum, þar með talið Keflavík. Keflavíkur er fyrst getið í rituðum heimildum um 1270.[1] Keflavíkurjörðin heyrði undir Rosmhvalaneshrepp frá fornu fari. Fram eftir 15. öld stunduðu Englendingar veiðar í kringum Suðurnes og hafa sjálfsagt komið á land í Keflavík. Árið 1579 gaf Danakonungur út fyrsta verslunarleyfið til Hansakaupmanna að þeir mættu versla í Keflavík. Frá og með 1602 hefst einokunarverslun Dana.
Elstu heimildir um byggð í Keflavík eru frá 1627. Fyrsti bóndinn sem nafngreindur er í Keflavík var Grímur Bergsson, fyrrverandi sýslumaður í Kjósarsýslu og lögréttumaður á Suðurnesjum sem samkvæmt Setbergsannál dó við störf sín árið 1649.[2] Þar settist Hallgrímur Pétursson að árið 1637 ásamt konu sinni Guðríði Símonardóttur þar sem þau bjuggu til ársins 1641 þegar þau fluttu á Hvalnes. Miðað er við að byggð hafi fyrst farið að þéttast í kjölfar þess að Holger Jacobaeus var skipaður kaupmaður í Keflavík árið 1766 á vegum Almennna verslunarfélagsins sem fór með einokun á verslun á Íslandi.
Með vexti kauptúnsins á seinni hluta 19. aldar reyndist landrými of lítið fyrir byggðina. 1891 var löggilt stækkun á verslunarlóðinni til suðurs, í landi Njarðvíkurhrepps, sem stofnaður hafði verið tveimur árum áður. Keflavík var þannig í tveimur hreppum samtímis og hélst svo til ársins 1908.
Hinn 15. júní 1908 var Rosmhvalaneshreppi skipt upp. Varð nyrðri hlutinn að Gerðahreppi en Keflavíkurjörðin í suðri var sameinuð Njarðvíkurhreppi undir heitinu Keflavíkurhreppur. Njarðvíkurhreppur klauf sig aftur frá hreppnum 1. janúar 1942. Í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar fjölgaði hratt í Keflavík enda var mikið um uppgrip og vinnu að fá í kring um Keflavíkurstöðina og Keflavíkurflugvöll.
Keflavík fékk kaupstaðarréttindi 22. mars 1949. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Keflavík Njarðvíkurkaupstað og Hafnahreppi undir nafninu Reykjanesbær.
Tilvísanir
breyta- ↑ Fast þeir sóttu sjóinn Tíminn, 1. apríl 1989
- ↑ „Drög að sögu Keflavíkur“.
Tenglar
breyta- Keflavík á fyrri öldum, Skúli Magnússon
- Drög að sögu Keflavíkur, Skúli Magnússon (framhald í nokkrum tölublöðum)
- Tvær aldir í Keflavík, grein eftir Dr. Fríðu Sigurðsson í Tímanum 1972
- „Hvaðan fær Keflavík nafn sitt?“. Vísindavefurinn.
- Fyrstu ár Keflavíkur, Faxi, 5. tölublað (01.05.1947), Blaðsíða 1
- Áhrif og umsvif í Keflavík : Úr sögu Duus-veldisins Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine, bls 5 Faxi, 2. tbl. 2007