Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið þetta nafn.

Jón Stefán Sveinsson (16. nóvember 1857 - 16. október 1944) var íslenskur rithöfundur. Hann er þekktur fyrir barnabækur sínar um Nonna og Manna sem fjalla um ævintýri hans (Nonna) og bróður hans (Manna).

Jón Sveinsson

Æviágrip

breyta

Nonni fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 16. nóvember 1857. Foreldrar hans voru Sigríður Jónsdóttir (1826-1910) frá Reykjahlíð við Mývatn og Sveinn Þórarinsson (1821-1869), skrifari hjá Pétri amtmanni Hafstein. Sigríður og Sveinn eignuðust átta börn en þrjú þeirra létust haustið 1860 af völdum barnaveiki. Þau börn sem upp komust voru Björg (Bogga) (1854-1882), Jón (Nonni) (1857-1944), Sigríður Guðlaug (1858-1916), Friðrik (1864-1943) og Ármann (Manni) (1861-1885). Fyrir hjónaband hafði Sigríður eignast dóttur sem hét Kristín (1852-1949).

Árið 1865 fluttist Nonni með fjölskyldu sinni til Akureyrar þar sem fjölskyldan settist að í svokölluðu Pálshúsi. Sveinn lést 1869 úr sullaveiki. Stóð þá ekkjan ein uppi með börn sín því búið var tekið til gjaldþrotaskipta eftir lát Sveins. Fór svo að hún varð að láta öll börnin sín frá sér nema Ármann (Manna). Sigríður flutti síðar til Kanada og giftist þar aftur.

Árið 1870 bauðst franskur aðalsmaður til að kosta tvo íslenska drengi til náms. Annar þessara drengja var Nonni. Í lok ágústmánaðar 1870 hélt Nonni af landi brott. Vegna styrjaldar sem þá geisaði í Evrópu komst hann ekki strax til Frakklands heldur dvaldi hann í eitt ár í Danmörku og þar tók hann kaþólska trú. Kominn til Frakklands settist Nonni í latínuskólann í Amiens. Nokkrum árum síðar kom Manni bróðir hans einnig til Frakklands og nam við sama skóla. Manni lést árið 1885, aðeins 23 ára, úr berklum. Hann var þá við nám í Belgíu.

Nonni lauk námi við latínuskólann 1878 og gekk þá í jesúítaregluna. Hann var við háskólanám í Frakklandi, Belgíu og Hollandi. Þær greinar sem hann lagði stund á voru bókmenntir, heimspeki og guðfræði. Eftir nám gerðist Nonni kennari við kaþólskan menntaskóla í Ordrup í Danmörku. Árin 1888-1892 dvaldi hann í Englandi við guðfræðinám og þar tók hann prestvígslu. Eftir Englandsárin sneri Nonni aftur til Danmerkur og kenndi þar við sama skóla og áður.

Árið 1912 hætti Nonni kennslu og fluttist frá Danmörku. Næstu árin bjó hann meðal annars í Þýskalandi, Austurríki og Hollandi og helgaði líf sitt uppfrá þessu ritstörfum.

Nonni ferðaðist víða og hélt fyrirlestra. Oftast fjallaði hann um Ísland og þá sérstaklega Eyjafjörðinn. Árið 1936 hélt Nonni í heimsreisu og dvaldi meðal annars í Japan í eitt og hálft ár. Árið 1939 settist hann að í Valkenburg í Hollandi en vegna stríðsátaka hraktist hann til Þýskalands 1942.

Nonni lést 16. október 1944 í loftvarnarbyrgi undir St. Franziskus-spítalanum í Köln. Hann var grafinn í Melatenkirkjugarðinum í Köln.

 
Legsteinn Jóns Sveinssonar.

Nonni kom aðeins tvisvar sinnum til Íslands eftir brottförina 1870. Fyrra skiptið var 1894 en seinna skiptið var 1930 þegar ríkisstjórn Íslands bauð honum að koma á Alþingishátíðina. Í þeirri ferð var hann gerður að heiðursborgara Akureyrar.

Á aldarafmæli Nonna þann 16. nóvember 1957 opnaði Zontaklúbbur Akureyrar safn til minningar um hann. Safnið er til húsa í gamla Pálshúsinu þar sem Nonni bjó hluta úr æsku sinni og nefnist húsið nú Nonnahús.

