Helgi Hóseasson
Helgi Hóseasson (21. nóvember 1919 í Höskuldsstaðaseli í Breiðdal - 6. september 2009) var íslenskur trésmiður, trúleysingi og sósíalisti sem er þekktastur fyrir mótmæli sín og var síðustu ár sín stundum nefndur Mótmælandi Íslands. Mótmæli Helga stóðu allt frá árinu 1962 til síðustu ára hans. Mótmælin beindust í fyrstu gegn meintum órétti, sem honum fannst hann hafa verið beittur af íslenska ríkinu allt frá fæðingu, en síðar einnig stuðningi íslensks ríkisvalds við stríð og ójöfnuð.
Krafa um réttlæti
breytaÓréttlætið sem Helgi sagðist þurfa að þola fólst í því að hann gat ekki fengið kirkju, dómstóla eða annað yfirvald til að rifta skírnarsáttmála sínum. Kirkjan og samfélagið vildu ekki viðurkenna að hann væri ekki lengur bundinn loforðum gefnum við skírn og fermingu. Eftir að hann rifti sjálfur skírninni í beinni útsendingu í miðri útvarpsmessu frá dómkirkjunni í Reykjavík, með „athöfn“ sem hann bjó til sjálfur, fór hann líka að krefjast þess að það yrði bókað í Þjóðskrá. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðstoð lögfræðings hafði Helgi ekki fengið kröfum sínum framgengt við andlát sitt.
Þegar ekki gekk að fá kröfunum fullnægt eftir þeim boðleiðum sem kerfið bauð upp á, skrifaði Helgi alþingismönnum og fleiri valdamönnum bréf, og sagði að ef ekki yrði orðið við kröfu hans væru þeir ábyrgir fyrir framhaldinu. Hóf hann svo vísvitandi lögbrot, meðal annars að trufla guðsþjónustur með því að hringja kirkjuklukkunum, í því augnamiði að verða kærður og geta þá notað tækifærið til að kæra íslenska ríkið og biskup fyrir mannréttindabrot. Hann var oft fjarlægður af lögreglu fyrir þessi tiltæki, en aldrei kærður fyrir þau.
Skyrslettur 1972
breytaFrægast af þessum tiltækjum var þegar Helgi sletti þunnt úthrærðu skyri á forseta Íslands, biskup og alþingismenn við þingsetningu árið 1972. Hann var tekinn fastur, nauðungarvistaður á Kleppi, en samkvæmt geðlækninum hans var hann ekki haldinn geðsjúkdómi, en væri líklega með kverúlant-paranoju, byggi við sérviskulega heimsmynd og notaði sérkennilegt orðfæri. Læknisskýrslan átti að vera trúnaðarmál, en Helgi stal henni og fjölritaði og seldi síðan á Lækjartorgi og víðar gegn vægu verði, ásamt Ésúrímum og fleira efni sem átti að storka yfirvöldum. Þegar Helgi var spurður í viðtali á Útvarpi Sögu í júní 2007 af hverju hann hefði skvett skyri en ekki einhverju öðru sagðist hann ekki hafa viljað skaða sjón mannanna með sýru eða öðru hættulegu. Seinna skvetti Helgi svo tjöru og ryðvarnarefni á stjórnarráðshúsið ásamt því að brjóta í því rúðu.
Kirkjubruni 1982
breytaVeturinn 1982 vann Helgi við smíðar á heimaslóðum sínum, við nýja kirkju á prestsetrinu í Heydölum, þar sem bróðir hans var prestur. Þá brá svo við, einu sinni þegar Helgi var einn á staðnum, að gamla kirkjan við Heydali brann, þótt ekkert rafmagn væri í henni, því það var búið að vígja nýja kirkju. Helga var kennt um brunann og yfirheyrður, en málið hefur aldrei verið upplýst. Sjálfur játaði Helgi því hvorki né neitaði að hafa kveikt í, benti (stundum glottandi) á aðra möguleika og sagði að það skyldi þá bara kæra hann - en það var aldrei gert.
Langholtsvegur
breytaHelgi bjó lengi í Skipasundi og fór flesta daga upp á Langholtsveg, þar sem hann stóð með mótmælaskilti og mótmælti ýmist kirkjunni, stríðsrekstri úti í heimi, tóbaksreykingum eða öðru. Þegar hann lést voru settir þar tveir minnisvarðar um hann þar sem hann hafði verið vanur að standa, annars vegar bekkur með útskornu baki og mótmælaskilti fest á, hins vegar hella felld í gangstéttina með fótsporum og fari eftir skilti, og áletruninni „Hver skapaði sýkla?“ Fyrri minnisvarðinn var skemmdur af óþekktum skemmdarvörgum í janúar 2015.
Mótmælandi Íslands
breytaÁrið 2003 var heimildarmyndin Mótmælandi Íslands frumsýnd. Hún fjallar um Helga og mótmælastöður hans og hlaut tilnefningu til Eddunnar fyrir bestu heimildarmyndina sama ár. Höfundar myndarinnar voru þau Þóra Fjeldsted og Jón Karl Helgason. Helgi hafði þótt vera furðufugl, en samúð almennings með honum jókst þegar myndin hafði verið sýnd í kvikmyndahúsi og sjónvarpi.
Kveðskapur
breytaHelgi orti þónokkuð margar ferskeytlur, sumar um málstað sinn og aðrar með guðlasti, í von um að fá á sig ákæru. Dæmi:
- Ríkisóstjórn rög og hvinn
- rétt af mér vill herja,
- bandóðrískan búra sinn
- blóðstjórn ólm skal verja.
- Krosslafs hræ við láð varð laust
- ljótt með kauna aman.
- Til himna líkt og skrugga skaust
- með skítogöllusaman.
- Mikið Jósef mátti smíða,
- Máría var heitin rekk,
- Éhóvi með jarlinn stríða
- Ésú undir komið fékk.
Lesefni
breyta- Helgi Hóseasson 1919: Ríó og rögn þess / Helgi Hóseasson, Reykjavík , [1976].
Heimildir
breytaTenglar
breyta- Helgi Hóseasson á Internet Movie Database
- Viðtal í heild sinni, sem Mannlíf birti hluta af, árið 1997
- Helgi Hóseasson í 30 daga varðhald; grein í Morgunblaðinu 1974[óvirkur tengill]
- Stjórnarráðið vatnsblásið; grein í Morgunblaðinu 1974[óvirkur tengill]
- Orðlaus mótmæli; grein í Morgunblaðinu 1975 Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine
- Ævistríð Helga Hóseassonar; grein í Morgunblaðinu 1997
- Tvö þúsund manns vilja reisa minnisvarða um mótmælanda Íslands; af Vísi.is