Abdúlla 2. Jórdaníukonungur

Abdúlla 2. (f. 30. janúar 1962) er núverandi konungur Jórdaníu. Hann hefur verið konungur frá því að faðir hans, Hússein Jórdaníukonungur, lést árið 1999. Abdúlla tilheyrir konungsætt Hasjemíta, sem hafa ríkt yfir Jórdaníu frá árinu 1921 og telja sig afkomendur Fatímu, dóttur Múhameðs spámanns.

Skjaldarmerki Hasjemítaætt Konungur Jórdaníu
Hasjemítaætt
Abdúlla 2. Jórdaníukonungur
Abdúlla 2.
عبدالله الثاني بن الحسين‎
Ríkisár 7. febrúar 1999
SkírnarnafnAbdúlla bin Hússein bin Talal bin Abdúlla
Fæddur30. janúar 1962 (1962-01-30) (62 ára)
 Amman, Jórdaníu
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Hússein Jórdaníukonungur
Móðir Múna al-Hússein
DrottningRanía Al-Jassin
Börn4

Æviágrip

breyta

Abdúlla fæddist í Amman og var frumburður Hússeins konungs og seinni eiginkonu hans, hinnar breskættuðu Múnu prinsessu. Sem elsti sonur konungsins var Abdúlla erfingi að jórdönsku krúnunni þar til Hússein útnefndi hans í stað bróður sinn, Hassan prins, sem erfingja árið 1965. Abdúla hóf nám sitt í Amman en fór síðan í framhaldsnám erlendis. Hann hóf þjónustu í jórdanska hernum árið 1980 sem liðþjálfi, tók síðan við stjórn sérsveita hersins árið 1994 og varð majór-hershöfðingi árið 1998. Árið 1993 giftist Abdúlla Raníu Al-Jassin, breskri konu af palestínskum ættum. Hjónin eiga fjögur börn: Hússein krónprins, Íman prinsessu, Sölmu prinsessu og Hasjem prins. Nokkrum vikum áður en Hússein konungur lést árið 1999 útnefndi hann Abdúlla erfingja sinn á ný og Abdúlla tók því við ríkinu af föður sínum.

Abdúlla ríkir yfir þingbundinni konungsstjórn en nýtur þó talsverðra valda sem yfirmaður hersins og hefur mikil áhrif yfir jórdanska stjórnkerfinu. Þegar Abdúlla tók við völdum var efnahagur Jórdaníu í slæmu standi vegna fyrra Persaflóastríðsins. Faðir hans hafði neitað að taka þátt í því og vesturveldin höfðu túlkað hlutleysi hans sem eiginlegan stuðning við Saddam Hussein. Á fyrstu valdaárum sínum frjálslyndisvæddi Abdúlla jórdanska efnahaginn og efnahagsumbætur hans leiddu til góðæris sem entist til ársins 2008.[1] Á næstu árum leið efnahagur Jórdaníu fyrir alþjóðlegu fjármálakreppuna og fyrir arabíska vorið, sem leiddi til þess að skorið var á olíubirgðir landsins og verslun við nágrannaríkin hrundi.

Óeirðirnar sem brutust út í arabíska vorinu leiddu til uppreisna og borgarastyrjalda í mörgum nágrannaríkjum Jórdaníu en Abdúlla brást fljótt við uppreisnaröldunni með því að leysa ríkisstjórn sína frá störfum og koma á ýmsum nýjum umbótum á persónufrelsi og kosningalögum. Árið 2016 voru teknar upp hlutfallskosningar á jórdanska þingið og Abdúlla lýsti því yfir að þetta ætti að stuðla að þróun þingræðis í Jórdaníu. Þessar umbætur voru gerðar á meðan Jórdanía var í fordæmalausri stöðu vegna óstöðugleika nágrannaríkjanna, sem leiddi til komu um 1,4 milljóna sýrlenskra flóttamanna til landsins og hryðjuverkaógnar af völdum íslamska ríkisins.

Abdúlla er vinsæll bæði heima fyrir og á alþjóðavísu fyrir að hafa tekist að viðhalda stöðugleika í landinu, fyrir að hvetja til samræðu milli trúarbragða og fyrir að hvetja til hófsamrar túlkunar á íslamstrú. Abdúlla er verndari íslamskra og kristinna helgireita í Jerúsalem, en fjölskylda hans hefur gegnt því hlutverki frá árinu 1924.[2]

Í október 2021 var upplýst í Pandóruskjölunum svokölluðu að Abdúlla hefði eytt um hundrað milljónum Bandaríkjadala í eignir í Bandaríkjunum og í Bretlandi í gegnum fyrirtæki í skattaskjólum. Voru þar á meðal þrjár glæsivillur í Kaliforníu og lúxusíbúðir á dýrustu götum Lundúna.[3] Jórdanska konungshöllin vísaði á bug fullyrðingum í Pandóruskjölunum og sagði þau geyma óná­kvæm­ar og af­bakaðar upp­lýs­ing­ar.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. „Abdúlla verið konungur í 20 ár“. Fréttablaðið. 7. febrúar 2019. Sótt 20. september 2019.
  2. „Jerusalem deal boosts Jordan in Holy City: analysts“. The Daily Star. 2. apríl 2013. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. febrúar 2017. Sótt 27. mars 2019.
  3. Ólöf Rún Erlendsdóttir (3. október 2021). „Pandora skjölin – Fjármál þjóðarleiðtoga opinberuð“. RÚV. Sótt 14. október 2021.
  4. „Vísa á bug fullyrðingum í Pandóruskjölum“. mbl.is. 4. október 2021. Sótt 14. október 2021.


Fyrirrennari:
Hússein
Konungur Jórdaníu
(7. febrúar 1999 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti