Helgi Pjeturss
Dr. Helgi Pjeturss (31. mars 1872 – 28. janúar 1949) var íslenskur jarðfræðingur og dulvísindamaður, og er einna frægastur fyrir bækur sínar sem hann skrifaði um þau efni.
Nám og störf
breytaForeldrar Helga voru Pétur Pétursson bæjargjaldkeri í Reykjavík og Anna Sigríður Vigfúsdóttir Thorarensen píanóleikari.
Helgi hóf nám við Hafnarháskóla 1891 og lauk prófi í náttúrufræði 1897. Um það leyti fór hann til Grænlands í rannsóknarleiðangri Frode Petersen. Hann lauk síðan doktorsprófi frá Hafnarháskóla 1905 og varð fyrstur Íslendinga til að taka slíkt próf í jarðfræði. Doktorsritgerð hans nefnist Om Islands geologi. Helgi fór í margar rannsóknarferðir um Ísland á árunum 1898-1910 og gerði merkar vísindalegar uppgötvanir og skrifaði margt sem lengi mun halda nafni hans á lofti meðal jarðfræðinga. Hann var með fyrstu jarðfræðingum til að átta sig á því að ísöldin hafði ekki verið einn samfelldur fimbulvetur heldur skiptust á jökulskeið og hlýskeið.
Helgi var formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) 1901-1905.
Á síðari hluta ævi sinnar hneigðist Helgi að heimspeki, stjörnulíffræði og dulvísindum og skóp kenningu sem sneri að því að maðurinn væri jafnefnislegur á öðrum plánetum eftir dauða sinn, og lifði á slíkum hnetti sem samsvaraði andlegu þroskastigi viðkomandi. Draumar okkar hér á jörðinni væru auk þess sýn inn í líf á öðrum plánetum. Um þessi efni skrifaði hann Nýalsbækur sínar, sex að tölu, og fjölmargt fleira.
Kona Helga var Kristín Brandsdóttir frá Hallbjarnareyri.
Nýalsbækur Helga Pjeturss
breyta- Nýall: nokkur íslensk drög til heimsfræði og líffræði - (1919)
- Ennnýall: nokkur íslensk drög til skilnings á heimi og lífi - (1929)
- Framnýall: björgun mannkynsins og aðrir aldaskiftaþættir - (1941)
- Sannnýall: saga Frímanns eftir að hann fluttist á aðra jörð og aðrir Nýalsþættir (1943)
- Þónýall: íslensk vísindi og framtíð mannkynsins og aðrir Nýalsþættir - (1947)
- Viðnýall (1955)
Önnur ritverk Helga Pjeturss
breyta- Um Grænland að fornu og nýju, eftir Finn Jónsson og Helga Pétursson
- Island (jarðfræðirit á þýsku sem kom út árið 1910)
Heimildir
breyta- Vilhjálmur Þ. Gíslason (ritstj.). Ferðabók Helga Pjeturss (Reykjavík: Bókfellsútgáfan, 1959).
- Steindór Steindórsson frá Hlöðum. Íslenskir náttúrufræðingar (Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1981).
- Elsa G. Vilmundardóttir, Samúel D. Jónsson og Þorsteinn Þorsteinsson. Helgi Pjeturss og jarðfræði Íslands. Baráttusaga íslensks jarðfræðings í upphafi 20. aldar (Pjaxi, 2003).
- Pétur, Pétursson, Nýalismi og dulspeki Hugmyndafræði íslenskrar borgarastéttar á öðrum og þriðja áratug 20. aldar, Ritröð Guðfræðistofnunar, 35. tölublað (01.09.2012), Blaðsíða 100