Rússlandsherför Napóleons
Rússlandsherför Napóleons var innrás í Rússland sem Napóleon Bónaparte Frakkakeisari hélt í árið 1812. Aðalástæða hennar var sú að Rússland hafði dregið sig úr meginlandskerfi Napóleons; viðskiptabanni gegn Bretlandi sem átti að knésetja þennan helsta keppinaut franska keisaraveldisins.
Rússlandsherför Napóleons | |||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|
Hluti af Napóleonsstyrjöldunum | |||||||
Napóleon og hermenn hans hörfa frá Moskvu í gegnum rússneskan vetur á málverki eftir Adolph Northen. | |||||||
| |||||||
Stríðsaðilar | |||||||
Bandamenn: Austurríki Prússland Danmörk-Noregur | Rússland | ||||||
Leiðtogar | |||||||
|
| ||||||
Fjöldi hermanna | |||||||
Franski keisaraherinn:
|
Rússneski keisaraherinn:
| ||||||
Mannfall og tjón | |||||||
470.000–530.000 |
410.000
| ||||||
1.000.000 hermenn og óbreyttir borgarar látnir |
Í upphafi innrásarinnar stóðu Frakkar betur að vígi en Rússar og bjuggu yfir mun fjölmennari herafla. Frakkar hertóku Moskvu þann 7. september 1812 en eftir það snerist gæfan Rússum í vil. Frakkar neyddust til að hörfa frá gagnáhlaupi Rússa þar sem Rússar eyddu eigin mat og birgðum frekar en að leyfa Frökkum að komast yfir þær og því gat Napóleon ekki haldið uppi her sínum með rússneskum afurðum líkt og hann hafði ætlað sér. Frekar en að takast á við her Napóleons á hans forsendum beittu Rússar skæruhernaði gegn Frakkaher á meðan hann neyddist til að hörfa. Síðan leiddu sjúkdómar, kaldur vetur auk hörku rússneskra hermanna og borgara til þess að Napóleon beið ósigur. Þessi afgerandi ósigur Napóleons markaði þáttaskil í Napóleonsstyrjöldunum og dró svo úr hernaðaryfirburðum Frakka að Napóleon neyddist til að segja af sér árið 1814.
Napóleonsstyrjaldirnar settu mark sitt á rússneska menningu. Lev Tolstoj skrifaði um Rússlandsherförina í skáldsögu sinni, Stríð og friði. Pjotr Íljítsj Tsjajkovskíj var einnig fyrir innblæstri frá henni þegar hann samdi 1812-forleikinn. Í seinni heimsstyrjöldinni fór innrás Þjóðverja í Sovétríkin á svipaðan hátt.
Aðdragandi innrásarinnar
breytaAllt byrjaði þetta þegar Napóleon gaf út tilskipun um meginlandsbannið þann 21. nóvember 1806, en með því átti að loka öllum höfnum á meginlandinu fyrir verslun og siglingu frá Bretum. Frakkar vonuðust til að geta sigrað Breta með hafnbanni en Napóleon vissi þó fullvel að jafnvel með fullu hafnbanni á allri Evrópu þá gæti hann ekki svelt Breta, þeir bjuggu einfaldlega yfir of mikilli innanlandsframleiðslu. En var það ekki aðalatriðið, bannið snerist um breskan útflutning. Eftir iðnbyltinguna gat Bretland framleitt mikið af góðum og ódýrum vörum, auk þess sem þeir áttu sterkasta flota heims. Fyrir vikið höfðu þeir auðgast mikið á útflutning. Tekjurnar voru síðan notaðar til að fjármagna herinn og veita öðrum ríkjum fjárhagsaðstoð. Napóleon vonaðist til að geta komið höggi á Bretland með því að skera á útflutninginn og koma á kreppu í Englandi þannig að þeim tækist ekki að fjármagna herinn. Þetta gekk ekki eftir því Bretar fundu aðra markaði í stað þeirra sem þeir töpuðu, til dæmis í Suður-Ameríku. Þess fyrir utan stunduðu þeir gríðarmikla smyglverslun við Evrópu.
