Hans Küng
Hans Küng (f. 1928; d. 2021) var svissneskur guðfræðingur. Hann er einn af best þekktu guðfræðingum samtímans.
Küng fæddist 1928, sótti frjálslyndan menntaskóla í Luzern og fékk síðan stranga, kaþólska guðfræðimenntun í anda nýskólaspekinnar við Gregórshákólann í Róm (heimspeki 1948-51, guðfræði 1951-55, prestsvígsla 1954). Framhaldsnám í Sorbonne í París (1955-57), þar sem hann skrifaði um réttlætingarkenningu Karls Barths Rechtfertigung. Die Lehre Karl Barths und eine katholische Besinnung (1957). Bók sú vakti athygli fyrir tvennt. Karl Barth mælti með henni sem sannri umfjöllun um kenningar sínar. Hitt vakti undrun, að kaþólskur guðfræðingur gat haldið því fram, að friðþægingarkenningin hafi ekki átt að valda kirkjuklofningi á sextándu öldinni, og að kenningin geti sameinað kirkjudeildirnar í nútímanum.
Frægð sína á hann starfi sínu við og kringum síðara Vatíkanþingið (1959-1965) að þakka, en þar var hann einn mótenda umbótastefnunnar, sem varð niðustaða þingsins. Eðlilegt framhald þessa starfs voru rit hans um kirkjuna, einkum Die Kirche (1967), þar sem hann dró upp kaþólska kirkjufræði, sem jafnframt getur talist samkirkjuleg. Á áttunda áratugnum skrifaði hann tvær bækur sem fóru sigurför um heiminn: Christ sein (1974) og Existiert Gott? Antwort auf die Gottesfrage der Neuzeit (1978).
Einkenni þessara bóka er, að þær eru almennt skiljanlegar jafnframt því að vera vísindalegar og framsæknar. Jafnframt því var Küng einn háværasti gagnrýnandi afturhaldsstefnu í Páfagarði, sem leitaðist við að gera að engu umbótastefnu Vatíkanþingsins. Bók hans um óskeikulleika Páfans Unfehlbar? Eine Anfrage (1970), skrifuð í kjölfarið á páfabréfinu Humanae vitae (1968), sem endurtók hefðbundna kaþólska kynlífs-, hjónabands- og fjölskyldusiðfræði, í stað þess að kenna í anda Vatíkanþingsins, varð til þess að Hans Küng komst í alvarleg vandræði við Páfagarð. Árið 1979, eftir að Jóhannes Páll II. páfi komst til valda, var Hans Küng sviftur kennsluréttindum sínum við kaþólsku guðfræðideildina í Tübingen, en þar hafði hann gengt prófessorstöðu í trúfræði og samkirkjulegri guðfræði síðan 1960.
Háskólinn kom Küng til hjálpar og í samvinnu við bókmenntafræðinginn Walter Jens kom Hans Küng á fót „Studium generale“, stofnun við háskólann þar sem almenningur hefur möguleika að hlýða á fyrirlestra úr öllum greinum raun- og hugvísinda. Hans Küng hélt prófessorstöðu sinni og stýrði (kaþólskri) deild samkirkjulegrar guðfræði, sem stofnuð var 1964 til 1998, þegar hann fór á eftirlaun. Hann var forseti Global Ethic Foundation, sem dregur nafn sitt af samnefndri bók hans, gefin út 1990. Jafnframt því að kenna guðfræði í Tübingen, hefur Hans Küng verið eftirsóttur fyrirlesari um allan heim.
Ytri tenglar
breyta- Global Ethic Foundation Geymt 13 maí 2007 í Wayback Machine