Reykjanesbær

sveitarfélag á Suðurnesjum, Íslandi

Reykjanesbær er sveitarfélag á utanverðum Reykjanesskaga, hið fjórða fjölmennasta á Íslandi, með rúmlega 22 þúsund íbúa (2023). Sveitarfélagið var stofnað 11. júní 1994 við sameiningu þriggja sveitarfélaga: Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna. Árið 2006 bættist hverfið Ásbrú við þegar Bandaríkjaher afhenti íslenskum stjórnvöldum Keflavíkurstöðina til afnota. Mörk Reykjanesbæjar liggja frá miðju Reykjanesi um Stapafell að miðjum Vogastapa að austanverðu og frá Ósum norðan Hafna að Hólmsbergi, norðan Helguvíkur, að norðanverðu. Reykjanesviti og Eldey eru innan marka sveitarfélagsins og eru helstu kennileiti þess. Súlan sem verpir í Eldey er í merki sveitarfélagsins. Ásamt fleiri byggðarlögum á Reykjanesskaga telst Reykjanesbær vera hluti af Suðurnesjum.

Reykjanesbær
Reykjanesbær úr lofti
Reykjanesbær úr lofti
Skjaldarmerki Reykjanesbæjar
Staðsetning Reykjanesbæjar
Staðsetning Reykjanesbæjar
Hnit: 64°0′4″N 22°33′7″V / 64.00111°N 22.55194°V / 64.00111; -22.55194
LandÍsland
KjördæmiSuðurkjördæmi
Þéttbýliskjarnar
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriKjartan Már Kjartansson
Flatarmál
 • Samtals145 km2
 • Sæti53. sæti
Mannfjöldi
 (2024)
 • Samtals21.957
 • Sæti4. sæti
 • Þéttleiki151,43/km2
Póstnúmer
230, 232, 233, 235, 260
Sveitarfélagsnúmer2000
Vefsíðareykjanesbaer.is

Í Reykjanesbæ eru sjö grunnskólar: Stapaskóli og Akurskóli í Innri-Njarðvík; Njarðvíkurskóli í Ytri-Njarðvík; Háaleitisskóli á Ásbrú (áður McMahon Elementary School); Myllubakkaskóli (áður Barnaskólinn í Keflavík), Holtaskóli (áður Gagnfræðaskólinn í Keflavík) og Heiðarskóli í Keflavík. Fjölbrautaskóli Suðurnesja er í Keflavík og Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs er með nám á bæði háskóla- og framhaldsskólastigi á Ásbrú.

Íþróttabandalag Reykjanesbæjar er héraðssamband íþróttafélaga í sveitarfélaginu. Bæirnir á Suðurnesjum voru lengi þekktir fyrir góð körfuboltalið og mikla samkeppni sín á milli. Í Reykjanesbæ eru bæði Ungmennafélag Njarðvíkur og Íþrótta- og ungmennafélag Keflavíkur þar sem körfuknattleikur er stundaður, ásamt öðrum íþróttagreinum. Sunddeild ÍRB keppir undir merkjum sambandsins og er ein stærsta sunddeild landsins. Stærsta sundlaugin í Reykjanesbæ er Vatnaveröld, þar sem er meðal annars 50 metra innilaug.

Byggðasafn Reykjanesbæjar var stofnað 1944. Það er nú með sýningarrými í Duus Safnahúsum í Grófinni í Keflavík, ásamt Listasafni Reykjanesbæjar og Bátasafni Gríms Karlssonar. Í Reykjanesbæ eru líka Víkingaheimar þar sem hægt er að skoða víkingaskipið Íslending, og Hljómahöllin, safn um íslenska dægurtónlist í Stapanum sem var byggður sem félagsheimili Ytri-Njarðvíkur.

Nokkrar kirkjur eru í Reykjanesbæ. Í Keflavík er Keflavíkurkirkja, svo eru Ytri-Njarðvíkurkirkja og Innri-Njarðvíkurkirkja í Njarðvík, og Kirkjuvogskirkja í Höfnum. Auk þeirra eru Hvítasunnukirkjan í Keflavík, First Baptist Church í Njarðvík og Kirkja heilags Jóhannesar Páls II á Ásbrú.

Reykjaneshöfn er hlutafélag sem sér um rekstur Keflavíkurhafnar, Njarðvíkurhafnar, Hafnahafnar, hafnarinnar í Helguvík og smábátahafnarinnar í Grófinni í Keflavík. Í Njarðvíkurhöfn er stór yfirbyggður slippur. Siglingafélagið Knörr hefur aðsetur í Grófinni. Á Ljósanótt, sem er bæjarhátíð Reykjanesbæjar, er kveikt á ljósum í Berginu (Keflavíkurbergi) norðan við Grófina.

Fá sveitarfélög á Íslandi hafa vaxið jafn hratt og Reykjanesbær. Þegar sveitarfélagið var stofnað voru íbúar rúmlega 10 þúsund.[1] 10 árum síðar var íbúafjöldinn rétt tæp 11 þúsund, en árið 2014 voru íbúar 14 þúsund og yfir 22 þúsund árið 2023.[2] Íbúafjöldi Reykjanesbæjar hefur því ríflega tvöfaldast á þeim 30 árum sem liðin eru frá sameiningu. Vöxtur sveitarfélagsins hefur haldist í hendur við aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli sem hefur lengi verið stærsti vinnustaðurinn á Suðurnesjum.

Vinabæir

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Mannfjöldi eftir sveitarfélögum 1. desember 1990-2004 - Endanlegar“. Hagstofa Íslands. Sótt 3.7.2023.
  2. „Mannfjöldi eftir kyni, aldri og sveitarfélögum 1998-2023 - Sveitarfélagaskipan hvers árs“. Hagstofa Íslands. Sótt 3.7.2023.
  3. „Vinabæir“. Reykjanesbær.is. Sótt 9/2 2023.

Tenglar

breyta