Rússland í bandalagi við Frakka
breytaAlexander fyrsti (1777-1825) var keisari Rússlands og hafði fram að þessu barist með Prússum gegn Frökkum. Árið 1807 hittust Alexander og Napóleon á pramma á ánni Niemen við borgina Königsberg og undrituðu friðarsamninga milli landanna þriggja. Napóleon fékk Alexander einnig til að taka þátt í meginlandsbanninu þó svo að það kæmi sér ekki vel fyrir Rússa. Rússar þörfnuðust mjög utanríkisverslunarinnar við Breta og bannið hafði fáa kosti í för með sér fyrir Rússland en þeir fengu þó ný landsvæði. Næstu árin á eftir efldist keisaraveldið gífurlega og Alexander skynjaði að verið væri að undirbúa samsæri gegn sér þar sem Frakkland var alls staðar umhverfis hann. Að auki veitti Napóleon honum enga liðveislu gegn Tyrkjum. Rússar urðu að sætta sig við að nágrannar þeirra, Pólverjar, væru á móti þeim en hlynntir Frökkum og að viðskiptabannið var mjög illa séð hjá efri stéttum Rússlands. Þann 31. desember 1810 sagði Alexander skilið við Frakka og kom aftur á viðskiptasambandi við Bretland. Napóleon reyndi að þvinga Rússland til að taka aftur þátt í meginlandabandalaginu gegn Bretlandi undir því yfirskini að hann væri að vernda Pólland fyrir rússneskri árás. Napóleon safnaði síðan saman einum stærsta her sem nokkurn tíma hefur sést, yfir 600.000 manns og ákvað að gera þá hættu sem honum stafaði af Rússlandi að engu. Þriðjungur af her Napóleons voru Frakkar, þriðjungur Þjóðverjar og 100,000 Pólverjar. Þann 14. júní 1812 gekk Napóleon yfir ánna Neman með her sinn og þar með var innrásin hafin.
Rússlandsherförin í framkvæmd
breytaSmolensk
breytaFrá miðju sumri 1811 og fram á vor 1812 voru herir Napóleons á stanslausri hreyfingu og stefndu allir að vesturbakka Niemen fljóts. Herir streymdu að frá öllum hornum heimsveldisins og lúðrablástur var tíð heyrn.
Vorið 1812 var Napóleon kominn til Dresden en um sama leyti voru herir hans að sameinast í 10 stórar herfylkingar. Herinn var svo gríðarlegur að hann náði frá Königsberg, upp meðfram Niemen fljóti, og til Varsjá.
Fyrsta, annað og þriðja herfylki samanstóðu af 150,000 manns og áttu að vinna saman á leið til Moskvu. Þeim fylgdi síðan lið um 78,000 manna sem áttu að starfa sem liðstyrkur ef riddaraliðinu tækist illa upp. Rétt norðan við Vistulu voru aðrar þrjár fylkingar sem áttu að starfa saman sem ein heild, þetta voru þær fimmta, sjöunda og áttunda. Við Königsberg var síðan tíunda fylkingin en henni stjórnaði Jacques MacDonald hershöfðingi. Þessi fylking spannaði aðeins 9000 manns en hafði samt sem áður eitt mikilvægasta hlutverkið því Jacques MacDonald átti að vernda vinstri væng hersins, ógna Pétursborg og halda eins mörgum rússneskum hermönnum og mögulegt var í vörn.
Hernaðaráælun Napóleons var mjög einföld, hann ætlaði sér að fara styðstu leiðina til Moskvu og þvinga fram orrustu við Rússa í leiðinni. Napóleon hafði rúmlega þrjá hermenn fyrir hvern rússneska hermann og mun fleiri fallbyssur og því leit þetta ekki út eins og léleg áætlun, þvert á móti hefði þessi hernaðaraðferð átt að enda stríðið við Rússa á 20 dögum með afgerandi sigri Napóleons. Alexander Rússlandskeisari hafði samt kost á að sækja hátt í 400.000 varaliða til að fylla í skörð þeirra sem féllu. Napóleon gerði aðeins ein mjög afdrifarík mistök, hann fól bróður sínum Jérôme Bonaparte vald yfir nærri helmingi hersins. Jérôme hafði verið konungurinn í Vestfalíu en eins og hinir bræður Napóleons þá hafði hann reynst óhæfur til starfsins. Jérôme átti að fara með hluta hersins í suður og mæta þar Pjotr Bagration, rússneskum hershöfðingja. Bagretion var hinsvegar að fara að hitta Barclay hershöfðingja við Smolensk, en Napóleon ætlaði að fara norður með herinn og mæta þar Barclay. Með þessu móti var hægt að sundra hernum áður en hann sameinaðist. Þessi áætlun gekk þó ekki eftir þar sem Jérôme var of lengi á leiðinni og missti af Bagretion og rússnesku herirnir náðu að sameinast við Smolensk.
