Hússein Jórdaníukonungur
Hússein (14. nóvember 1935 – 7. febrúar 1999) var konungur Jórdaníu frá 1952 til 1999. Hússein tilheyrði konungsætt Hasjemíta, sem hafa ríkt yfir Jórdaníu frá árinu 1921 og telja sig afkomendur Fatímu, dóttur Múhameðs spámanns.[1][2] Hann var þriðji konungur landsins og sá þeirra sem hefur ríkt lengst.
| ||||
Hússein bin Talal
الحسين بن طلال | ||||
Ríkisár | 11. ágúst 1952 – 7. febrúar 1999 | |||
Skírnarnafn | Hússein bin Talal bin Abdúlla bin Hússein | |||
Fæddur | 14. nóvember 1935 | |||
Amman, Transjórdaníu | ||||
Dáinn | 7. febrúar 1999 (63 ára) | |||
Amman, Jórdaníu | ||||
Gröf | Raghadan-höll | |||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Talal Jórdaníukonungur | |||
Móðir | Zein Al-Sharaf Talal | |||
Drottning | Dina bint Abdul-Hamid (g. 1955; sk. 1957) Antoinette Gardiner (g. 1961; sk. 1972) Alia Toukan (g. 1972; d. 1977) Lisa Halaby (g. 1978) | |||
Börn | 12 |
Æviágrip
breytaHússein fæddist árið 1935 í Amman og var sonarsonur Abdúlla 1. Jórdaníukonungs. Hann gekk í ensk-egypska skólann Victoria College í Alexandríu og síðar í herskólana Harrow og Sandhurst í Bretlandi.[3]
Faðir Hússeins var krónprinsinn Talal, sem varð konungur árið 1951 eftir að Abdúlla var myrtur. Talal var aðeins konungur í rúmt ár áður en hann var þvingaður til afsagnar vegna meintrar geðveiki. Hússein, sem var aðeins 17 ára,[4] var staddur í fríi í Sviss þegar honum barst bréf um að hann væri orðinn konungur Jórdaníu.[5]
Þann 21. október árið 1956 leyfði Hússein frjálsar þingkosningar sem leiddu til þess að jórdanskir vinstrimenn mynduðu fyrstu lýðræðislegu ríkisstjórn Jórdaníu undir forsæti Suleimans Nabulsi. Samstarf þeirra Hússeins var ekki gott þar sem Nabulsi vildi rækta nánara samband við stjórn Nassers í Egyptalandi og meðlimir ríkisstjórnar hans voru vændir um að vilja leysa upp Jórdaníu sem sjálfstætt ríki og gerast hluti að sameiginlegu arabísku ríki ásamt Egyptalandi og Sýrlandi.[6] Ágreiningur Hússeins og Nabulsi leiddi til þess að Hússein leysti hann frá störfum þann 10. apríl árið 1957 og lýsti stuttu síðar yfir herlögum í landinu eftir meinta valdaránstilraun vinstrimanna.[7]
Árið 1958 sameinuðust Egyptaland og Sýrland undir stjórn Nassers sem Sameinaða arabalýðveldið. Til þess að sporna við áhrifum Nassers í arabaheiminum gerði Hússein samning við frænda sinn, Feisal 2. Írakskonung, um að konungsríkin Írak og Jórdanía sameinuðust í arabískt sambandsríki. Þetta arabíska sambandsríki var stofnað þann 14. febrúar 1958 en entist aðeins í sex mánuði, því þann 14. júlí gerður íraskir herforingjar byltingu gegn Feisal og tóku hann af lífi. Írak varð lýðveldi og Jórdanía varð þar með eina konungsríki Hasjemíta.[8]
Deilur arabaríkjanna við Ísrael settu svip sinn á stjórnartíð Hússeins. Þrátt fyrir óvinskap þeirra Nassers neyddist Hússein vegna almenningsálits að undirrita varnarsáttmála með Egyptum þann 30. maí árið 1967.[9] Varnarsáttmálinn leiddi til þess að Jórdanir urðu síðar sama ár þátttakendur í sex daga stríðinu, sem hófst með því að Ísraelar gereyddu egypska flughernum. Arabaríkin guldu afhroð í stríðinu og Jórdanir neyddust til að hörfa frá Austur-Jerúsalem og Vesturbakkanum, sem þeir höfðu hertekið í fyrsta stríðinu við Ísrael árið 1948. Ósigurinn í stríðinu leiddi til nánara samstarfs Hússeins og Nassers.[10]