Ritverk

breyta

Fyrstu ritverk Jóns Sveinssonar voru greinar sem hann skrifaði á dönsku í kaþólska tímaritið Varden.

Nonnabækurnar

breyta

Fyrsta Nonnabókin, Nonni, kom út 1913 en alls urðu Nonnabækurnar 12 talsins.[1] Nonnabækurnar fjalla um hin ýmsu ævintýri sem Jón sjálfur lenti í með bróður sínum Ármanni (Manna).

Bækur sínar skrifaði Nonni á þýsku. Þær hafa verið þýddar á 30-40 tungumál og gefnar út í milljónum eintaka. Þar að auki skrifaði hann að minnsta kosti eina landkynningarbók um Ísland á þýsku. Bækurnar komu út í íslenskri þýðingu Freysteins Gunnarssonar á 3. áratug 20. aldar.

  • Et Ridt gennem Island : Oplevelser - 1908 (Yfir holt og hæðir : ferðaminningar frá Íslandi sumarið 1894 - ísl. útg. 1954)
  • Nonni : Erlebnisse eines jungen Isländers von ihm selbst erzählt - 1913 (Nonni : brot úr æskusögu Íslendings : eigin frásögn - ísl. útg. 1922)
  • Nonni und Manni : zwei isländische Knaben - 1914 (Nonni og Manni - ísl. útg. 1925)
  • Sonnentage : Nonni’s Jugenderlebnisse auf Island - 1919 (Sólskinsdagar - ísl. útg. 1924)
  • Die Stadt am Meer : Nonni’s neue Erlebnisse - 1922 (Borgin við sundið : framhald af Nonna : ný æfintýri - ísl. útg. 1923)
  • Abenteuer auf den Inseln : Nonnis Erlebnisse auf Seeland und Fünen - 1927 (Ævintýri úr eyjum : Nonni ferðast um Sjáland og Fjón - ísl. útg. 1927)
  • Auf Skipalón : neue Islandgeschichten Nonnis - 1928 (Á Skipalóni - ísl. útg. 1928)
  • Die Feuerinsel im Nordmeer : Nonnis Fahrt zum Althing - 1933 (Eldeyjan í Norðurhöfum : ferð Nonna til Alþingis - ísl. útg. 1958)
  • Wie Nonni das Glück fand - 1934 (Hvernig Nonni varð hamingjusamur - ísl. útg. 1955)
  • Nonni erzählt : Erlebnisse und Geschichten vom Frohen Öresund - 1936 (Nonni segir frá : atburðir og frásagnir frá Eyrarsundi - ísl. útg. 1952)
  • Nonnis Reise um die Welt - 1948 (Ferð Nonna umhverfis jörðina - ísl. útg. 1955)

Tímaröð

breyta

Gefið var út ritsafn af Freysteini Gunnarssyni og því raðað "eftir réttri tímaröð, eftir því, sem næst verður komizt" þ.e. tímaröð æviskeiðs Nonna[2]:

  • 1. bindi: Á Skipalóni
  • 2. bindi: Nonni og Manni
  • 3. bindi: Sólskinsdagar
  • 4. bindi: Nonni
  • 5. bindi: Borgin við sundið
  • 6. bindi: Ævintýri úr eyjum
  • 7. bindi: Hvernig Nonni varð hamingjusamur
  • 8. bindi: Nonni segir frá
  • 9. bindi: Yfir holt og hæðir
  • 10. bindi: Eldeyjan í Norðurhöfum
  • 11. bindi: Ferð Nonna umhverfis jörðina, fyrri hl., Nonni í Ameríku
  • 12. bindi: Ferð Nonna umhverfis jörðina, síðari hl., Nonni í Japan

Heimildir

breyta
  • Jón Hjaltason (1993). Nonni og Nonnahús. Bókaútgáfan Hólar. ISBN 9979-9078-0-0.
  1. „Af hverju urðu Nonna- og Mannabækurnar svona vinsælar?“. Vísindavefurinn. Sótt 27. desember 2020.
  2. Jón Sveinsson (1948-1976). Ritsafn. Freysteinn Gunnarsson.