Sviðin jörð
breytaSviðin jörð er nafnið sem gefið var hernaðaraðferðinni sem Rússar notuðu gegn Frökkum 1812 og svo aftur gegn Þjóðverjum 1940. Þessi aðferð lýsir sér í því að Rússarnir fá innrásarherinn til að elta sig inn í landið í stað þess að mæta þeim í bardaga. Eftir því sem Rússar færast dýpra inn í landið brenna þeir alltaf jörðina á eftir sér þannig að enginn matur eða skjól sé fyrir innrásarherinn. Eftir því sem líður á innrásina fara birgðir innrásarhersins að minnka auk þess sem það fer að kólna með haustinu, það verður til þess að hermenn innrásarhersins falla í hrönnum og Rússar standa þá betur að vígi.
Michail Barclay var hermálaráðherra Rússa þegar Frakkar réðust inn í landið og það var hann sem stjórnaði aðgerðinni „sviðin jörð“. Sumarið 1812 var mjög þurrt og vatn var af skornum skammti, staða franska hersins var brátt mjög erfið vegna matar- og vatnsskorts og áður en til orrustu kom hafði Napóleon misst um 150,000 menn. Þessi aðferð Barclays var eins og sést afar áhrifarík en hún var einnig mjög dýr, það að brenna kornakra og slátra kjötgripum kostaði mjög mikinn pening og Alexander, sem hafði aðeins fylgt ráðum Barclays, og aðrir herforingjar urðu brátt mjög þreyttir á endalausu undanhaldi og vildu mæta Napóleon í bardaga. Alexander rak því Barclay og réð í staðinn Míkhaíl Kútúzov en hann var líklega elsti hersforinginn í styrjöldinni, 67 ára gamall. Frakkar og Rússar mættust síðan í bardaga 16.-18. ágúst fyrir utan borgina Smolensk. Frakkar sigruðu eins og við var að búast en misstu samt milli 8-9000 manns en Rússar aðeins um 3000. Rússar hörfuðu hratt austur og brenndu Smolensk á eftir sér. Napóleon taldi þetta stórt skref í stríðinu þar sem hann hafði náð á sitt vald hinni heilögu borg Smolensk og rússneski herinn hafði hörfað í skjóli nætur austur til Moskvu, Napóleon ákvað að hvíla herinn um stund í Smolensk og bíða eftir vistum.
Borodino
breytaÞann 7. september mættust herirnir svo aftur við Borodino, rússneski herinn hafði undirbúið sig vel og komið sér upp varnarvirkjum. Á þessum tímapunkti átti Napóleon aðeins um 130.000 menn eftir en Alexander var með um 128.000 manns á vígvellinum og fullt af varaliðum sem hægt var að kalla inn. Eftir orustuna sem stóð í um 12 klukkustundir höfðu 73.600 manns fallið, þar af 28.000 frakkar og 45.600 Rússar. Þetta var súr sigur fyrir Napóleon þar sem Alexander gat strax bætt við nýliðum í herinn sinn en Napóleon var langt að heiman og gat ekkert aðhafst. Viku eftir orrustuna mætti Napóleon að hliðum Moskvu, Sankti Pétursborg var pólitísk höfuðborg Rússlands en Moskva var trúarmiðstöð landsins og var því meira högg fyrir Rússa að sjá hana tekna heldur en Sankti Pétursborg. Þegar herinn gekk inn í borgina sá hann sér til skelfingar að borgin var tóm og í ljósum logum. Í bræði sinni kveiktu margir franskir hermenn fleiri elda. Napóleon lýsti þessari sjón sem því hræðilegasta sem hann hafði séð.
