Hið íslenska náttúrufræðifélag

Hið íslenska náttúrufræðifélag (HÍN) er íslensk félagasamtök sem stofnuð voru 16. júlí árið 1889. Tilgangur félagsins er að efla íslensk náttúruvísindi, glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu sem snertir náttúrufræði og tengdar greinar. Félagið stendur fyrir fræðslufyrirlestrum um náttúrufræðileg efni mánaðarlega, frá október til maí, að jafnaði síðasta mánudag hvers mánaðar. Fræðsluferðir til alhliða náttúruskoðunar eru farnar að sumarlagi. Innganga í félagið er öllum heimil. Hið íslenska náttúrufræðifélag gefur út félagsbréf og dreifir til félagsmanna sinna.

Merki HÍN
Tímaritið Náttúrufræðingurinn er félagsrit Náttúrufræðifélagsins
Benedikt Gröndal, yngri, fyrsti formaður HÍN.

Fyrstu formenn félagsins voru Benedikt Gröndal skáld og náttúrufræðingur (1889-1900), Helgi Pjeturss jarðfræðingur og nýalisti (1900-1905) og Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur (1905-1940). Kristín Svavarsdóttir plöntuvistfræðingur gegndi formennsku félagsins 2002-2009 en núverandi formaður er Ester Rut Unnsteinsdóttir, líffræðingur.

Tímaritið Náttúrufræðingurinn er félagsrit Náttúrufræðifélagsins.

Náttúrugripasafn breyta

Einn aðaltilgangurinn með stofnun HÍN var „að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi.“ Slíku safni var ætlað að vera landssafn, sem hefði setur sitt í höfuðborg landsins. HÍN stofnaði síðan og rak náttúrugripasafn í 58 ár, á tímabilinu 1889–1947, eða þangað til safnið var afhent ríkinu til eignar og rekstrar, ásamt vænum húsbyggingarsjóði, sem félagið hafði safnað í tímans rás. Náttúrugripasafnið þróaðist síðan í Náttúrufræðistofnun Íslands. Safnið var lengi hluti af stofnuninni og hafði sýningaraðstöðu á Hlemmi. Árið 2007 voru sett ný lög um Náttúruminjasafn Íslands og nú er unnið að því að skapa því viðunandi sess koma upp nýrri sýningaraðstöðu. Af þessu sést að Náttúrufræðistofnunin og Náttúruminjasafnið eru bæði afsprengi Hins íslenska náttúrufræðifélags.

Tengill breyta

Heimildir breyta

  • Ragnhildur Sigrún Björnsdóttir 2007: Vísindin efla alla dáð. Hið íslenzka náttúrufræðisfélag. MA-ritgerð, Háskóli Íslands, 140 bls.