Karl 6. Frakkakonungur

(Endurbeint frá Karl 6.)

Karl 6. (3. desember 136821. október 1422), kallaður hinn ástkæri (franska: le Bien-Aimé) og hinn brjálaði (franska: le Fol eða le Fou) var konungur Frakklands frá 1380 til dauðadags. Hann var af Valois-ætt. Hann var líklega geðklofasjúklingur og virðist veikin hafa byrjað að koma fram þegar hann var hálfþrítugur. Það var ein ástæða fyrir slöku gengi Frakka í Hundrað ára stríðinu á stjórnarárum hans og þegar hann lést var mikill hluti Frakklands undir enskri stjórn.

Karl 6. Mynd frá um 1412.

Karl var sonur Karls 5. og Jóhönnu af Bourbon. Faðir hans dó árið 1380 og Karl 6. var krýndur konungur í Reims aðeins ellefu ára að aldri. Fram til 1388 stýrði föðurbróðir hans, Filippus djarfi, hertogi af Búrgund, landinu að mestu.

Veikindi konungs

breyta
 
Karl 6. gripinn geðveiki á leið til Bretagne.

Fyrst er vitað til að borið hafi á geðveiki Karls árið 1392 þegar reynt var að myrða vin hans og ráðgjafa, Olivier de Clisson. Tilræðismaðurinn leitaði athvarfs í Bretagne og er sagt að Karl hafi verið svo æstur að elta hann uppi að hann hafi varla verið mælandi. Hann hélt af stað til Bretagne með herlið en á leiðinni missti hann alveg stjórn á sér og drap nokkra af mönnum sínum af því að hann hélt að þeir væru óvinir.

Konungurinn hélt áfram að fá köst það sem hann átti ólifað. Stundum mundi hann ekki nafn sitt eða að hann var konungur og þekkti ekki konu sína, börn eða aðra nákomna. Stundum hljóp hann í æði um ganga hallar sinnar. Stundum var hann sannfærður um að hann væri úr gleri og gerði ýmsar varúðarráðstafanir til að brotna ekki.

Þótt geðsýki konungs kæmi í köstum og hann væri hugsanlega fær um að stýra ríkinu inn á milli var ljóst að einhver annar þurfti að halda um stjórnartaumana og upphófst því valdabárátta á milli ættingja hans. Föðurbræður hans, Filippus djarfi hertogi af Búrgund og Jóhann hertogi af Berry, tóku stjórnina og ráku helstu ráðgjafa konungs. Yngri bróðir Karls, Loðvík 1. hertogi af Orléans, vildi líka ráða og var baráttan einkum á milli hans og Filippusar djarfa og síðar Jóhanns óttalausa, sonar Filippusar, eftir að Filippus dó í apríl 1404. Árið 1407 var hertoginn af Orléans myrtur á götu í París að undirlagi Jóhanns óttalausa.

Hundrað ára stríðið

breyta

Hundrað ára stríðið hélt áfram allan valdatíma Karls þótt lítið væri um bein stríðsátök framan af. Reynt var að skapa frið árið 1396 með hjúskapartengslum þegar Ísabella, elsta dóttir Karls 6., tæplega sjö ára gömul, var látin giftast Ríkharði 2. Englandskonungi, sem var 29 ára. Honum var þó steypt af stóli þremur árum síðar og Ísabella sneri aftur til Frakklands og giftist síðar frænda sínum, Karli hertoga af Orléans, syni Loðvíks 1. hertoga. Hún varð þó skammlíf og Karl giftist árið 1410 Bonne, dóttur Bernharðs greifa af Armagnac. Móðir Karls hertoga hafði látið hann sverja að leita hefnda eftir föður sinn og nú leitaði Karl liðsinnis tengdaföður síns og leiddi það til stríðsátaka á milli Armagnanc og Búrgundar.

Þessi og önnur innanlandsátök í Frakklandi leiddu til þess að Hinrik 5. Englandskonungur sá sér leik á borði og gerði innrás árið 1415 og vann stórsigur á Frökkum í orrustunni við Agincourt. Frakkar lögðu undir sig stóran hluta landsins og Jóhann óttalausi ákvað að reyna að ná sættum við konungsfjölskylduna með samkomulagi við Karl krónprins, fimmta og eina eftirlifandi son Karls 6. sem var nær fullvaxta og vildi komast til valda. Þeir hittust á fundi 10. september en þar var Jóhann drepinn af mönnum prinsins. Varð það til þess að sonur Jóhanns og erfingi, Filippus góði hertogi af Búrgund, gekk í lið með Englendingum.

Árið 1420 undirritaði Karl konungur Troyes-sáttmálann og viðurkenndi þar Hinrik 5. Englandskonung sem eftirmann sinn, samdi um hjónaband hans og dóttur sinnar, Katrínar af Valois, en svipti Karl krónprins arfi og lýsti því yfir að hann væri óskilgetinn. Krónprinsinn flúði á náðir hinnar valdamiklu Jólöndu drottningar af Aragóníu og giftist dóttur hennar nokkru síðar.

Karl 6. dó haustið 1422 en Hinrik 5. varð þó ekki konungur alls Frakklands við lát hans því hann hafði dáið tveimur mánuðum á undan tengdaföður sínum. Sonur Hinriks og Katrínar, Hinrik 6. var lýstur konungur alls Frakklands af Englendingum en Karl 7. lýsti sig einnig konung og nokkrum árum síðar tókst honum, með stuðningi Jóhönnu af Örk, að ná raunverulegu konungsvaldi og láta krýna sig. Síðar kom í ljós að Hinrik 6. hafði að líkindum erft geðsýki afa síns.

Fjölskylda

breyta

Karl giftist Ísabellu af Bæjaralandi árið 1385, þegar hann var 15 ára. Hún var valdamikil eftir að maður hennar veiktist en hefur ekki gott orð á sér í franskri sögu, einkum vegna mikils orðróms sem gekk um framhjáhöld hennar. Ekki er þó víst að hann eigi við mikil rök að styðjast, enda fóru þær sögur aðallega að heyrast eftir að Troyes-sáttmálinn var gerður 1420 og Englendingum og öðrum andstæðingum Karls 7. var í mun að koma að þeirri skoðun að hann væri óskilgetinn og ætti því ekki rétt til ríkiserfða.

Karl 6. og Ísabella eignuðust tólf börn, sjö syni og fimm dætur. Allir synirnir nema Karl 7. dóu fyrir tvítugt; tveir náðu þó að kvænast en áttu ekki börn. Ísabella giftist fyrst Ríkharði 2. Englandskonungi og síðar Karli hertoga af Orléans og dó af barnsförum nítján ára. Jóhanna giftist Jóhanni 6. hertoga af Bretagne, Mikaela giftist Filippusi góða, hertoga af Búrgund, María varð nunna og Katrín giftist fyrst Hinrik 5. Englandskonungi og síðan (líklega) Owen Tudor.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Karl 5.
Konungur Frakklands
(13801422)
Eftirmaður:
Karl 7.