Hjálpræðisherinn

mótmælendatrú og góðgerðarsamtök

Hjálpræðisherinn er trúboðshreyfing og trúfélag sem upprunnið er í Bretlandi á Viktoríutímanum. Upphafsmenn og stofnendur Hjálpræðishersins voru trúboðinn William Booth og kona hans Catherine Booth. William Booth var trúboði og prédikari í meþódistasöfnuði.

Samkoma Hjálpræðishersins á Lækjartorgi 1903
Áhlaup Hjálpræðishersins á fiskiþorp. Málverk eftir Wilhelm Peters
Málverk eftir Gustaf Ceterström sem sýnir Katie Booth dóttir stofnenda Hjálpræðishersins prédika á knæpu í París
Booth hjónin, stofnendur Hjálpræðishersins

Kristilegt trúboðsfélag verður her

breyta

William Booth og kona hans höfðu um áraraðir haldið samkomur sem voru líkar samkomum þar sem endurlífganir (e. revivals) meþódista fóru fram. Árið 1877 kallaði einn predikari í söfnuði þeirra sig flokksforingja og trúboðsliðið hallelújaherinn og verkið sem hann vann Stríðið í Whitby. Upp úr því sprettur að Booth fer að tala um söfnuð sinn sem Hjálpræðisherinn (e. Salvation Army) en nafn hans var áður "trúboðsfélagið kristilega". Þessi herorðræða virkaði svo vel að Booth fór að tala um bænaskothríð og við stöku tækifæri áttu allir liðsmenn á samkomum að rétta upp hendur eftir skipun fyrirliðans. Það þurfti að fara njósnaferðir, halda herráð og herforingjaráðstefnur og í stað safnaðarins var kominn her og þar voru fylkisstjórar, sveitarforingjar og hundraðshöfðingjar. Hið fyrrverandi meþódiska trúboðsfélag var með aðalbækistöðvar í London og hvarvetna sem það sótti fram þá var dreginn á loft rauður fáni sem á var dregið blóð og eldur; blóð Jesú Krists og eldur heilags anda.

Booth samdi kverið "order and regulations for the Salvation Army" eftir hermannakveri Sir Garnet Wolseleys og varð það handbók liðsmanna Hjálpræðishersins. Haldin var herforingjaráðstefna í ágúst 1878 þar sem hinu kristilega trúboðsfélagi var slitið og kom Hjálpræðisherinn í staðinn. Sama ár stofnaði Hjálpræðisherinn hermannaskóla til að mennta foringjaefni sín. Settar voru upp sölubúðir til að selja einkennisbúninga og greiningarmerki. Einkennisbúnir karlar og konur fóru um torg með hljóðfæraslætti og þá þyrptist að múgur og voru stundum róstur og liðsmenn særðir.

Hjálpræðisherinn og Beinagrindaherinn

breyta

Vínsölumenn voru andsnúnir Hjálpræðishernum því innan hans var lögð áhersla á strangt bindindi. Vínsölumenn gerðu út her á móti Hjálpræðishernum sem þeir kölluðu Beinagrindaherinn (e. Skeleton Army). Merki Beinagrindahersins var beinagrind eða hauskúpa með tveimur leggjum. Rimmur voru á milli "herjanna" og voru sumir af liðsmönnum og fyrirliðum Hjálpræðishersins settir í varðahald fyrir róstur og friðarspjöll. Biskupar bresku ríkiskirkjunnar tóku afstöðu með Hjálpræðishernum og veitti erkibiskupinn af Kantaraborg Hjálpræðishernum fjárstyrk. Gengi hersins óx þegar honum auðnaðist að "taka herskildi" illræmt leikhús í útjaðri Lundúna. Það var gert gegnum samskot frá almenningi sem gengu vel. Hjálpræðisherinn fór í útrás viða um lönd Árið 1881 fór ein sveit Hjálpræðishersins undir forustu Katrínar Booth sem var dóttir Booth hjónanna til Parísar til að vinna Parísarborg. Herinn setti upp stórar auglýsingar á breiðgötum borgarinnar og undir stóðu hópar af hallelúja-stúlkum í einkennisbúningum sínum. Fundir Hjálpræðishersins voru um skeið bannaðir í París vegna þess að þeim fylgdi ærsl og órói.

Hjálpræðisherinn á Íslandi

breyta
 
Liðsmenn Hjálpræðishersins á Íslandi vorið 1909
 
Hús Hjálpræðishersins í byggingu 1916.
 
Merki Hjálpræðishersins.

Hjálpræðisherinn starfar á Akureyri, í Reykjanesbæ, í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Þann 12. maí 1895 hófst starf Hjálpræðishersins á Íslandi með útisamkomu á Lækjartorgi og samkomu í Góðtemplarahúsinu. Í byrjun maí þetta ár komu til Reykjavíkur danskur yfirforingi Christian Erichsen að nafni og íslenskur kapteinn Þorsteinn Davíðsson en hann var ættaður var frá Vatnsdal í Húnavatnssýslu. Þeir keyptu fyrir starfsemina á Íslandi hús við Kirkjustræti 2 sem áður hét Hótel Reykjavík en var eftir það nefnt Herkastalinn. Þann 2. apríl 1898 var gistiheimili opnað í Herkastalum. Gistiheimili á vegum Hjálpræðishersins voru svo opnuð á Akureyri 1916, í Hafnarfirði 1920, á Ísafirði 1922, á Seyðisfirði 1923 og einnig voru um hríð gistiheimili á Norðfirði og í Vestmannaeyjum. Einnig var sett á stofn Vistheimilið Bjarg á Seltjarnarnesi árið 1968. Hjálpræðisherinn gefur út ritið Herópið.

Trúfélag Hjálpræðishersins var með 240 meðlimi árið 2022.

Hjálpræðisherinn í bókmenntum og listum

breyta

Í fyrri bók Halldórs Laxness um stúlkuna Sölku Völku kemur Hjálpræðisherinn töluvert við sögu. Sagan hefst á því að mæðgurnar, umkomulaus kona og stúlkubarn koma í fiskiþorp og fara á samkomu hjá Hjálpræðishernum. Sagan heitir Þú vínviður hreini og er sá titill sóttur í sálm eftir skáld Hjálpræðishersins Sigurbjörn Sveinsson en hann orti þennan sálm í Bolungarvík. Matthías Johannessen skrifaði leikritið Fjarðafok en sögusviðið er vistheimilið Bjarg sem Hjálpræðisherinn rak á Seltjarnarnesi. Steinn Steinarr orti ljóð um Jón Kristófer kadett í hernum.

Heimildir

breyta