Frakkar voru næstum heilan mánuð í Moskvu á meðan Napóleon reyndi að semja um frið við Alexander. Þegar ekkert heyrðist frá honum neyddist Napóleon til að fara lengra inn í Rússland með herinn til að þvinga fram úrslit í stríðinu. Brátt skall veturinn þó á og ákvað Napóleon því að hörfa aftur til Parísar.
Undanhaldið
breytaStemmingin í franska hernum var mjög góð þegar hann lagði af stað heim á leið enda höfðu allir hermennirnir fyllt bakpoka sína af gulli og gersemum og hlökkuðu til að selja þá þegar heim var komið. Veðrið var milt þegar franski herinn hélt af stað en það kólnaði fljótt, það fór að hvessa og snjóa. Það var fyrst núna sem Rússar byrjuðu að ráðast á Frakka, þeir vildu ekki stóra orrustu heldur beittu leifturárásum og hindruðu Frakkana í að komast yfir þau matvæli sem völ var á. Hermenn Napóleons urðu að slátra hestum sínum til að fá að borða og hirða fötin af dauðum félögum sínum til að halda á sér hita, menn féllu í hrönnum eða voru teknir til fanga af Rússum. Loks kom að Napóleon að ánni Berezina en Rússar höfðu brennt einu brúna yfir hana. Napóleon hafði ætlað sér að fara yfir á ísnum en honum til óhapps hafði hlýnað nokkuð og allur ísinn var bráðnaður. Þetta var fullkominn tímasetning fyrir Rússa til að gera árás. Verkfræðingar Napóleons unnu hörðum höndum að því að byggja brýr yfir fljótið á meðan hermennirnir voru í örvæntingu sinni að reyna að halda Rússum í skefjum. Á endanum komust Frakkar yfir en höfðu þó misst um 40.000 manns. Heimildum ber ekki saman um hversu margir franskir hermenn komust lifandi til baka frá Rússlandi en oftast er talað um milli 60 og 100.000 manns, af 600.000 manna her. Ósigur Napóleons sameinaði Rússland, Prússa og Svía gegn Frökkum og unnu þeir sigur á honum 19. október 1813 við Leipzig í Þýskalandi.
Samantekt
breytaÞað eru tveir hlutir sem Napóleon hugsaði ekki um áður en hann lagði í herförina: rússneska vegakerfið og veðrið. Rússland bjó yfir mjög slæmu vegakerfi sem gerði það að verkum að mjög erfitt var að koma matarvögnum áleiðis. Það varð til þess að hermennirnir urðu að lifa næstum alfarið af landinu en þar sem Rússar höfðu brennt það þurftu hermennirnir að fara langar leiðir eftir mat. Þetta leiddi til þess að það varð mjög slæmur agi á hernum. Veðrið var ekki betra, fyrst var of þurrt, svo var of blautt og svo var of kalt. Þessar sífellu veðrabreytingar báru með sér lungnabólgu og fleiri sjúkdóma, gerði þá fáu vegi sem voru ennþá erfiðari yfirferðar sem dró ennfrekar úr krafti hersins og seinkaði matarbyrgðum.
Heimildir
breyta- „Hrakför Napoleons mikla til Rússlands 1812“. Samvinnan. 1. apríl 1959. Sótt 1. febrúar 2019.
- „Napóleon í Rússlandi“. Vísir. 23. júní 1961. Sótt 1. febrúar 2019.
- „Þegar hinn mikli her keisarans varð hungri og kulda að bráð“. Morgunblaðið. 23. desember 1962. Sótt 1. febrúar 2019.
- Tilvísanir
- ↑ Fierro, Alfred; Palluel-Guillard, André; Tulard, Jean (1995), Histoire et Dictionnaire du Consulat et de l'Empire, París: Éditions Robert Laffont, bls. 159–61.
- ↑ Zamoyski, Adam (2005), 1812: Napoleon's Fatal March on Moscow, London: Harper Perennial, bls. 536.
- ↑ The Wordsworth Pocket Encyclopedia, bls. 17, Hertfordshire 1993.
- ↑ Bogdanovich, "History of Patriotic War 1812", Spt., 1859–1860, Appendix, bls. 492–503.