Hans Olof „Hasse“ Jeppson (f. 10. maí 1925 - d. 21. febrúar 2013) var knattspyrnumaður frá Svíþjóð. Hann var í keppnisliði Svía sem hlaut bronsverðlaun á HM 1950. Árið 1952 varð hann dýrasti leikmaður sögunnar eftir félagaskipti sín frá Atalanta til Napoli.

Hasse Jeppson í eldlínunni með sænska landsliðinu.

Ævi og ferill

breyta

Hasse Jeppson fæddist í Kungsbacka og hóf knattspyrnuferil sinn með Örgryte. Þaðan lá leiðin til Djurgårdens IF þar sem hann skoraði 58 mörk í 51 leik á árabilinu 1948-51. Á þeim árum lék hann tólf landsleiki og skoraði þar níu mörk. Tvö þeirra komu í 3:2 sigri á Ítölum í fyrsta leik Svía á HM í Brasilíu 1950. Sigurinn fór langleiðina með að tryggja sænska liðinu sæti í úrslitariðli keppninnar þar sem þeir hlutu þriðja sæti.

Leiktíðina 1950-51 varð Jeppson markhæstur í sænsku 1. deildinni og gerðist hann í kjölfarið atvinnumaður með Charlton Athletic í Lundúnum. Þar með var landsliðsferillinn á enda, þar sem Svíar völdu einungis áhugamenn í lið sitt á þessum árum. Eftir stutta dvol á Englandi lá leiðin til Ítalíu. Fyrst til Atalanta en svo til Napoli árið 1952. Kaupverðið var 105 milljón lírur sem var jafnframt heimsmet. Metinur hélt Leppson í tvö ár, uns AC Milan festi kaup á Juan Schiaffino.

Með Napoli lék Jeppson við góðan orðstír í fjögur ár. Þá gekk hann í raðir Torino áður en hann lagði skóna á hilluna árið 1957.

Hann lést í Róm árið 2013.

Heimildir

breyta