Vegna ósigra araba í stríðunum gegn Ísrael kom fjöldi palestínskra flóttamanna til Jórdaníu á ríkisárum Hússeins. Vegna hins mikla fjölda landflótta Palestínumanna í Jórdaníu komust Frelsissamtök Palestínu (PLO) til verulegra áhrifa í landinu og urðu nokkurs konar ríki í ríkinu. Róttækari stuðningsmenn samtakanna fóru að kalla eftir því að Hússein yrði settur af vegna linkindar hans gagnvart Ísraelum og konungsveldið lagt niður. Vegna síversnandi átaka milli Hússeins og PLO skipaði Hússein her sínum þann 17. september 1970 að umkringja helstu vígi samtakanna og gera árás. Átökin milli Hússeins og PLO voru kölluð svarti september í Jórdaníu og leiddu til þess að Yasser Arafat, foringi PLO, undirritaði samkomulag þann 13. október þar sem hann hét því að samtökin myndu framvegis hlýða jórdönsku stjórninni.[11] Hermenn PLO voru reknir til Líbanon og átökunum í Jórdaníu lauk þann 17. júlí árið 1971.[11]
Hússein varð í seinni tíð náinn bandamaður Saddams Hussein, forseta Íraks, og viðhélt hlutleysi Jórdaníu þegar Saddam hóf Persaflóastríðið með innrás sinni í Kúveit árið 1991. Bandaríkin litu á hlutleysi Hússeins sem eiginlegan stuðning við innrásina og því hættu þau þróunaraðstoð við Jórdaníu á stríðstímanum.[12] Hússein hvatti þó til friðsamlegrar lausnar á deilunni og hvatti Saddam persónulega til þess að draga burt herlið sitt og leysa gísla frá vesturlöndum úr haldi.[12]
Frá 1991 til 1993 stóðu Jórdanir í friðarviðræðum við Ísraela sem leiddu til þess að Jórdanía undirritaði þann 26. október 1993 formlegan friðarsáttmála við Ísrael og viðurkenndi sjálfstæði Ísraelsríkis.[13] Friðarsamningurinn bætti verulega úr samskiptum Hússeins við Bandaríkin en leiddi til versnandi sambands við Sýrland og forseta þess, Hafez al-Assad.
Hússein lést þann 7. febrúar árið 1999 og fjöldi erlendra þjóðarleiðtoga voru viðstaddir útför hans í Amman. Tveimur vikum fyrir andlát sitt hafði Hússein útnefnt son sinn, Abdúlla, ríkisarfa. Abdúlla tók því við konungdómi eftir dauða Hússeins.[14]
Tilvísanir
breyta- ↑ Dagur Þorleifsson (3. ágúst 1994). „Konungsdraumur“. Tíminn. bls. 6.
- ↑ Dagur Þorleifsson (14. október 1989). „Hússein Jórdaníukonungur“. Þjóðviljinn. bls. 7.
- ↑ „Hússein konungur“. Lesbók Morgunblaðsins. 28. ágúst 1966. bls. 2, 15.
- ↑ „Hussein Jordanskonungur á erfitt í stjórnmálum og ástarmálum“. Fálkinn. 6. febrúar 1959. bls. 4-5, 14.
- ↑ Sveinn Ásgeirsson (3. febrúar 1979). „Kóngur með níu líf“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 2-3.
- ↑ Þorsteinn Thorarensen (14. apríl 1957). „Hussein konungur og Nabulsi deila um Eisenhower-áætlun og framtíð Jórdaníu“. Morgunblaðið. bls. 6.
- ↑ Hiro, Dilip (2003), The Essential Middle East: A Comprehensive Guide, Carroll & Graf Publishers, bls. 352, ISBN 0-7867-1269-4
- ↑ Shlaim, Avi (2009). Lion of Jordan: The Life of King Hussein in War and Peace. Vintage Books. bls. 159–196.
- ↑ „1967 war: Six days that changed the Middle East“. BBC News. 5. júní 2017. Sótt 1. september 2017.
- ↑ Shlaim 2009, bls. 243–255.
- ↑ 11,0 11,1 Shlaim 2009, bls. 311–340.
- ↑ 12,0 12,1 Shlaim 2009, bls. 478–506.
- ↑ Shlaim 2009, bls. 532–546.
- ↑ „Heimsbyggðin kveður Hussein Jórdaníukonung“. Morgunblaðið. 9. febrúar 1999. bls. 36-37.
Fyrirrennari: Talal |
|
Eftirmaður: Abdúlla 2. |